Flæktist út á sjó á flótta

Flæktist út á sjó á flótta
January 23, 2015 Elín

Anna Kristjánsdóttir fór sem unglingur á sjó því hún fann sig ekki í skóla og var á flótta undan
sjálfri sér. Leiðin lá fljótt niður í vélarrúmið og ákvað hún að fara í Vélskólann til að afla sér réttinda.
Eftir rúm tuttugu ár á sjó fannst henni kominn tími til að hætta flóttanum og flutti hún til Svíþjóðar til
að fara í kynleiðréttingu. Eftir að hún flutti heim aftur gekk á ýmsu en hún hefur að mestu unnið hjá
Orkuveitu Reykjavíkur síðan. Þrátt fyrir ákveðna erfiðleika í lífinu tekur hún lífinu með ró.
Anna býður blaðamanni inn í hlýlega íbúð sína í einu útverfi Reykjavíkur. Hún er að byrja að
skreyta íbúðina fyrir jólin og eiga björgunarkarlar Landsbjargar heiðurssæti í skreytingunum. Íbúðin
er fyllt fjölskyldu myndum og er augljóst á fylltum bókahillunum að hún er mikill lestrarhestur. Hún
hefur komið sér vel fyrir með köttunum sínum Tárhildi og Hrafnhildi, sem hún fékk nokkrum
mánuðum eftir að hún flutti inn árið 2005. Hrafnhildur hét raunar Kolbeinn til að byrja með, þar til
kom í ljós að kötturinn var læða en ekki fress eins og fyrst var talið. Það er nokkuð ljóðrænt ef til
Önnu er litið, þar sem hún eyddi fyrri hluta ævi sinnar sem Kristján á eilífum flótta undan sjálfum
sér. Hún er mikil sagnakona og hefur haldið úti bloggi í fjölda ára, þar sem hún segir skemmtilega
frá því sem er að gerast í lífi hennar.

Anna3 copy

14 ára á Jóni Þorlákssyni

Leið ekki vel í skóla

„Ég fór til sjós fjórtán ára því ég var á flótta frá sjálfri mér. Mér bauðst að fara á gamla síðutogarann
Jón Þorláksson RE sem hálfdrættingur um sumarið 1966 og ég greip það fegins hendi. Eftir
sumarið fór ég aftur í skólann,“ segir Anna. „Ég gekk í Gaggó Vest og það má segja að skólinn hafi ekki verið besti staðurinn í bænum fyrir fátæklinga. Ég var fædd í gömlu Höfðaborg við Borgartún og ólst þar upp að hluta. Ég eyddi stórum hluta bernskunnar á barnaheimili í Mosfellssveit, en fór aftur til foreldra minna í Höfðaborginni þegar ég var 12 ára. Krakkar sem bjuggu í þar voru litin hornauga á þessum árum. Skólinn var þá til húsa í gamla Iðnaðarmannahúsinu við Tjörnina, við hliðina á Iðnó. Einu sinni þegar við vorum í frímínútum kom maður á Volkswagen og átti eitthvað erindi inn í Iðnó. Bíllinn var þannig gerður að hann var með hálfgerðum handföngum á stuðurunum, að framan og aftan, samtals fjórum. Maðurinn lagði upp á gangstéttinni og hljóp inn. Einhverjir piltar sem voru einnig í frímínútunum röðuðu sér að bílnum og náðu að lyfta honum og draga hann á milli hússins og kants sem var þar, svo bíllinn komst hvorki lönd né strönd.
Ég horfði á þetta gerast en tók ekki þátt í athæfinu. Bíllinn stóð þar sem eftir var dagsins en hann
var farinn daginn eftir þegar við komum í skólann á ný. Skólastjórinn hafði þá fundið sökudólg og
það var ég.Ég náði því aldrei hvað skólastjóranum og kennurunum tókst að finna margt upp á mig. Eftir þetta atvik gafst ég upp og fór. Ég viðurkenni alveg að ég átti ákveðin sprell líka, ég var samt langt frá því að vera allsherjar sökudólgur og skammirnar fékk ég. Í framhaldi af þessu fór ég á gamlan togara í Hafnarfirði sem hét Surprise. Hann strandaði og bar beinin uppi í Landeyjarsandi árið 1968, ári eftir að ég var þar um borð. Eftir veruna þar um borð þvældist ég á ýmsum skipum þar til ég fór í Vélskólann árið 1972.
Öryggismálin mikilvæg

Anna hefur aldrei lent í strandi né hefur skip sokkið undan henni. Eins hefur aldrei maður dáið á
skipi sem hún hefur verið á. „Ég myndi nú ekki ganga svo langt að kalla mig lukkugrip. Ég hef
hinsvegar verið heppin að vera með þannig fólki á sjó að það hefur tekið öryggið fram fyrir
áhættuna.
Það er mjög mikilvægt að viðhalda góðum móral á skipi og eins að menn séu samtaka um
öryggismálin. Þetta vildi oft bregðast hérna áður fyrr. Sem betur fer er þetta orðið gjörbreytt frá því
sem var þegar ég var að byrja á sjó. Það þótti bara eðlilegt að maður slasaðist alvarlega á fimm til
tíu ára fresti. Ef einhverjum tókst að verða meira en fimmtíu ára á sjó án þess að drukkna eða
farast á annan hátt, var það nánast kraftaverk. Andrúmsloftið breyttist mjög fljótlega eftir að ég byrjaði á sjó, en þó ekki almennilega fyrr en eftir 1980. Á árunum 1984 til 1984 áttu sér stað ýmsar breytingar á öryggismálum sjómanna. Fyrir það fyrsta voru lögleiddir flotbúningar á öll skip. Þegar Suðurlandið fórst árið 1986 voru engir flotbúningar um borð. Ef þeir hefðu verið til staðar hefðu sennilega flestir bjargast. En það tókst þó að bjarga fimm af ellefu manna áhöfn. Það var eiginlega kraftaverk að það hafi tekist að bjarga einhverjum, miðað við að þeir voru að berjast í björgunarbát í meira en hálfan sólarhring. En flotbúningarnir eru búnir að bjarga mörgum mannslífum.
Í öðru lagi varð aðgengi að þyrlum mun betra og eru þær einnig búnar að bjarga mörgum
mannslífum. Sem dæmi, árið 1982 fórst belgíski togarinn Pelagus við Vestmannaeyjar. Það er vel
líklegt að allir hefðu bjargast ef þyrla hefði komið á staðinn og getað athafnað sig. þar fórust fjórir,
tveir björgunarmenn og tveir áhafnarmeðlimir. Það var þó ekki fyrr en fáeinum árum seinna sem
landhelgisgæslan fékk TF-Sif.
Þriðja atriðið sem hafði úrslitaáhrif í öryggisbúnaði skipa var Slysavarnaskóli sjómanna. Það er
mikilvægt að geta þjálfað fólk að nota björgunartækin og geta æft sig helst í hverjum mánuði eins
og er gert víðast hvar í dag. En þegar Dísarfell fórst árið 1997, með tólf manna áhöfn tókst að
bjarga tíu. Þar voru aðstæður slæmar en áhöfnin fór eftir öllum reglum og því sem þeim hafði verið
kennt. Það fóru til dæmis allir í flotbúninga, en það voru ytri aðstæðurnar sem komu í veg fyrir að
hægt var að bjarga öllum.
Fyrir utan þessar öryggisreglur, hefur sjóslysum farið fækkandi. Það eru nú þegar komin um tvö ár
síðan síðasta banaslys varð á sjó. Það er orðið öruggara að vera á sjó í dag heldur en að vera í
umferðinni. Ég las um daginn nýlega úttekt frá Danmörku og þar var því haldið blákalt fram að það
væri mun öruggara að vera á gámaskipi heldur en byggingarvinnu.“

Bakkafoss 1981 copy

Bakkafoss 1981

Betra í vélarúminu

Það getur verið erfitt að flýja raunveruleikann og dugði því skammt að fara á sjó til þess. Hún
komst fljótt að því að það var mun skítugra og betra að vera niður í vélarúmi skipa en uppi á þilfari
og færði sig þangað. „Flóttinn hélt áfram niður í vél. Það leið ekki á löngu fyrr en ég var komin í fast
starf niðri í vélarúmi, ég byrjaði sem smyrjari og varð síðar aðstoðarvélstjóri. Ég ákvað í kjölfarið að
fara í Vélskólann til að afla mér réttinda.
Þó það virðist sem ég hafi lært vélstjórann fyrir tilviljun þá fór ég nú ekki í námið upp á grínið. Þetta
var samt meira og minna tilviljanakennd atburðarrás að ég fór að vinna í þar og hóf að stunda nám
í vélskóla. Eitt leiddi af öðru. Ég kláraði Vélskólann árið 1977 og fór beint á togarann Vestmannaey. Ég hafði tekið mér ársfrí úr skólanum árið 1974 til 1975 og réði mig á skipið. Hún hafði verið gerð út frá Hafnarfirði frá því hún kom ný frá Japan í gosinu. En þegar ég byrja í föstu starfi var búið ákveða að gera út frá Eyjum. Ég var þar svo til ársins 1980. Fjölskylduaðstæður voru slíkar að ég fór frá Eyjum og til Eimskips. Ég var enn auðvitað að berjast við sjálfa mig en þáverandi vildi ekki vera í Eyjum. Hún ætlaði að fara upp á land og sagði að ég gæti komið með ef ég vildi. Ég hlýddi, fór með henni og fór yfir til Eimskips. Ég var þar til ég fór til Svíþjóðar, 1989. Mér líkaði vel í Eyjum, það er tilvalinn staður að vera á þegar maður er á flótta. Það var mjög sérstakt og gott andrúmsloft þar og sérstaklega á árunum eftir gos. En hjónabandið fór svo eins og það fór og við skildum 1984. Það var bara eðileg ástæða fyrir því eins og gefur að skilja.“
Nýtt líf í Svíþjóð

Árið 1989 var ekki hægt að fá kynleiðréttingu hér á Íslandi. Ákvað Anna því að fara til Svíþjóðar,
þar sem hún lenti í baráttu við kerfið þar sem Svíar voru ekki alveg tilbúnir til að samþykkja
manneskju í aðgerð sem var að koma utan frá. „Ég hafði staðið í baráttu hérna heima en það var
álitið ómögulegt að framkvæma aðgerðirnar hér. Það voru margir sem fannst það bara klikkun að
vilja gangast í gegnum þetta. Ferlið var mun stífara heldur en það er núna. Á þessum tíma voru aðeins framkvæmdar aðgerðir á um tíu til tólf manns á ári. Það samsvarar því að það væri framkvæmd ein aðgerð annað eða þriðja hvert ár hér á landi. Í dag er kerfið orðið mun frjálslegra og eru framkvæmdar um 60 aðgerðir til leiðréttingar á kyni á ári þar í landi. En ég fór út og byrjaði að vinna í þessu. Fékk mér vinnu í orkuveri, þar sem ég vann þau sjö ár sem ég dvaldi í landinu. Samstarfsmenn mínir gátu fylgst með því sem var í gangi og voru viðbrögðin að langmestu leyti jákvæð, þó það hafi nú gengið á ýmsu. Úti fór ég í allar mögulegar prófanir og sálfræðimeðferðir og hitti fjölda geðlækna. Ég þurfti meira að segja að fara í heilalínurit. Ég veit ekki til hvers því þeir komust auðvitað að því að það var
ekkert að. En þessu var ekki lokið enn, málinu er svo vísað til Rättsliga rådet hjá Socialstyrelsen, þar sem gefin er heimild eða höfnun fyrir aðgerðinni. Þetta ráð hefur tvö hlutverk, annað er að samþykkja
eða hafna fólki sem vill komast í kynleiðréttingu. Hitt er að úrskurða um sakhæfi glæpamanna.
Til að mynda þegar ein vinkona mín var kölluð fyrir ráðið var verið að úrskurða um tvö mál. Annað
var hennar mál og hvort ætti að leyfa henni að fara í aðgerð, hitt var að úrskurða hvort Mattias
Flink, fjöldamorðingi, væri sakhæfur. Hann hafði myrt sjö manns uppi í Falun nokkru áður. Alveg
stórfurðulegt fyrirkomulag. Ég var reyndar svo heppin að það var bara verið að úrskurða um mig og
aðra konu sem voru að sækja um að fá að fara í aðgerð.“

Anna1 copy

Árið 1967 í Suprise GK

Fjölskyldunafnið Anna

Anna segist hafa verið tengd nafninu frá því hún fæddist 30. desember, 1951. „Ég átti systur sem
var kölluð þessu nafni, en ég hitti hana aldrei. Hún var heldur aldrei skírð en ef það hefði verið gert,
hefði hún mögulega fengið allt annað nafn. Í þá tíð þótti ekkert annað tilhlýðilegt nema kenna börn
við annað hvort föðurætt eða móðurætt. Hún fæddist 22. september, 1947 og lést 30. desember sama ár. Þaðan kemur semsagt Önnunafnið. Ég veit ekki hvort það er tilviljun að ég fæddist sama dag og hún lést, fjórum árum seinna. Ég heyrði oft talað um hana en annars finnst mér nafnið fallegt þannig að ég tók það upp.“

Viðbrigði að koma heim

Ári eftir kynleiðréttinguna flutti Anna aftur heim til Íslands, en viðbrögð Íslendinga voru allt önnur en
þau sem hún hafði vanist í Svíþjóð. „Margir af gömlu körlunum hérna á Íslandi voru nú aldeilis ekki
tilbúnir til að samþykkja svona lagað. Mörgum þótti þetta hið versta mál og það voru bæði gamlir
félagar og vinnufélagar sem og ókunnugt fólk sem lét í ljós óánægju sína með aðgerðina. En af
einhverjum skrítnum ástæðum var fólk úti á landi frekar jákvæðara en hitt. En þetta var eitthvað
sem ég hafði ekki séð né vanist í Svíþjóð.“ Í september skrifaði Anna pistil á blogginu sínu um þegar Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV, hafi óbeint komið henni til hjálpar stuttu eftir að hún flutti heim frá Svíþjóð. Hún hafði, eftir nokkurra mánaða basl, fengið vinnu hjá gömlu Hitaveitunni en nokkrum samstarfsmönnunum hennar fannst erfitt að „sætta sig við þessa manneskju sem hafði farið gegn því sem þeir álitu náttúrulögmál“.
Hún gafst upp og réði sig í afleysingar á togara á Eskifirði. Reynir frétti af þessu og hringdi í hana
til að spyrja hvort sögurnar væru réttar, að það væri verið að leggja hana í einelti. Hún staðfesti
það en bað hann um að gera ekki mikið úr málinu og ekki fjalla um þetta í DV.
Reynir hinsvegar var ekki sáttur með málalok og hringdi í starfsmannastjóra Hitaveitunnar og sagði
honum að hann væri með forsíðuefni á blaðið sem tengdist fyrirtækinu. „Starfsmannastjórinn, hinn
ágætasti maður, kallaði menn á teppið og las yfir þeim pistilinn og tilkynnti þeim að frekara einelti
jafngilti uppsögn (skv frásögn fólks),“ segir Anna í pistlinum. „Síðar hringdi hann í mig og krafðist
þess að ég hunskaðist aftur til vinnu. Annars yrði litið á fjarveru mína sem uppsögn.“
Það mætti því segja að allt er vel sem endar vel því hún er enn á sama stað en nú heitir fyrirtækið
Orkuveita Reykjavíkur.

Anna5 copy

Á auglýsingu fyrir sýningu Önju og Sabinu.

Einbeitir sér að því skemmtilega

Anna er mikill ættfræðigrúskari og eru bókahillurnar fylltar með allskyns bókum tengdum því. Hún
var formaður Ættfræðifélagsins í tvö ár en hefur nú hætt því. „Ég var í allt of mörgu á tímabili. Ég
var líka í Transgender Europe en nú er ég bara smám saman að minnka við mig eins og ég get og
ætla að fara að snúa mér að einhverju skemmtilegu. Ég reyndar reyni að sinna
Landsbjargarbátnum, Ásgrími S. Björnssyni, þegar ég get, en það er það eina sem ég hef bundið
mig við núverið fyrir utan að ég er í stjórn Félags skipa og bátaáhugamanna einnig auk nokkurra
tímabundinna verkefna. Ég fer reglulega ferðir með björgunarsveitinni Ársæli og Slysavarnarskólanum á Ásgrími og öðrum björgunarskipum, í leit og aðstoð við skip. Ásgrímur er ekki skemmtilegasta sjóskip sem hægt er að hugsa sér því það veltur hrikalega. En hann á líka að velta og á að geta oltið allan sjógang af sér. Tæknilega séð getur hann snúist í hring án þess að það drepist á vélunum, það yrði reyndar stórslys á mannskapnum. En það er eitthvað heillandi við þessi sjálfboðaliðastörf þótt stór hluti af starfinu gangi út á fjáröflun á borð við neyðarkall og flugeldasölu. Eins fer ég reglulega á sjó í sumarleyfum á skip Eimskipafélagsins og fleiri ef því er að skipta.
Nú stefnir í að ég fari að einbeita mér að því að gera það sem ég vil, þegar ég vil,“ segir Anna
brosandi að lokum.

Blaðamaður: Helga Dís Björgúlfsdóttir

Viðtalið birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014