Sjávarútvegurinn stendur undir allt að 30% landsframleiðslu

Sjávarútvegurinn stendur undir allt að 30% landsframleiðslu
January 7, 2015 Elín

Nýliðið fiskveiðiár markaði viss þáttaskil í atvinnugreininni með tilkynningum um stóraukna fjárfestingu í nýjum fiskiskipum, en alls munu 10 ný fiskiskip bætast við flotann á næstu árum. Ein ástæðan er sú að tekist hefur að vinda ofan af neikvæðri eiginfjárstöðu sjávarútvegsins með endurskipulagningu og niðurgreiðslu skulda. Þannig hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja farið úr því að vera neikvæð um 80 milljarða króna í árslok 2008 yfir í að vera jákvæð um 107 milljarða króna í árslok 2012. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu Íslenska sjávarklasans, Sjávarklasinn á Íslandi – Efnahagsleg umsvif og afkoma 2013. Þetta er fjórða árið í röð sem skýrsla af þessu tagi er gefin út. Bjarki Vigfússon, einn höfunda segir ýmsar áhugaverðar breytingar einkenna sjávarútveginn um þessar mundir. „Eitt af því sem líklega hefur ekki farið framhjá mörgum er aukin áhersla á vinnslu í landi frekar en á sjó. Frá árinu 2008 hefur störfum í fiskvinnslu fjölgað úr 3.000 í 5.000 en starfandi við fiskveiðar hefur aftur á móti fækkað úr 4.200 í 3.600.“ Þá má merkja grósku í öðrum greinum sjávarklasans. Tæknifyrirtæki vaxa þannig fjórða árið í röð, en heildartekjur í greininni jukust um 12%. Þótt tekjur stærsta tæknifyrirtækisins, Marel, hafi dregist saman eru dæmi þess að minni fyrirtæki hafi vaxið myndarlega á árinu. „Það eru að myndast stærri og öflugri einingar í tæknigeira sjávarklasans heldur en hafa verið“ segir Haukur Már Gestsson, annar höfunda skýrslunnar. „Fyrirtæki í vinnslutækni eins og t.d. Valka og Curio eru orðin feiknarsterk. Við sjáum síðan dæmi eins og kaup Skagans á meirihluta 3X Technology sem eru í takt við spár um sameiningar og stækkun fyrirtækja í greininni.“
Haukur segir að umfang sjávarútvegs og hliðargreina hans í hagkerfinu sé ótvírætt meira en opinberar hagtölur gefa til kynna, en rannsóknir Íslenska sjávarklasans benda til að sjávarklasinn skapi á bilinu 25-30% landsframleiðslunnar.

Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014. Hægt er að lesa blaði í heild sinni hér