Ráðgjafafyrirtækið Markó Partners hefur opnað einstaka síðu fyrir sjávarútveg þar sem hægt er að nálgast á einum stað allar helstu markaðsupplýsingar sem áður þurfti að finna á mörgum stöðum. Fyrirtækið sinnir alls kyns ráðgjöf fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi og sendir mánaðarlega út viðamiklar greiningarskýrslur.
Mánaðarlegar skýrslur
Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Markó Partners, segir að fyrirtækið eins og það er í dag hafi orðið til árið 2009. Það hafi vaxið hratt enda sé enginn hérlendis að gera svipaða hluti. Fyrirtækið hefur líka haslað sér völl erlendis og í dag eru um 80% verkefna Markó Partners þar. Starfsemi fyrirtækisins er einkum tvíþætt: Greiningarþjónusta og fyrirtækjaráðgjöf. Markó Partners gefur út í hverjum mánuði ítarlegar greiningarskýrslur um þróun á helstu mörkuðum fyrir hvítfisk. Í þessum skýrslum er að finna upplýsingar frá Íslandi, Noregi og ESB löndunum um þorsk, ýsu og ufsa, og að auki eru skýrslur um þorsk, ýsu og Alaskaufsa fyrir Bandaríkin. „Við fylgjumst með vöruflæðinu, allt frá því að fiskurinn er veiddur og þar til hann fer á markað,“ segir Jón. Hægt er að skoða allar helstu vörutegundir fyrir hverja tegund, t.d fersk og frosin flök, flattan, saltaðan eða þurrkaðan fisk, og sjá ýmsar upplýsingar er þeim tengjast, hlutfallsskiptingu, hversu mikið er að fara á hvaða markað o.fl. Þá er í skýrslunum stutt samantekt um ýmis viðfangsefni, t.d. þróun á makríl, og kannski stuttur pistill um áhugaverð málefni. Til viðbótar við þessar reglulegu áskriftarskýrslur koma svo út öðru hvoru aukaskýrslur um aðrar tegundir, eins og karfa eða grálúðu. „Við spáum líka fyrir verðþróun út árið. Spáin byggir á gögnum fyrri ára og svo notum við þróun á árinu, eins og stækkun eða minnkun á kvóta, til að leiðrétta hana. Þannig að eftir því sem fram líður verður spáin nákvæmari,“ segir Jón. Fyrirtækið tekur líka að sér klæðskerasaumuð
greiningarverkefni. „Þá greinum við tiltekna markaði eða tegundir. Við getum tekið Alaskaufsa sem dæmi, þá skoðum við helstu vörur hans, hver kvótastaðan sé, helstu fyrirtæki sem selja hann og samkeppnistegundir á mörkuðum.“
Mælaborðið brúar bilið
Mælaborðið markofish.com er nýjung hjá fyrirtækinu og opnaði í september. „Síðan er þannig hugsuð að þú átt að geta farið inn og fengið allar helstu upplýsingar um markaðinn á einfaldan hátt,“ segir Jón. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við síðunni,“ segir Anna Katrín Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Markó Partners. „Þetta er ný og öðruvísi framsetning á þessum gögnum sem fólk þurfti áður að sækja frá mörgum stöðum eins og Fiskistofu, Hagstofunni, fiskmörkuðum og bönkum.“ Jón segir að hugmyndin með mælaborðinu sé að það og skýrslurnar vinni saman. Skýrslurnar veiti dýpt yfir lengri tíma og mælaborðið brúi bilið milli þeirra. Þess fyrir utan séu upplýsingar á mælaborðinu sem ekki séu í skýrslunum. Jón segir að verkefnið sé enn í þróun og vefsíðan eigi eftir að breytast eitthvað. Seinna verði þarna t.d. ítarlegri greiningar. Fyrst um sinn geta allir notað síðuna en seinna meir verður hún einungis í boði fyrir áskrifendur þjónustunnar.
Mismunandi notkun
Jón Þrándur segir að það sé mismunandi hvernig markofish.com nýtist fólki, allt fari eftir því eftir hverju verið sé að sækjast. Markaðsfólk skoði gluggana fyrir verð dagsins og svo vilji það kannski skoða löndunarmagnið til að sjá hversu mikið sé á leið inn á markað þá stundina og skipulagt sölur með það í huga. Það vilji kannski líka skoða útflutningsviðskiptagluggann til að sjá hver markaðurinn sé fyrir tiltekna vöru, hvaða verði sé verið að selja hana á o.fl. „Síðan getur líka nýst fjármálastofnunum vel, ef þær hafa t.d veð í ákveðnu skipi geta þær séð hvers virði kvótinn er þegar hann er kominn í ákveðið hráefni,“ segir Jón. Þá nýtist t.d laxamarkaðsglugginn þeim vel sem vilja fylgjast með veðum sem þeir eiga í laxeldisfyrirtækjum.“ Jón Þrándur segist hvetja fólk til þess að kynna sér mælaborðið en það er aðgengilegt á síðunni: markofish.com
Fyrirtækjaráðgjöf
Ein stoð Markó Partners er ráðgjöf til fyrirtækja og segir Jón að hún sé margþætt. „Þetta getur verið endurskipulagning, ráðgjöf við kaup og sölu eða ýmiss konar greiningar bæði fyrir seljendur og kaupendur,“ segir hann. „Stundum tengjumst við líka hlutafjáraukningu, núna erum við t.d að vinna með íslensku laxeldisfyrirtæki í því að sækja aukið hlutafé til Noregs.“ Fyrirtækið kemur líka að alls kyns ráðgjöf varðandi fjármögnun, t.d varðandi skipasmíði. Flest ráðgjafarverkefnin eru erlendis og hefur fyrirtækið unnið með alls kyns sjávarútvegsfyrirtækin í löndum eins og Kanada, Chile, Noregi og Rússlandi. „Sem dæmi um verkefni mætti nefna að við unnum nýverið með Royal Greenland og skoðuðum fyrir þá stöðuna á grálúðukvóta í S-Evrópu og hvort hægt væri að kaupa þannig kvóta. Einnig unnum við fyrir eigendur Ný-fisks sem var selt til Icelandic Group og svo unnum við fyrir High Liner Foods þegar það keypti ameríska hluta Icelandic Group,“ segir Jón. Sú mikla reynsla sem Markó Partners hefur viðað að sér úr ólíkum geirum sjávarútvegs hefur enda nýst fyrirtækinu vel til að þróa upplýsingaþjónustu eins og mælaborðið sem nú þegar er nýtt af afar fjölbreyttum hópi viðskiptavina. Vöxturinn sem hefur orðið hjá fyrirtækinu muni því halda áfram að vera stöðugur og jákvæður.
Hvað er í mælaborðinu?
Mælaborðið virkar þannig að skjánum er skipt upp í nokkra málaflokka: Afli, fréttir, markaðsverð, kvóti, laxmarkaður, utanríkisviðskipti með fisk, gengi og viðburðadagatal. Í glugganum fyrir veiðar er hægt að sjá hvað búið er að veiða á þessu fiskveiðiári í öllum tegundum, bæði á Íslandi og í Noregi. Í kvótaglugganum svo hægt að sjá kvótann í hverri tegund og hversu mikið er búið að nýta af honum í Noregi og á Íslandi. Fleiri lönd eru í deiglunni. Í glugganum um markaðsverð er hægt að sjá verð á öllum
tegundum á norska og íslenska markaðinum. Fréttaglugginn er gátt inn í helstu fréttamiðla og fyrirtæki í sjávarútvegi og eru fréttirnar á mörgum tungumálum. Í glugganum fyrir utanríkisviðskipti með fisk (trade flow) er hægt að leita eftir mánuðum og sjá viðskipti margra landa við önnur. Fjöldi ríkja er á listanum, t.d Ísland, Bandaríkin, ESB löndin o.fl. Í glugganum fyrir laxmarkað má sjá þróun á þeim markaði, útflutningsverð á ferskum og frystum laxi frá Noregi, verðþróun á framvirkum samningum o.fl. Viðburðaglugginn er dagatal þar sem hægt að sjá helstu viðburði í sjávarútvegi, eins og sýningar og hvenær helstu fyrirtæki ætla að birta tölur. Jafnframt er mögulegt er fyrir notendur að hlaða niður gögnum í Excel til notkunar við frekari tölulega vinnslu og eigin samanburð.
Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér