Slysavarnaskólinn fær 10 björgunargalla

Slysavarnaskólinn fær 10 björgunargalla
September 24, 2014 Elín

Slysavarnaskóli sjómanna fékk nú í september tíu björgunargalla frá tryggingafélaginu VÍS og er gjöfin í samræmi við samstarfssamning sem var endurnýjaður í vor, til þriggja ára. Skólinn er nú búinn að fá 50 galla frá VÍS á undanförnum árum.

„Gallarnir eru í stöðugri notkun enda sækja um 2.500 nemendur námskeið okkar á hverju ári. VÍS hefur stutt dyggilega við bak Slysavarnaskólans um árabil og lagt mikið af mörkum í baráttunni fyrir auknu öryggi um borð í íslenska flotanum. Ekki bara með þessari árlegu gjöf heldur einnig markvissu forvarnarstarfi hjá viðskiptavinum sínum sem við veitum lið,“ segir Hilmar Snorrason skólastjóri.

Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs VÍS, segir fyrirtækinu renna blóðið til skyldunnar. „Við leggjum mikið upp úr öryggi og forvörnum í öllu okkar starfi. Með liðsinni Slysavarnaskóla sjómanna stuðlum við að bættri öryggismenningu í sjávarútvegi og höfum í sameiningu komið mörgu góðu til leiðar í samstarfi við okkar viðskiptavini.“

Á vef VÍF segir að banaslysum til sjós hafi  fækkað hratt undanfarna áratugi. Á árunum 1971 – 1980 voru þau 203, 116 áratugnum síðar, 63 banaslys frá 1991 – 2000 og 21 á fyrsta áratug þessarar aldar. Öðrum slysum á hafi úti hefur einnig fækkað. Engu að síður er mikið verk að vinna samanber að í fyrra voru á þriðja hundrað slys til sjós skráð hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Sjá nánar á vef VÍS.