Samofin saga í 100 ár

Samofin saga í 100 ár
January 14, 2015 Elín

Skoðun

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips

Sjávarútvegur hefur alla tíð verið ein sterkasta stoðin í atvinnulífi Íslendinga og um áraraðir hafa sjávarafurðir verið mikilvægasta og verðmætasta útflutningsafurð okkar. Nú þegar 100 ára afmælisár Eimskips er að renna sitt skeið er ekki úr vegi að rifja upp hversu mikilvæg stofnun félagsins var fyrir sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga og þá helst sá þáttur að vera ekki upp á aðra komnir með útflutning sjávarfangs okkar. Segja má að saga og þróun sjávarútvegs á Íslandi sé samofin sögu Eimskips.
Fyrir okkur sem sinnum flutningaþjónustu skiptir miklu máli hvernig aflabrögð í sjávarútvegi eru og
hvernig þau þróast frá einum tíma til annars. Heimamarkaður Eimskips nær til Íslands, Færeyja, Noregs og Nýfundnalands og óbeint til Grænlands. Allar þessar þjóðir eiga það sameiginlegt að hafa sterka tengingu við sjávarútveg og flutninga á sjávarafurðum.
Á árinu sem er að líða hafa flutningar á sjávarafurðum endurspeglað þær breytingar sem eru að verða í veiðum og vinnslu við Íslandsstrendur og hefur aðlögunarhæfni greinarinnar enn og aftur sýnt hvers hún er megnug. Loðnuvertíðin í byrjun árs brást að verulegu leyti en á móti kom makríllinn sterkur inn á seinni hluta ársins. Á undanförnum misserum hefur úthafskarfinn einnig dregist verulega saman og er jafnvel óttast að hann muni hverfa úr íslenskum veiðistofni, haldi fram sem horfir. Á hinn bóginn erum við afar sátt við þróun makrílveiða og erum tiltölulega sátt við nýafstaðna vertíð og lítum ennfremur almennt björtum augum á þróun veiða á uppsjávarfiski. Í tengslum við það hefur Eimskip ákveðið að ráðast í stækkun á frystigeymsluaðstöðu félagsins í Hafnarfirði um 10 þúsund tonn og eru möguleikar á frekari stækkun í náinni framtíð. Í framhaldinu er óhætt að segja að við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar við þessum áformum.
Gagnvart öðrum tegundum þá bindum við vonir við að saltfiskur og aðrar sjávarafurðir sem seldar eru til suðurhluta Evrópu séu að taka betur við sér. Þá verður fróðlegt að fylgjast með þróun mála gagnvart Rússlandi, en innflutningsbann á matvælum til Rússlands sem tók gildi í byrjun ágúst 2014 nær hvorki til Íslands né Færeyja, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. Við gerum hins vegar ráð fyrir að bannið muni til lengri tíma hafa áhrif á flutninga okkar frá Noregi og Nýfundalandi.
Rússlandsmarkaður er öllum þessum löndum mjög mikilvægur og er því erfitt að búa við þá óvissu sem innflutningsbanninu fylgir.
Nígeríumarkaður var um tíma í mikilli óvissu, t.d. fyrir makrílafurðir, en síðan rættist úr þeim málum. Nígería er mjög mikilvægur markaður, ekki einungis fyrir makríl heldur einnig fyrir annan frystan fisk og skreiðarafurðir. Sé horft vestur á bóginn þá hefðum við viljað sjá jákvæðari þróun í flutningi sjávarafurða til Norður-Ameríku, en mikil breyting hefur átt sér stað á þeim markaði undanfarin ár. Við væntum þó jákvæðrar þróunar og að þessir markaðir muni opnast fyrir fleiri tegundir en þorsk og ýsu, auk þess sem við bindum vonir við Kanada í gegnum Halifax og ekki síst góða og öfluga tengingu við Portland í Maine gagnvart New England svæðinu í Bandaríkjunum. Bein tenging Eimskips við Norður-Noreg í gegnum Ameríkusiglingar félagsins hefur sannað gildi sitt og opnað ýmis ný tækifæri fyrir flutninga á Ameríkumarkað. Jafnframt hafa Færeyingar nýtt sér þessa þjónustu í að afla hráefnis fyrir vinnslu á bolfiski í Færeyjum og töluverður áhugi er á því sama á Íslandi til að styrkja stöðu  vinnslunnar og til að hafa nægilegt hráefni til að vinna úr á þeim tímum þegar vinnsla liggur annars niðri. Rætt hefur verið um að þörf sé á 10 til 15 þúsund tonnum af hráefni frá Noregi sem yrði þýtt upp til vinnslu.
Á örfáum árum hefur þróun í Kína breyst verulega frá því að vera einungis vinnslusvæði fyrir fisk til útflutnings á Ameríku- og Evrópumarkað í að verða mikilvægur markaður fyrir sjávarafurðir. Asíumarkaður mun því á komandi árum verða mun mikilvægari en áður hefur þekkst, en auðvitað ræður eftirspurn þar ekki öllu heldur einnig það verð sem fæst fyrir afurðirnar á þeim markaði.
Þegar litið er til framtíðar er forvitnilegt að fylgjast með þróun og vexti laxeldis á Íslandi. Á undanförnum árum hefur mikið uppbyggingarstarf verið unnið og óhætt að segja að framundan séu spennandi tímar í laxeldinu. Við hjá Eimskip búum yfir mikilli reynslu gagnvart flutningi á ferskum laxi frá Færeyjum, ekki einungis sjóleiðina heldur einnig áfram með flugi til Bandaríkjanna og inn á markað í Asíu og nýtist sú reynsla vel á Íslandsmarkaði. Þá er áhugavert að fylgjast með því hvernig veiðar, vinnsla og markaðssetning á uppsjávarfiski munu þróast, hvernig hlutur kolmunna þróast, hvort hátt verð á mjöli og lýsi leiði til aukinnar bræðslu í stað frystingar, hver vöxturinn í síldinni verður og hver þróunin í áframhaldandi makríl- og loðnuveiðum verður. Athyglisvert verður einnig að fylgjast með þróun veiða við Grænland.
Að lokum vil ég nefna sjávarútvegstengdan iðnað, en greinilegt er að afsprengi íslensks sjávarútvegs er ekki eingöngu að birtast í sjávarafurðinni sjálfri, heldur einnig í vinnslulínum, veiðarfærum og tengdum búnaði. Þá má segja að hvatning til fullvinnslu á undanförnum árum sé farin að bera af sér ríkulegan ávöxt og hefur áhugaverð tilkoma Sjávarklasans haft mikið um það að segja. Gleggstu dæmin eru að birtast í margvíslegri vöruþróun innan sjávarútvegsins, auk þess sem annað sem til fellur er nýtt í fóðurframleiðslu og fiskroð fer í frekari efnavinnslu. Þetta er virkilega áhugaverð þróun sem ánægjulegt hefur verið að fylgjast með á undanförnum árum. Þróun sem átt hefur sér stað í meðferð á ferskum fiski og eldislaxi á eftir gera það að verkum að möguleikar á flutningum á ferskum afurðum í gámum munu aukast til muna. Íslendingar og Eimskip verða að fylgjast grannt með því sem er að gerast í þeim efnum á komandi árum og áratugum.

Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér.