Íslenska kröfulýsingin um ábyrga fiskveiðistjórnun hefur fengið ISO faggildingu

Íslenska kröfulýsingin um ábyrga fiskveiðistjórnun hefur fengið ISO faggildingu
October 22, 2014 Elín

Sjálfseignarstofnunin Ábyrgar fiskveiðar ses (ÁF) hefur hlotið formlega alþjóðlega viðurkennda ISO 65 faggildingu á kröfulýsingu sem notuð er sem staðall við vottun ábyrgra fiskveiða Íslendinga undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF). Veiðar á gullkarfa og þorski hafa þegar verið vottaðar eftir staðlinum og nýjar vottanir og árlegar viðhalds- og endurvottanir verða einnig samkvæmt hinum faggilta staðli.

Úttekt vegna faggildingarinnar var gerð af írsku faggildingarstofunni INAB (Irish National Accreditation Board, sem er aðili að Alþjóðasamtökum faggildingaraðila (IAF) og er samkvæmt alþjóðlegum staðli, ISO 65/EN 45011. Faggilding af þessu tagi er alþjóðleg viðurkenning og staðfestir að um óháða vottun er að ræða þar sem gegnsæi og trúverðugleiki er í hávegum haft.

Ábyrgar fiskveiðar ses, sem er eigandi staðalsins, sótti formlega um faggildingu kröfulýsingarinnar en tækninefnd ÁF ber ábyrgð á ritun, útgáfu og endurskoðun kröfulýsinga vottunarverkefnisins sem lýtur að bæði fiskveiðistjórnun og rekjanleika.

Dr. Kristján Þórarinsson, formaður tækninefndar ÁF telur faggildinguna afar mikilvægan áfanga í þróun IRF verkefnisins. “Þessi árangur setur okkur í sterka stöðu til að þróa verkefnið til framtíðar og tryggja að það verði sem fyrr trúverðugt og mæti þörfum notenda. ”

Hægt er að lesa nánar um málið hér á  www.ResponsibleFisheries.is