Minnkar velting um allt að 90%

Minnkar velting um allt að 90%
January 13, 2015 Elín

Stöðugleikabúnaður sem heldur skipi stöðugu í öldugangi er nú til sölu á Íslandi. Við minni velting dettur minna af afla af línu, slysahætta minnkar og búnaður verður síður fyrir hnjaski. Hentar bátum af öllum stærðum og gerðum.

Miklir kostir við minni velting
K-KARL ehf. gerðist á dögunum umboðs – og þjónustuaðili fyrir SEAKEEPER stöðugleikabúnaðinn á Íslandi og í Færeyjum. SEAKEEPER er stöðuleikabúnaður fyrir báta og skip og hefur búnaðurinn hlotið mikla athygli. Kristján Karl Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri K-KARL, segir stöðugleikabúnaðinn minnka velting um allt að 90%. „Það hefur mikla kosti í för með sér að setja upp búnaðinn: Minna af fiski dettur af línunum við minni velting, slysahætta minnkar, mannskapnum líður betur, meðferð aflans er betri og annar búnaður um borð verður fyrir minna hnjaski.“ K-KARL ehf. er í samvinnu með KAPP Véla, kæli- og renniverkstæði með uppsetningu og þjónustu á SEAKEEPER búnaðinum hér á landi. KAPP er í fremstu röð þegar það kemur að uppsetningu og þjónustu á tækjum og búnaði og leggur áherslu á vandaða þjónustu og að sinna viðskiptavinum sínum um land allt á skjótan og hagkvæman hátt.

Vinnur gegn öldunni
SEAKEEPER stöðugleikabúnaðurinn hefur verið á markaði frá 2008 og gefið mjög góða raun. Stöðugleikabúnaðurinn byggir á svokallaðri gýró tækni. Þungt lóð snýst á miklum hraða í lofttæmdri kúlu þannig að þar er nánast engin mótstaða og utan um þetta er síðan grind sem er fest við skipið. Þegar alda kemur á bátinn vinnur gýróið á móti öldunni og leitast við að halda skipinu stöðugu. Stöðugleikabúnaðurinn er ræstur í brúnni með snertiskjá og hafður í gangi meðan skipið er á sjó. Kristján segir að eftir að búnaðurinn hafi verið settur í gang þurfi ekkert að spá í hann frekar, hann sé mjög viðhaldslítill. Stöðugleikabúnaðurinn hefur verið settur í báta um allan heim, allt frá 9 metrum upp í 65 metra og hentar flestum gerðum skipa og báta. Í þeim tilvikum sem skipið er mjög stórt eru sett upp fleira en eitt tæki.

Nettur og viðhaldslítill
Búnaðurinn er ekki fyrirferðarmikill. „Svo við tökum dæmi af 15 metra línubáti þá myndi þurfa búnað sem er minni en eitt vörubretti að stærð: 90x80x72cm og myndi sá búnaður ná um 70- 90% af veltunni,“ segir Kristján. Búnaðurinn þarf því mjög lítið pláss og hægt er að staðsetja hann nánast hvar sem er í skipinu. Það eina sem þarf er pláss. „Hönnuðir sjá um að finna heppilegasta staðinn um borð í skipinu og það er mjög lítið mál er að koma búnaðinum fyrir.“ Ekki er nauðsynlegt að báturinn sé nýsmíði og það þarf mjög litlar breytingar svo hægt sé að koma búnaðinum fyrir. Áður en komið er með búnaðinn um borð er hægt að undirbúa nánast allt fyrirfram áður en uppsetning hefst. Eftir það er komið með búnaðinn um borð og tekur þá skamman tíma að tengja hann og festa. Stöðugleikabúnaðurinn gengur fyrir rafmagni og er uppstartið ca. 3kw á meðan að hjólið er að ná fullum hraða. Eftir að fullum hraða er náð notar hann um 1,5kw að jafnaði þótt þetta fari líka eftir stærð búnaðar. Kristján segir að stöðugleikabúnaðurinn hafi t.d verið settur upp í línubátum, hafnsögubátum, frístundarveiðibátum, snekkjum, björgunarbátum, eldisbátum o.fl.
„Hann myndi t.d henta mjög vel fyrir hvalaskoðunarbáta,“ segir Kristján. Búið er að setja stöðugleikabúnaðinn í eina snekkju hérlendis og um þessar mundir er verið að setja hann í einn línubát.