Arctic Oddi leitar samstarfsaðila eða kaupenda

Arctic Oddi leitar samstarfsaðila eða kaupenda
October 14, 2014 Elín

Arctic Oddi á Flateyri hyggst hætta vinnslu á hefðbundnum sjávarafla og einbeita sér alfarið að eldisafurðum. Leitað er eftir kaupendum eða samstarfsaðilum vegna bolfiskvinnslu félagsins á Flateyri.

Arctic Oddi hefur stundað fiskvinnslu á Flateyri undanfarin þrjú ár þar sem bæði hefur verið vinnsla á hefðbundnum sjávarafla og eldisafurðum og hafa starfsmenn að jafnaði verið um þrjátíu. Hefur hefðbundna vinnslan hingað til verið rekin með tapi og því hefur verið tekin ákvörðun um að hætta vinnslu á hefðbundnum sjávarafla.

Fyrirtækið hefur á undanförnum árum byggt upp sérhæfða eldisvinnslu í samstarfi við systurfélag sitt, Dýrfisk. Dýrfiskur hefur í dag leyfi til þess að ala allt að tvö þúsund tonn af regnbogasilungi og laxi í Dýrafirði en hægt hefur gengið að fá aukningu eldisleyfa sem forsenda þess að byggja þar upp arðbæran rekstur. Eldisferlið sjálft frá klaki til fullvinnslu afurða er hátt í þrjú ár og því er mikilvægt að uppbygging og staðfesting eldisleyfa haldist í hendur svo hægt sé að tryggja atvinnuöryggi og uppbyggingu starfseminnar.

Arctic Oddi mun því aðeins halda eftir kjarnastarfseminni sem er vinnsla á eldisafurðum. Verður sú framleiðsla árstíðabundin á meðan verið er að byggja upp og tryggja frekari eldisleyfi. Félagið leitar því nú eftir kaupendum eða samstarfsaðilum á bolfiskvinnslu félagsins.