Norrænn hattur fyrir ólíka aðila

Norrænn hattur fyrir ólíka aðila
January 28, 2015 Elín

Vistvænir eldsneytisgjafar skoðaðir ofan í kjölinn

Ísland er í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og fær formennskuþjóðin ákveðið fé til að setja af stað nokkur formennskuverkefni. Eitt af þeim er Nordic Bio Economy verkefnið, en það gengur út á að skoða lífhagkerfi Norðurlandanna og athuga hvernig Norðurlandaþjóðirnar eru að nýta lífrænar auðlindir. Nordic Bio skiptist í fimm undirverkefni og er eitt þeirra Nordic Marina- Clean Green Nordic Marine.

ágústa[1] copyJón Bernódusson copy

Allir undir einn hatt

Marina verkefnið snýst um orkuskipti á sjó og hvernig hægt sé að gera vistvænt eldsneyti að fýsilegum
kosti. Af Íslands hálfu eru þau Ágústa Loftsdóttir frá Orkustofnun sem er verkefnastjóri, Jón Bernódusson frá Samgöngustofu og Jón Björn Skúlason frá Nýorku. Jón segir hugmyndina vera þá að þarna séu tengdir saman allir norrænir aðilar sem koma að vistvænu eldsneyti á einn eða annan hátt, hvort sem það eru skipasmíðastöðvar, flutningafyrirtæki, opinberir aðilar eða aðrir. Verkefnið fór af stað í upphafi árs 2014 og fékk fjármögnun til þriggja ára. Jón segir að eftir að þau voru farin að skoða hvað væri að gerast á Norðurlöndunum í þessum málum hafi það komið skemmtilega á óvart að sjá hvað það voru margir í ýmsum atvinnugreinum sem séu komnir á fullt í þessum málum, hvort sem það lýtur að eldsneyti, orkusparnaði, nýtingu eða orkuskiptum. „Sjávarútvegurinn er hins vegar nokkuð á eftir og þetta hefur ekki verið forgangsatriði þar,“ segir Jón. Hann segir ávinninginn fyrir Íslendinga af samvinnu vera mikinn. Hér sé ekki verið að smíða mikið af skipum eða vélum. Samvinna tryggi því að við drögumst ekki aftur úr öðrum þjóðum. „Alþjóðleg samvinna er nauðsynleg og því fleiri aðilar sem við fáum með okkur í þetta, því betra. Hugmyndafræði úr öllum áttum er góð.“
Margir mögulegir eldsneytisgjafar Jón og Ágústa segja að allir vistvænir eldsneytisgjafar verði skoðaðir ofan í grunninn í verkefninu, hvort sem það sé metanól, etanól, rafmagn, vetni eða lífdísill. LNG verði skoðað líka, en það er kælt jarðgas sem mikið er til af í jörðu þótt það sé ekki endurnýjanlegt. Það brenni vel og sé að mörgu leyti umhverfisvænt. Skip eru mjög orkufrek og tekur Jón sem dæmi að 300m flutningaskip fari ekki nema 7cm á einum lítra af olíu. Repjuolía er nú þegar framleidd á Íslandi og því hægt um vik að byrja á því að nota hana sem eldsneytisgjafa fyrir íslensk skip, enda þurfi ekki að gera neinar breytingar á aðalvélum þeirra fyrir það. Hins vegar myndi þurfa gríðarlegt landsvæði fyrir repjuna ef hún ætti að vera notuð fyrir íslenska flotann. Því sé nauðsynlegt að athuga fleiri kosti fyrir okkur líka. „Allir orkugjafar eiga erindi og það er það sem skiptir máli. Þetta er ekki keppni,“ segir hann. Það séu til lausnir fyrir alla, þetta snúist bara um rétta hönnun. Það þurfi t.d að hanna sérstakar vélar fyrir metanól, etanól og metangas. Þau segja að taka þurfi tillit til ýmissa þátta er orkugjafar eru skoðaðir, t.d mengunarþátta við losun og eins hversu vel eldsneytið brenni, það sé ekki síður mikilvægt. Ágústa segir að jarðefnaeldsneyti sé smám saman að verða dýrara vegna þess að verið sé að vinna það með óhefðbundnum leiðum á sumum stöðum og meiri vinna sé að hreinsa það. Hráefnið sem þarna sé verið að vinna sé grófara. Jarðarbúar séu að taka milljón sinnum meira af eldsneyti úr jörð en verður til á móti og þörfin fyrir aðra eldsneytisgjafa sé því brýn.

Mun vonandi halda áfram

Ágústa segir að eitt af því sem sé svo gott við þetta verkefni sé að vegna þess að það sé styrkt hafi þau
sterka tengingu inn í opinbera geirann. „Það þýðir að þegar lokaskýrslum kemur út eftir þrjú ár með
stefnumótunartillögu fyrir stjórnvöld byggir hún bæði á sjónarmiðum iðnaðarins og opinbera geirans.
Þegar tenging við stjórnvöld er stutt er líklegra að þetta komist áleiðis,“ segir hún. Hún segist líka vonast til þess að fólk muni sjá sér hag í að halda verkefninu áfram að þremur árum liðnum þótt það verði að fjármagna verkefnið á annan hátt. Hópurinn muni koma af stað mörgum nýjum verkefnum sem áhugavert verði að byggja meira á. Nú sé t.d í gangi vinna sem miði að því að greina hindranir fyrir vistvænt eldsneyti. „Þetta gengur svolítið út á að koma hjólunum til að snúast. Menn eru farnir að sjá að vistvænt eldsneyti verður að koma til og þá verða svona verkefni að vera í gangi,“ segir hún. „Verkefni eins og þessu lýkur ekki eftir þrjú ár, þá verða komnar áfangaskýrslur og stöðumat, en svona nokkru lýkur ekki fyrr en markmið nást. Markmiðið er að koma vistvænu eldsneyti á sjó; að staðan sé sú að ef einhver hefur áhuga á að nota vistvænt eldsneyti hafi hann aðgang að nokkrum mismunandi orkugjöfum sem hann getur valið á milli, án þess að það kosti hann aleiguna.“

Vænt er dýrara

Eitt aðalvandamálið við vistvæna eldsneytisgjafa í dag er það að þeir eru umtalsvert dýrari en
jarðefnaeldsneyti. Þau segja eina ástæðu þess vera þá að orkunotkun í dag kosti ekkert. „Menn hafa
reynt að setja verðmiða á mengun með kvóta, kolefnisskatti og alls kyns leiðum, árangurslaust,“ segir
Ágústa. Um leið og vistvænt eldsneyti verði kannski 10% ódýrara en hefðbundið megi segja að
verkefninu sé lokið. Nú standi þau hins vegar frammi fyrir því vandamáli að koma orkuskiptum úr ódýrari orku yfir í dýrari. „Við getum ekki sagt fólki að velja vænna og dýrara,“ segir hún. Vegna skattlagningar á olíu í landi sé málið að mörgu leyti auðveldara þar. „Ef við gætum boðið upp á svona eldsneyti án þess að á það væri lagður skattur myndi það vinna með okkur. Á sjó er þetta annað mál því þar er eldsneyti ekki skattlagt og kostnaðurinn í kringum vistvænu eldsneytisgjafana leggst því ofan á,“ segir hún. Það fari því eftir gerð fyrirtækja hvort þau sjái sér hag í að skoða vistvæna eldsneytisgjafa og þar séu ferðamannafyrirtæki einna áhugasömust í dag.
Gæti skapað meiri verðmæti Ágústa og Jón benda þó á að fyrir sjávarútvegsfyrirtæki gætu vistvænir eldsneytisgjafar líka verið afar áhugaverðir, þótt þeir séu dýrari í dag. „Ef fiskur væri markaðssettur þannig að lögð væri áhersla á að vistvænt eldsneyti væri notað við veiðarnar gæti það styrkt vörumerkið íslenskur fiskur,“ segir Ágústa. Þegar haft sé í huga að algengt sé að það kosti hálfan líter af olíu að veiða 1 kg af fiski og ef fiskur er fullunninn hækkar þessi tala upp í líter á móti kílói sé ljóst að veruleg eyðsla á eldsneyti sé á bak við fiskveiðar. Margir neytendur séu meðvitaðir um þetta og þeir séu oft tilbúnir til að greiða meira fyrir vöru sem þarf ekki jarðefnaeldsneyti. Mikið sé t.d flutt af fiski til Bandaríkjanna og þar hugsi menn mikið um þessa hluti. ,,Þetta gæti orðið eftirsóttari vara fyrir vikið. Það eru meiri verðmæti í góðu vörumerki og bætt virði vöru gæti verið nóg til að mæta aukakostnaði vegna eldsneytisins,“ segir hún. Það sé því um að gera fyrir íslenskan sjávarútveg að vera fyrstir til að nýta sér þetta. Fyrsta skref til þess gæti verið að kynna sér Marina verkefnið og athuga hvort þátttaka í því væri eitthvað sem hentaði þeirra fyrirtæki.

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir

Viðtalið birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014