Skýr framtíðarsýn mikilvæg

Skýr framtíðarsýn mikilvæg
January 6, 2015 Elín

Skoðun

Sigurður Ingi Jóhannson, sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra.

Umræða um sjávarútveg á Íslandi er nú málefnarlegri en lengi. Dægurþras er minna og greininni gengur betur að koma á framfæri því sem vel er gert. Sjávarklasinn spilar hér mikilvægt hlutverk ásamt breiðari fjölmiðlaumfjöllun. Annar áhrifavaldur getur verið breytt viðmót þeirra sem í greininni starfa. Aukin skilningur er á því að upplýsingum þurfi að miðla og við erum öflugri við að koma á framfæri því mikla starfi sem á sér stað í sjávarútvegi á Íslandi. Sjávarútvegur er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og eðlilegt að stöðugt sé um hann umræða.
Enn eru óleyst stór og þung mál sem tengjast réttindum og gjaldtöku af veiðunum. Við þurfum að leggja okkur fram við að leiða þau til lykta, og þar þurfa allir að vera tilbúnir að gera það sem þarf til að nálgast betra samkomulag um eðli veiðiréttindanna og gjald fyrir afnot af þeim. Þetta mál getum við, sem í greininni störfum, ekki eingöngu rætt við okkur sjálf. Það er stór áheyrendahópur fólks í landinu sem einnig á hagsmuna gæta og vill sjá lausnir. Leiðin að sátt liggur til margra en flest erum við sammála um að óvissa um sjávarútveg í stöðugri umræðu stjórnmálanna er ekki farsæl til framtíðar litið. Hér á að vera starfræktur sjávarútvegur með skýra framtíðarsýn, sem eykur verðmætasköpun, skilar tekjum til ríkissjóðs og skapar fjölbreytt störf vítt og breitt um landið. Fjárfestingar hafa tekið við sér á árinu, það er merki um að vel gangi. Helst er fjárfest í búnaði bæði til sjós og lands. Nýsköpun er nokkur í sjávarútvegi en hana þarf að fóstra frekar. Sjávarútvegsfyrirtæki sem mörg hver standa nú vel eiga samhliða öðru að fjárfesta í rannsóknum og þróun og stuðla að frekari nýsköpun. Þannig aukum við verðmætasköpun.
Dæmin eru byrjuð að sanna sig, það verða til verðmætar vörur úr hliðarafurðum sem nú eru að skila sér inn á markaði. Það hefur verið ákaflega skemmtilegt sem sjávarútvegsráðherra að fylgjast með þessari þróun frá rannsóknum til markaðar og hvernig afurðir sem til falla eru nú nýttar betur. Það eru tækifæri til enn frekari verðmætasköpunar, en það kostar í byrjun, rannsóknir eru fjárfrekar. Með þessu stuðlum við að margnefndri nýliðun í sjávarútvegi, með því að skapa fjölbreytt sérfræðistörf. Sjávarútvegur á Íslandi hefur breyst, hann einskorðast ekki af veiðum og frumvinnslu.
Í umræðum um nýsköpun og rannsóknir verður ekki undan því vikist að nefna mikilvægi aukinna rannsókna á hafinu. Málefni eins og súrnun hafsins, plast í hafi og fleira ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni. Það er mikilvægt að við lítum til þess hvernig sjávarútvegurinn getur þróast í umhverfisvænni átt. Það á að vera markmið okkar til næstu ára að minnka olíunotkun á veitt kíló, auka notkun vistvæns eldsneytis við veiðar og vinnslu og beina sjónum okkar og kröftum í auknum mæli að umhverfismálum hafsins. Áherslan þarf að vera á það hvernig við getum nýtt auðlindina á sem hagkvæmastan máta, í sátt við umhverfið. Allt
rær þetta í sömu átt. Að aukinni verðmætasköpun á ábyrgan hátt. Við horfum með tilhlökkun til ársins 2015. Sú þróun sem nú á sér stað í sjávarútvegi á Íslandi felur í sér mýmörg tækifæri sem spennandi verður að fylgjast með.

Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér