Árleg desemberferð Hampiðjunnar til Hirtshals í Danmörku er nýlokið og þóttist takast frábærlega. Margar nýjungar voru kynntar. Ferðin er þó ekki síst til þess að styrkja tengsl við viðskiptavini.
Betra og breiðara makríltroll minnkar meðafla
Hampiðjan fór í tilraunatankinn í Hirtshals í Danmörku þann 3.-5.desember 2014 og voru þátttakendur vel á áttunda tuginn frá fjórtán löndum. „Þarna voru allir helstu útgerðarmenn og skipstjórar stærstu fyrirtækja í þessum bransa í heiminum,“ segir Haraldur Árnason, markaðs- og sölustjóri veiðarfæradeildar hjá Hampiðjunni. „Við vorum bæði með fyrirlestra og sýningu á okkar vörum og fórum yfir nýjungar, svo sem Dynex togtaugar, Dynex Data, Gloriu troll, Thyboron toghlera, botntroll, poka o.fl. Sömuleiðis hafi FURUNO í Noregi verið með kynningu á nýja Trawl Sonar höfuðlínumælinum S- 337A sem vakti athygli. Þá hafi nýjungar frá Thyboron toghlera framleiðandanum verið sýndir. Meðal þeirra var ný Týpa 14 „Semi Pelagic“ hleri með skóm, og nýr flottrollshleri Týpa 20 FLIPPER sem hægt er að minnka flatarmálið á um 18% á einfaldan hátt. „Við fórum líka í gegnum flest allar gerðir Gloriu og botntrolls flóruna okkar og sýndum í tankinum flestar gerðir og nýjungar sem henni tengjast. Trollin eru þá sköluð niður og virkni og stillingar sýndar fyrir hvert einstakt veiðarfæri.“ Hann segir að nýtt makríltroll, Gloria Helix 1760 4-WIDE, hafi líka verið sýnt. „Það voru fjögur skip; Vilhelm Þorsteinsson, Beitir, Sigurður og Ingunn sem notuðu það á árinu með mjög góðum árangri og það vakti mikla athygli. Helstu kostir trollsins eru þeir að trollið eru með meiri breidd en gengur og gerist eða 1 á móti 4, en opnunin er þá um 50m á hæð og 200m milli vængenda.“ Með þessari miklu breidd sé trollið afkastameira þegar veiðin er dreifðari. Segja má að forveri Gloria 4-WIDE hafi verið Gloria 1600 og voru hlutföll í því 1:3 og segir Haraldur athyglisvert að þrátt fyrir að breiddin sé meiri hafi togmótstaða ekki aukist heldur sé hún nánast sú sama. „Það sem er sérstakt við þetta troll er að þarna fóru saman hugvit hönnuða Hampiðjunnar í mjög nánu samstarfi við skipstjóra sem stunda þessar veiðar og þeirra reynsla notuð við að þróa betra og öflugra veiðarfæri og það hefur svo sannarlega heppnast vel.“
Sterkt samspil Dynex togtauga og flottrollshlera við botntrollsveiðar.
Haraldur segir að m.a hafi verið farið vel yfir notkun Dynex togtauganna og Dynex Data en þessi byltingarkennda tækni er að ryðja sér enn frekar rúms og eru yfir 100 Dynex togtauganotendur í dag. Í því samhengi var skoðað sérstaklega notkun Dynex togtauga og flottrollshlera við botntroll en þessi aðferð hefur verið notuð erlendis með góðum árangri. Hún er nú í þróun á Íslandi um borð í Sturlaugi H. Böðvarssyni með það fyrir augum að gera veiðarnar hagkvæmari og umhverfisvænni, en í þessari tankferð var skoðað sérstaklega að sleppa notkun lóða aftan við hlerann og lofar það mjög góðu. Það mun hafa í för með sér minni slysahættu um borð og síðast en ekki síst umhverfisvænni aðferð þegar togað er yfir botn. Í tankinum var Helix þankaðallin líka sýndur með Gloriu trollunum. Kaðallinn hefur verið í þróun og framleiðslu hjá Hampiðjunni í fjórtán ár og er Helix kaðallinn í dag fjórða kynslóðin. „Við vorum líka með hefðbundinn Nylex kaðal í trolli og sýndum í raunstærð muninn á því að nota hann annars vegar og Helix hins vegar. „Það var mjög gaman að sjá þann mun,“ segir Haraldur. „Þegar Helix er notaður eykst ummálið í trollinu um 70% sem er gífurlegur munur og kemur til af því að þankaðallinn þenst í allar áttir.“ Þrátt fyrir þetta eykst mótstaða ekki enda eru 90% af öllum Gloriu flottrollunum með Helix flottrollskaðli í dag.
Meiri aflagæði með T-90 poka
„Pokarnir sem Hampiðjan býður upp á voru auðvitað sýndir og var T-90 pokinn í aðalhlutverki. Netinu í T-90 pokanum er snúið 90° miðað við venjulegt net og það er því togað á síðum en ekki upptökum,“ segir Haraldur. Við þetta verði opnun í möskvum meiri, eða 38% á móti 18% venjulega, og flæðið í gegnum pokann verður mun betra, eða um 90% af togferð skipsins miðað við 4 mílna togferð. Haraldur segir að þegar venjulegt net sé notað sé togmótstaða meiri og flæði inn í pokann sé 60% af togferð. „Þetta gerir að verkum að veiðarfærin eru þyngri með venjulegum poka. T-90 pokinn er hins vegar léttari og gæði aflans aukast mikið af því að netið er alltaf opið; það fer betur um fiskinn inn í pokanum.“ Haraldur segir að þrátt fyrir að aðferðin hafi verið þekkt hér á árum áður hafi veiðarfærahönnuðir fyrirtækisins unnið að þróun pokans síðustu tíu ár og séu þeir nú búnir að þróa hann þannig að nýtni
hans sé hámörkuð. Vinsældir pokans hafa verið miklar og segir Haraldur að í dag sé stór hluti pokanna sem Hampiðjan selji settir upp í T-90 neti.
Dynex Quickline, leysi- og fellilína
Meðal annarra nýjunga sem sýndar voru í Hirtshals var líka Dynex Quickline sem er leysilína- og fellilína á trollpoka. „Nýjungin fellst í því að framleidd var ný gerð af yfirfléttuðum kaðli með áfestum lykkjum sem koma út úr kaðlinum með ákveðnu millibili. Með kaðlinum er hægt að mynda styrktarramma, til dæmis á trollpokum, sem kemur í staðinn fyrir vafið leysi og merktar leysilínur. Þessi aðferð auðveldar mjög alla vinnu við uppsetningu veiðarfæra því það er mun hraðvirkara að setja saman veiðarfæri með þessari aðferð. Þá ber þess að geta að það er mun auðveldara að breyta fellingu eða öðru fyrirkomulagi með kaðlinum vegna þess að kaðallinn er einfaldlega vel hannaður sem slíkur.“ Áður voru menn að bensla línurnar á en við átök dregst pokinn til og hættir að virka sem skyldi. Með leysilínunni er hins vegar hægt að laga pokann upp á nýtt sem sparar mikla vinnu.
Gott til að styrkja tengslin
Haraldur segir ferðirnar í tilraunatankinn í Hirtshals vera mjög mikilvægar og gagnlegar fyrir fyritækið því það muni miklu að geta sýnt hvernig veiðarfærið líti út í sjó. „Svo bjóðum við líka viðskiptavinum að gera tilraunir á því hvernig þeir sjálfir nota veiðarfærin, miðað við þær stillingar sem þeir nota, og það finnst skipstjórnarmönnum afskaplega gagnlegt.“ Hann segir að það sem geri ferðirnar líka enn skemmtilegri sé að þarna hittist menn og rabbi saman í þrjá heila daga. Oft á tíðum eru skipstjórar að hittast í fyrsta sinn Í eigin persónu og þetta styrkir tengslin þeirra á milli. Ferðirnar eiga sér orðið meira en 25 ára sögu og skipa ríkt hlutverk í jólaundirbúningnum enda er undirbúningur mikill fyrir svona ferð, segir Haraldur. Eftir Hirtshals sé svo endað í Köben um helgina og þar hitti menn oft konurnar og geri sér glaðan dag í jólaösinni.
Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014.