,,Mér líður alltaf best fyrir austan“

,,Mér líður alltaf best fyrir austan“
January 8, 2015 Elín

Fjölskyldumaður með fjölbreytt áhugamál
Landssamtök útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva sameinuðust nýverið í ný samtök, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, eða SFS. Við stofnunina var kosinn formaður nýju samtakanna og varð Jens Garðar Helgason fyrir valinu. Sjávarafl hitti Jens að máli.

Brennandi áhugi á rækjuvinnslu

,,Ég er ekki alinn upp í sjávarútvegi,“ segir Jens sem er fæddur og uppalinn á Eskifirði. ,,Pabbi var rafvirkjameistari og mamma vann í 24 ár á hjúkrunarheimilinu.“ Langafi hans, Karl Jónasson, var þó í útgerð og gerði út tvo báta. Jens byrjaði ungur að vinna í frystihúsinu eins og svo margir jafnaldrar hans á Eskifirði og vann þar á sumrin þar til hann fór að vinna hjá rækjuvinnslunni, þar sem hann var sex sumur. ,,Ég hafði það ankannalega áhugamál að þegar við fjölskyldan ferðuðumst um landið og fórum framhjá rækjuvinnslu að falast alltaf eftir því að fá að skoða vinnsluna. Það þótti nokkuð sérstakt þegar maður bankaði upp á, 17 ára gamall, og vildi fá að skoða,“ segir hann. Jens hefur þó ekki alltaf búið á Eskifirði því hann flutti með þáverandi eiginkonu sinni til Reykjavíkur þar sem þau fóru í nám. Lagði Jens stund á viðskiptafræði en vann fyrir austan á sumrin. ,,Svo gerist það þegar ég átti eina önn eftir að mér var boðið starf hjá Fiskimiðum við að selja mjöl og lýsi. Ég ákvað að taka því góða boði og setja námið á hold. Þar sem það er ennþá!“ Jens keypti svo Fiskimið 2002 og flutti aftur austur tveimur árum síðar. Eskja keypti síðan fyrirtækið 2009 og er Fiskimið dótturfyrirtæki Eskju í dag.

jensogfrú

Jens og sambýliskonan hans Kristín Lilja

Parið flýgst á

,,Það var ekki það að mér liði illa í Reykjavík, mig langaði bara heim aftur,“ segir Jens. ,,Mig langaði til þess að börnin fengju að alast þar upp, í því frelsi og svigrúmi sem við foreldrarnir kynntumst þar. Ég sé ekki eftir því, mér líður best fyrir austan.“ Jens á þrjú börn: Heklu Björk, 17 ára, Thor, 11 ára, og Vögg, 9 ára. Hekla býr fyrir sunnan núna þar sem hún var að byrja í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ en strákarnir eru fyrir austan. Sambýliskona Jens, Kristín Lilja Eyglóardóttir, er læknir í Gautaborg. Hann segir fjarbúðina ganga vel enda sé heimurinn lítill í dag. ,,Við látum þetta ganga með því að fljúgast á!“ segir Jens og hlær. ,,Ætli þetta sé ekki svipað og sjómannslífið, ég er sjómannskonan.“ Þegar þau Kristín kynntust var hún læknir á Eskifirði en beið eftir því að komast út. Það hafi því alltaf legið fyrir að hún færi til Svíþjóðar. ,,Þetta snýst bara um það að styðja við fólk og hvetja það áfram í sínu starfi. Hún varð sömuleiðis að sætta sig við það að ég vil hvergi annars staðar vera en fyrir austan.“ Fjölskyldan fer mikið á skíði saman á veturnar enda segir Jens að Austfirðingar búi að frábæru skíðasvæði í Oddskarði. Á sumrin er mikið farið í útilegur og dagsferðir og báðir synir Jens eru haldnir mikilli veiðidellu. Mikið er dorgað á bryggjunni og oft er farið og rennt fyrir silung og lax. „Eldri strákurinn er forfallinn fluguhnýtingarmaður og er farinn að hanna þær sjálfur. Það er því mikið kappsmál hjá honum að prófa þær.“

jensogbörn

Jens og synir hans tveir

Friðsemdarfólk fyrir austan

Áhugamálin eru mörg og fjölbreytt og skaut Jens t.d hreindýr í haust. ,,Ég sá samt ekki fram á að komast á rjúpu vegna tímaleysis, því miður. Ætli ég verði ekki að redda þeim annars staðar frá þennan veturinn.“ Hann segist hafa gaman að því að fara í veiði og að stunda útivist með góðum vinum. „Maður vildi gjarnan gera meira af því. Svo er maður auðvitað alltaf á leiðina í ræktina líka!“ Jens segist alltaf hafa verið mjög félagslega sinnaður og lunkinn við að koma sér í allt of mikið af félagsstörfum. „Ef maður hefur áhuga á félagsstörfum og býr úti á landi er fljótlega búið að kippa þér inn í alls konar nefndir og stjórnir. Ég er kominn í sóknarnefnd og karlakór, alls kyns ráð, stjórnir, klúbba og félög. Ég hef mjög gaman að þessu enda er þetta hluti af því að búa í litlu og samheldnu samfélagi.“ Bæjarpólitíkin hefur verið áberandi í lífi Jens og hefur hann verið bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2006 og oddviti Sjálfstæðismanna frá 2010. Um þessar mundir er hann formaður bæjarráðs. ,,Landsbyggðarfólk sem hefur óbilandi áhuga á félagsmálum endar oft í sveitarstjórnum,“ segir hann. Hann segir setu í sveitarstjórn ekki snúast um flokka, þar skiptist fólk sjaldnast í pólitískar fylkingar heldur sé sameiginleg hugsjón að vilja gera sitt besta fyrir samfélagið. ,,Við fyrir austan höfum verið mjög samstíga og tökumst sameiginlega á við þau verkefni sem upp koma. Við Austfirðingar erum mesta friðsemdarfólk og þetta er eitt af því sem gerir pólitíkina fyrir austan svona skemmtilega.“

jensogvinir

Jens og vinir hans á góðri stundu á Eskifirði

 Verðum að halda í menningararfinn

Jens lætur sér ekki nægja að starfa að félagsmálum, hann hefur brennandi áhuga á sögu gamalla húsa á Eskifirði og að gera þau upp. ,,Ég gerði upp Dahlshús sem var sennilega smíðað 1880 af Johanni Dahl, síldarútgerðarmanni, og hefur verið notað í hitt og þetta. Ég vissi ekkert hvað ég vildi með húsið, það var í niðurníðslu og ég vildi bara bjarga því. Núna er þarna sýningarsalur og tvö ár í röð hafa verið þarna listamenn með sýningar. Síðan eru haldnir þarna fundir og ýmsir menningartengdir viðburðir.“ Búið er að bóka nokkrar sýningar næsta sumar en Jens segir að ef fólk hefur áhuga á að opna þar sýningu sé velkomið að hafa við sig samband, gaman sé að hafa sem mest líf í húsinu. Jens segir það vera skemmtilegt að geta lagt sitt af mörkum á þennan hátt til að krydda mannlífið fyrir austan. „Ég er reyndar ekkert sérstaklega góður iðnaðarmaður og er ekki liðtækur á þessu sviði. Ég fékk því fólk til þess að ganga í viðgerðir og þetta tók tvö ár með hléum.“ Hann segist ekki hafa gert sér almennilega grein fyrir hversu mikil vinna þetta yrði, alltaf hafi eitthvað bæst við. Ólíklegt er að Jens sé hættur afskiptum sínum af gömlum húsum. „Maður hefur auðvitað endalaust af hugmyndum um hvaða hús þyrfti að taka í gegn en hins vegar á maður ekki endalaust af peningum. Svo ætti maður kannski að sinna viðhaldi á eigin húsi áður en maður hyggur á að gera upp annað gamalt hús! Ég verð samt að viðurkenna að það eru nokkur verkefni sem mig langar virkilega að ráðast í,“ segir Jens og hlær. Hann segir það mikilvæga samt vera að þegar byrjað sé á svona nokkru ýti það við öðrum. Gömul hús sem búið sé að gera upp setji svo mikinn svip á bæinn. „Nú er t.d einn æskuvinur minn að fara að gera upp hús sem langafi okkar átti, sem er alveg frábært. Við megum ekki láta menningararfinn glatast, mörg hús eru farin en það er enn mikið til af þeim og við verðum að halda í þau.“

jensogtónlist

Jens og spila á píanó

Ríkur tónlistaráhugi

Jens hefur um nokkurt skeið setið í stjórn Menningarráðs Austurlands og segir það vera afar skemmtilegt. „Mér finnst ofsalega gefandi að fá að vinna að uppgangi listar og menningar í fjórðungnum, að fá að hjálpa til og sjá ungt og kraftmikið fólk gera skapandi hluti og styrkja það í sinni vinnu. Í samfélagi manna verður að hafa list og menningu. Í Fjarðarbyggð t.d vinnur fólk mikið og þá verður maður að fá þessa liti í mannlífið, þetta krydd. Það gerir mannlífið betra og þannig helst fólk frekar á svæðinu. Ef lífið er ekki bara vinna vill fólk frekar búa á staðnum.“ .“ Jens hefur gaman að bókmenntum og segist lesa talsvert á ferðalögum. „Ég var t.d að ljúka við Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson og ætla mér að lesa hinar tvær. Svo kemur fyrir að maður gluggar í ljóðabók líka og þá eru gömlu klassíkerarnir í miklu uppáhaldi; Davíð Stefánsson, Steinn Steinarr og Einar Ben.“ Jens er ýmislegt til lista lagt og er afar söngelskur. Hann er t.d félagi í karlakórnum Glað sem var stofnaður 1939 og syngur bara í jarðarförum. „Þetta er eini karlakórinn á Austurlandi sem syngur í jarðarförum. Kórfélagar eru áhugamenn í bænum sem líta á það sem samfélagslega skyldu sína að mæta og syngja í jarðarförum fyrir heimafólkið. Upp á síðkastið hef ég því miður sjaldan átt heimangengt þegar sungið er en ég stekk til þegar ég er heima.“ Jens spilar líka á hljóðfæri og tók á sínum tíma sex stig á píanó í tónlistarskóla. ,,Ég glamra oft á það á góðum stundum og draumurinn er að kaupa flygil einn daginn. Kannski ég gefi sjálfum mér hann bara í fimmtíu ára afmælisgjöf!“ Börn Jens hafa erft tónlistaráhuga föðurins og eru öll í tónlistarnámi. „Við spilum reyndar ekki mikið saman en stundum þegar sá yngsti er að fikta við píanóið spila ég með honum hljóma á sovéska harmonikku sem mér áskotnaðist ekki alls fyrir löngu.“ Hann telur þó litlar líkur vera á frama á nikkusviðinu: „Harmonikkan er flókið hljóðfæri og ég held að ég eigi alltaf eftir að verða lélegur harmonikkuspilari.“

 

Brýn þörf á jákvæðari umræðu

Það er óhætt að segja að Jens hafi margt á sinni könnu enda segist hann hafa farið gagngert í að taka til í nefndastarfi og sagt sig úr stjórnum og nefndum fyrir sveitarfélagið á landsvísu. Ekki hafi bæst við fleiri tímar í sólarhringinn með nýja starfinu og því snúist þetta um að skipuleggja sig vel. Fram að kjöri hafði Jens ekki verið virkur innan LÍÚ og aðeins sótt einn fund hjá samtökunum. Þegar við spyrjum út í aðdraganda þess að hann var kjörinn formaður SFS segir hann að hringt hafi verið í hann og hann hvattur til að sækja um starfið. „Ég var ekkert búinn að hugsa um það áður en símtalið kom. Ég ákvað svo að taka þeirri áskorun og þessu verkefni ef svo skyldi fara að ég yrði kjörinn því ég held að þetta sé mikið tækifæri. Þarna eru möguleikar á að taka umræðuna um sjávarútveg á annan stað en hún hefur verið. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og held að það sé hægt.“ Hann segir að umræða um útveginn hafi í gegnum tíðina verið neikvæð, eins og um svo marga hluti, og einkennst af niðurdrepandi hvötum. „Ég trúi því hins vegar að úr þannig jarðvegi spretti ekkert gott eða uppbyggilegt. Sama hvort það er kvótakerfið eða flugvöllurinn, það þarf að ræða þessi mál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þannig komumst við að niðurstöðu sem verður meiri sátt um,“ segir hann ákveðinn. Útvegurinn sé orðinn annað og meira en hann var en fólk geri sér oft enga grein fyrir því. Þar sé unnið framsækið markaðsstarf, mikil gerjun sé í nýsköpun og þróun, á tæknisviði, í heilsugeiranum og í lyfjagerð.

Góðir hlutir gerast hægt

Jens segir að almennt virðist sér sem fólk taki vel í nýju samtökin og hann finni fyrir mikilli jákvæðni í þeirra garð. „Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru heldur ekki bara LÍÚ og SF heldur koma inn í þau stóru sölusamtökin og fleiri aðilar. Við erum því að tala um breiðari fylkingu fyrirtækja innan sömu samtaka en LÍÚ og SF var og það eykur jákvæðnina.“ Hann segir að eitt af mikilvægari hlutverkum SFS sé að reyna að ná umræðunni upp úr hjólförunum og upplýsa fólk um hvað það séu magnaðir hlutir að gerast í sjávarútvegi í dag. Hús sjávarklasans, þar sem Sjávarafl er t.d til húsa, sé frábært dæmi um það. Hann hafi þess vegna verið að vinna í því undanfarið að hafa samband við ýmsa aðila sem tengjast sjávarútvegi á einn eða annan hátt, t.d samtök og stjórnmálaflokka, og óska eftir góðu og jákvæðu samstarfi. „Við viljum taka þátt í umræðu um fleiri hluti varðandi sjávarútveg en verið hefur, eins og menntun og þörfina fyrir hana, rannsóknir, meira samstarf við vísindasamfélagið, eflingu vöruþróunar og nýsköpun.“ Sem dæmi um hversu mikla áherslu samtökin leggi á rannsóknir og umhverfisvernd megi nefna að SFS hafi við stofnunina veitt sín fyrstu Hvatningarverðlaun og var það Hrönn Egilsdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, sem hafi hlotið þau fyrir rannsóknir sínar á áhrifum súrnunar sjávar á kalkmyndandi lífríki í hafinu við Ísland. Jens segir að það muni vissulega taka sinn tíma að breyta umræðunni. „Það mun ekki gerast á einni nóttu heldur smátt og smátt eftir því sem okkur tekst að miðla upplýsingum til þjóðarinnar um hvað við eigum þarna frábæra atvinnugrein og hvað hún er að leggja af mörkum til samfélagsins. Sjávarútvegurinn hefur mikla möguleika til stækkunar og það er hægt að auka verðmæti sjávarafurða enn meir, til hagsbóta fyrir þjóðina. Ég veit að almenningur á eftir að verða stoltur af því hvað við eigum þarna frábæra atvinnugrein sem er að gera virkilega flotta hluti. Þetta mun gerast, hægt og bítandi, ég er sannfærður um það,“ segir Jens að endingu.

Blaðamaður Sigrún Erna Geirsdóttir

Viðtalið birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014.