Markmiðið er aukin verðmætasköpun

Markmiðið er aukin verðmætasköpun
November 20, 2014 Elín

Erla Pétursdóttir frá Codland í Reykjavík fjallaði á málstofu um verðmætasköpun úr hliðarafurðum í bolfiski. Lagði hún mikla áherslu á mikilvægi samstarfs, bæði hvað varðaði öflun hráefnis og eins markaðssetningu afurða. Þá undirstrikaði hún þörfina fyrir rannsóknir og þróun, ekki síst á sviði markaðsþekkingar.

Erla nefndi nokkrar vörur sem dæmi um verðmætar vörur sem skapaðar hafa verið úr hliðarafurðum, eins og sárastoðefni frá Kerecis og collagen. Mikil gróska væri í þessum iðnaði hér á Íslandi og samstarf milli atvinnugreina væri t.d mjög gott. Þetta samstarf hefði skapað góðan grunn til aukinnar verðmætasköpunar.

Markmið meiri nýtingar ætti að verða aukin verðmæti og samkeppnishæfni. Samfélagsleg ábyrgð væri sömuleiðis mikilvæg.

Erla sagði að grunnurinn að frekari veiðum væru ábyrgar veiðar og jafnt framboð allt árið. Rétt meðhöndlun og ferlastýring skipti sömuleiðis miklu máli og lykilatriði væri að koma með allt í land. Skoða þyrfti vel í hvað hráefnið væri notað svo verðmætasti afurðin væri framleidd.