50 fyrirtæki í Húsi sjávarklasans
Í janúar næstkomandi opnar þriðji áfangi Húss sjávarklasans en húsið hefur verið í nær viðstöðulausum vexti frá opnun í september 2012. Alls verða þá um 50 fyrirtæki með aðstöðu í húsinu sem er við Vesturhöfnina í Reykjavík.
Aðeins er ár liðið frá því að annar áfangi hússins var tekin í notkun en þá fjölgaði fyrirtækjunum í húsinu úr 15 í 40. Fyrirtækin spanna vítt svið þjónustu og ráðgjafar við sjávarútveg og fiskeldi, saltframleiðslu, snyrtivöruframleiðslu, lyfjaþróun, hugbúnaðargerð, skipaverkfræði, fiskeldi, hönnun, þróun- og sölu tæknibúnaðar og margt fleira. Með stækkun Húss sjávarklasans nú verða alls um 2.700 fermetrar lagðir undir starfsemina en húsið er nokkurs konar suðupottur nýsköpunar í íslenskum sjávarútvegi. Í nýja rýminu er einnig gert ráð fyrir kaffihúsi og veitingaaðstöðu með frábæru útsýni yfir höfnina.
Ný snyrtiafurð úr fiskikollageni og ensímum kynnt í Húsi Sjávarklasans
Heilsuvörufyrirtækið Ankra kynnti nýja vöru í vörulínuna sína „FEEL ICELAND“ með pompi og prakt í Húsi Sjávarklasans á dögunum. Varan heitir „BE KIND- age REWIND“ og er náttúrulegur andlitsvökvi með mikilli virkni. Varan inniheldur kollagen og ensím sem vinna að endurnýjun og uppbyggingu húðarinnar. Þetta er fyrsta húðvaran í línunni en fyrr á árinu kynnti félagið
sína fyrstu vöru, Amino Collagen, sem er unnin úr kollageni úr íslensku fiskiroði. Þorbjörg Hafsteinsdóttir, næringarráðgjafi var meðal gesta í hófinu og lofaði hún vöruna og virkni hennar fyrir húðina. BE KIND- age REWIND verður fáanlegt í nokkrum sérverslunum til áramóta og fer í almenna sölu í byrjun næsta árs.
Sjávarútvegsborðspil í verslanir
Aflakló, nýtt íslenskt borðspil með sjávarútvegsþema er væntanlegt í verslanir um miðjan desember. Spilið fór í gegnum hópfjármögnun á Karolina Fund í september þar sem það náði 111% fjármögnun og fór í kjölfarið í framleiðslu. Að sögn höfunda spilsins má lýsa því sem nokkurs konar blöndu af tveimur vinsælustu borðspilum Íslandssögunnar, Útvegsspilinu og Hættuspili. Spilið verður fáanlegt í verslunum Hagkaupa, Eymundsson, Samkaupa, Spilavinum og á Aflaklo.is á 7.990 kr.