Smábátaveiðar er blómleg atvinnugrein sem hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar undanfarin
ár. Nýr kafli í smábátaveiðum hófst þegar smábátar byrjuðu að veiða makríl árið 2008.
Fyrsta árið voru það eingöngu stærri skip sem veiddu makríl. Ári síðar hófu fyrstu smábátarnir veiðar og árið 2010 bættust frystiskip og ísfisktogarar í hópinn. Í upphafi veiða voru smábátarnir fáir og segja frumkvöðlar á þessu sviði að oft hafi verið hlegið góðlátlega að þeim þegar makríllinn var nefndur. Árið 2012 sönnuðu veiðarnar sig og ári síðar varð alger sprenging þegar fjöldi makrílbáta margfaldaðist á einu bretti. Enn eykst fjöldinn og í sumar fór 121 smábátur á makrílveiðar. Heildarkvóti smábáta í ár var í upphafi veiða 6000 tonn sem var 4,7% af heildarmakrílkvóta Íslands en í júlí var bætt við 800 tonnum eftir að íslensk stjórnvöld bættu við heildarkvótann, í kjölfar endurskoðunar IcES á heildarmakrílkvótanum í þessum heimshluta. Er veiðar voru stöðvaðar í byrjun september höfðu smábátarnir veitt 7400 tonn. Smábátamenn voru margir hverjir ósáttir við stöðvun veiðanna og fór Landssamband smábátaeigenda fram á að
veiða mætti út september. Voru lögð fram ýmis rök fyrir þessu. Stjórnvöld stóðu þó við ákvörðun sína.Veiðifyrirkomulag makrílveiðanna er nokkuð á skjön við fiskveiðistjórnunarkerfið sem almennt er byggt á aflamarki. Makrílveiðarnar hafa hins vegar verið ólympískar fram að þessu og í raun verið án takmarkana þar til veiðum var lokað nú í byrjun september. Þetta kerfi þykir að mörgu leyti gallað. Hafa sumir nefnt að það sé til þess fallið að menn einblíni á magn en ekki gæði og þetta rýri því verðmæti aflans. Ein af afleiðingunum er að menn byrja veiðar áður en fiskurinn er hvað verðmætastur og hafa menn nefnt að slæmt hafi verið að stöðva veiðar í september þegar makríllinn var hvað feitastur. Þá var potturinn hins vegar einfaldlega búinn.
Hófanna leitað víða
Við hjá Sjávarafli ákváðum tala við fólk sem kemur að makrílveiðum á mismunandi hátt til að átta okkur á stóru myndinni. Fljótlega kom í ljós að varðandi mikilvæg atriði eins og fyrirkomulag veiða, verðmæti og aflameðferð voru ólíkir aðilar flestir sammála í grófum dráttum meðan hagsmunasamtök smábátasjómanna skáru sig nokkuð úr. Viðmælendur blaðsins eru: Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood sem er einn stærsti söluaðili makríls á landinu, Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Storms Seafood en þeir voru fyrsta vinnslan til að vinna makríl frá smábátum og eru með stærri vinnsluaðilum í dag, Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa og frumkvöðull í makrílveiðum, Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og forseti félagsvísindasviðs HÍ, Guðmundur Óskarsson, sérfræðingur á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunar og Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs hjá Fiskistofu. Enn fremur var haft samband við Sigurgeir Þorgeirsson hjá sjávarútvegsráðuneytinu vegna tölulegra upplýsinga.
Vannýtt tækifæri krókaveidds makríls
Sumir hafa haldið því fram að makríll sem veiddur er á krók sé verðmætari en sá sem er veiddur af togara. Við tókum Örn Pálsson, formann Landssambands smábátaeigenda, tali og spurðum hann út í þetta. ,,Það er engin spurning. Krókafisk er ekki þjappað í troll. Fiskurinn bítur á og við slítarann blóðgast hann. Síðan er hann settur í krapa. Þegar fiskurinn er blóðgaður svona um leið og hann er veiddur verða verðmætin meiri og fiskurinn eftirsóttari. Verðgildið stafar líka af því
að þetta eru umhverfisvænar veiðar og stundaðar af smábátum. Ég hef heyrt að það hafi tekist að selja krókaveiddan makríl á Japansmarkað sem er dýrasti markaðurinn, og þá er það staðreynd að vinnslur greiða hærra verð fyrir krókaveiddan makríl en borgað er til útgerða stærri skipa,“ segir Örn. Þetta álit Arnar fékkst þó ekki staðfest af öðrum viðmælendum. Voru menn samróma um að mikil tækifæru væru til staðar í að markaðssetja krókamakríl sem hágæðavöru en það hefði ekki tekist fram að þessu. Nokkrar ástæður voru taldar vera fyrir því: Til þess þyrfti sérstaka
markaðssetningu og hún væri ekki hafin nema að litlu leyti, erlendir viðskiptavinir horfðu fremur á magn en sérstök gæði, og gæði makríls í sumar væru mjög sambærileg hvort sem hann væri veiddur af smábáti eða togara.
Makríll er makríll
Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, segir mest af þeim krókaveidda makríl sem þeir hafi selt hafi verið lausfrystan. ,,Þennan makríl seljum við á verslunarkeðjur í Austur-Evrópu og við höfum fengið hærra verð fyrir hann. Þessi leið er hins vegar enn í þróun og við getum ekki selt allan lausfrystan makríl á þennan hátt. Enn sem komið er gera menn erlendis ekki mun á því hvort makríll er veiddur á krók eða af togara og eftirspurn eftir þeim krókaveidda hefur ekki aukist. Þegar við spyrjum þá sem dreifa makríl um áhuga á krókaveiddum er svarið: Makríll er makríll.“ Teitur segir að Iceland Seafood hafi mikið verið að selja makríl í áframhaldandi vinnslu og þá spyrji menn meira um verð og almenn gæði frekar en sérstök gæði. ,,Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum gætum við markaðssett krókaveiddan makríl sem hágæðavöru. Því miður skortir hins vegar stundum virðingu fyrir hráefninu hjá mönnum og ólympískar veiðar eru aldrei gæðahvetjandi. Makríllinn verður ekki betri af því einu að vera veiddur á krók. Í dag er þetta pottur sem allir mega taka þátt í og ég sé ekki hvernig langbestu mögulegu gæði geta komið út úr því. Makríllinn verður að vera í ákveðnum gæðum strax í upphafi og svo þarf að vinna hann áfram með gæðahugsun, gegnum vinnsluna og út á markaðinn Við erum því ekki komnir á þann stað ennþá að við getum boðið hágæða krókamakríl. Til þess þurfa bátarnir líka að vera jafnir í gæðum en þeir eru mjög misjafnir í dag,“ segir hann. Sala á hágæðakrókamakríl myndi þó ekki gerast með hefðbundnum leiðum inn á sömu aðila og kaupa annan makríl. ,,Ég tel því að það væri hægt að byggja upp merki fyrir krókabáta. Þetta veltur þó allt á raunverulegum gæðum.“ Þá þurfi að horfa til þess að í dag sé almennt ekki skilgreint í vinnslunum hvað komi frá krókabátum og hvað komi frá togurum. Ef það ætti að leggjast út í markaðssetningu á krókaveiddum makríl þyrfti vinnslan að aðgreina fiskinn. Teitur segist í heildina vera bjartsýnn varðandi sölu á makríl. Engin önnur lönd séu að framleiða lausfrystan makríl og það gefi okkur nokkuð forskot.
Veiðifyrirkomulagið er hamlandi
,,Krókamakríllinn er ekki verðmætari fiskur í dag og við höfum ekki fundið þessa verðaðgreiningu sem menn hafa talað um,“ segir Þorsteinn Magnússon, framkvæmdastjóri Storms. Það sé ekki nema í undantekningartilvikum að menn séu tilbúnir að greiða hærra verð fyrir krókaveiddan makríl en annan. Það sem hamlar því að svo sé sé veiðifyrirkomulagið. ,,Tækifærin eru til staðar. Við seljum sjálfir hluta okkar framleiðslu og stærstur hluti okkar heilfrysta makríls fer t.d á Japansmarkað. Þar hefur okkur tekist að búa til vörumerki fyrir krókaveidda hágæðavöru svo ég tel hiklaust að það mætti markaðssetja línuveiddan makríl betur. Ef við gætum stundað veiðarnar á réttan hátt og makríllinn væri veiddur þegar hann er stærstur og dýrastur þá væri möguleiki á því.“ Í ár hafi veiðarnar hins vegar stöðvast í september þegar makríllinn var af góðum gæðum. Í ágúst og september væri hægt að greina milli krókamakríls og togaramakríls en í júlí náist þessi aðgreining ekki og fiskurinn sé seldur á sama verði, hvort sem hann er veiddur með trolli eða króki. Sumir telja jafnvel að ástæða þess að krókaveiðimenn eru ekki að fá hærra verð fyrir sinn afla gæti verið sú að gæði aflans hafi hreinlega versnað. ,,Umgengni um afla er lakari í dag en hún var,“ segir Unnsteinn Þráinsson, skipstjóri á Sigga Bessa. Örn segir hins vegar að aflameðferð sé almennt góð og aðstæður um borð sömuleiðis. Smábátamenn hafi verið að efla sig á þessu sviði og öllum ábendingum um aflameðferð sé vel tekið. ,,Varðandi strandveiðar þá komu t.d ábendingar á sínum tíma og við unnum með Matís að því að gera námskeið um aflameðferð sem karlarnir sóttu vel. Enda má enginn slá slöku við. Ef ábendingar berast um makrílinn verðum við fyrstir manna til að fá Matís í lið með okkur og setja upp námskeið þar sem öll vinnubrögð eru samhæfð.“ Það sé alltaf hætta á því þegar nýjar veiðar fari af stað að meðferð hraki. Hann viðurkennir að það eimi af því í makrílveiðum að menn telji meira vera betra. ,,Ég geri mér grein fyrir því að þegar menn ganga 100% um aflann tekur það meiri tíma en það skilar sér strax í betri verðum,“ segir hann. ,,Meðferðin kemur hjá okkur, karlarnir eiga að geta gengið vel um aflann.“ Aðrir viðmælendur blaðsins töldu þó vanþekkingu á aflameðferð ekki vera vandamálið heldur það að hvati fyrir magnhugsun frekar en gæðahugsun væri mun sterkari.
Verðið hefur lækkað
Í byrjun gekk smábátasjómönnum illa að selja aflann þar sem varan var ný og fáar vinnslur tilbúnar að taka aflann. Eftir að nokkrir voru farnir að stunda veiðarnar glæddist þó ástandið og fékkst mjög gott verð fyrir makrílinn á árabilinu 2010-2012. Eftir að sprenging varð í makrílveiðum árið 2013 hefur verð hins vegar hríðlækkað. ,,Eftir því sem bátum fjölgaði lækkaði verðið. Það eru ekki það margir kaupendur að makrílnum og afkastagetan er það mikil á mörgum þessara báta,“ segir Unnsteinn sem hefur tekið þátt í veiðunum frá upphafi. ,,Á þeim árum var líka metnaður allra að koma með gott hráefni að landi. Það tókst með ágætum því vinnsluaðilar sem sáu hráefnið voru mjög ánægðir.“ Þetta hafi því miður breyst. Það hafði sömuleiðis mikil áhrif til verðlækkunar að makrílkvóti á heimsvísu í ár jókst töluvert frá fyrra ári. Ólga í Rússlandi og Úkraínu hafði líka talsvert að segja en bæði þessi lönd eru stórir kaupendur að makríl. ,,Það sem bjargaði okkur hjá Stormi var að Afríka kom sterkt inn þetta árið,“ segir Þorsteinn.
Veiðarnar voru arðbærar
Flestir telja að upphafkostnaður þess að gera bát út til veiða sé á milli 5 og 12 milljónir, allt eftir því hvað menn vilja leggja mikið í þær. Við þetta bætist rekstrarkostnaður eins og olía, laun o.fl. Áhugi smábátasjómanna er greinilega mikill á þessum veiðum því bátum hefur fjölgað frá því að vera 17 árið 2012 upp í 121 sumarið 2014. Það væri því auðvelt að álykta að veiðarnar væru arðbærar og þjóðhagslega hagkvæmar. Menn eru þó ekki á einu máli um að svo sé. ,,Þetta er góð
búbót,“ segir Örn. ,,Ég tala ekki um ef veiðisvæðin eru skammt frá heimahöfn og lítið þarf að sigla, fyrir nokkrar vertíðir þá borgar það sig mjög vel. Aðalkostnaðurinn liggur í að finna fisk í góðu veiðanlegu magni, það fer talsverð olía í það. Þeir sem veiða mest kvarta ekki undan afkomu en vitanlega er það alltaf svo, eins og með annan veiðiskap, að hann gengur misjafnlega vel hjá mönnum.“ Hann segist því vera sannfærður um að þegar veiðarnar verði komnar í góðan gír eigi flestir að geta haft af þeim góðan hagnað. Unnsteinn er ekki sammála því að veiðarnar hafi almennt verið góð búbót í sumar og segist telja að fáir hafi haft neitt upp úr þeim. ,,Eins og ástandið var tel ég svo ekki vera, nei. Verðið hefur lækkað það mikið frá því þegar það var sem hæst og sóknarþungi flotans aukist það mikið undanfarin tvö ár. Þegar ég byrjaði á þessum veiðum árið 2008 var afkoman slæm en svo komu mjög góð ár þar sem útlit var fyrir að við værum að leggja grunn að arðbærri búbót fyrir smábáta. Síðan mistekst að stýra veiðunum á skynsaman hátt, allir fara af stað 2013 svo varla var hægt að athafna sig á þessum litlu veiðisvæðum fyrir þrengslum. Í kjölfarið lækkaði verðið og þetta í raun hrundi.“
Kjósa að taka á sig tap
Menn eru ekki á einu máli um hvort svo mikil aukning smábáta á stuttum tíma hafi verið æskileg. Örn telur að bátarnir hafi ekki verið of margir. ,,Uppi við landið er gjarnan stærsti makríllinn og um leið sá verðmætasti. Því er auðvitað með þennan veiðiskap farið eins og annan að það er ekki öllum gefið að fiska vel. Þetta er veiðiskapur sem á að byggja upp til framtíðar og það er mikill fengur fyrir þjóðina að öflugur floti smábáta taki við makrílnum þegar hann kemur inn á grunnslóð,” segir Örn. Það sé ekki spurning að smábátaveiðarnar séu þjóðhagslega hagkvæmar. Margir hafa þó áhyggjur af þessari hagkvæmni og telja að fyrirkomulagið í dag hvetji bæði til sóunar og offjárfestingar. ,,Ég tel að ríflega helmingur bátanna muni aldrei hafa fyrir sinni fjárfestingu,“ segir Þorsteinn. ,,Það er staðreynd að það eru fáir sem hafa afkomu af
þeim. Bátarnir þurfa ákveðið magn og ákveðið aflaverðmæti annars tapa þeir á veiðunum. Ástæðan fyrir því að menn eru að stunda þetta er sú að á þessum tíma er einfaldlega ekki að mörgu að hverfa og menn eru að reyna að skapa sér atvinnu.“ Þorsteinn segist þó vera hlynntur krókaveiðum á makríl, þær skapi líf á landsbyggðinni og gott sé að hafa flóru í makrílveiðum sem öðrum veiðum. Það sé einungis fyrirkomulag veiðanna sem sé slæmt. ,,Kerfið er í dag sniðið að hagsmunum samtaka krókaveiðimanna en kannski síður veiðimannanna sjálfra.“ Þá segir hann að undirliggjandi sé líka vonin að aflareynslan verði á endanum grunnur úthlutunar aflaheimilda og menn séu reiðubúnir að taka á sig tap nú vegna vonar um gróða síðar. Þannig hafi þetta verið með stóru skipin.
Styður við líf á landsbyggðinni
Flestir eru sammála því að veiðar smábáta á makríl styðji við atvinnulíf á landsbyggðinni. Ekki hefur þó tekist nægjanlega vel að tryggja veiðar hringinn í kringum landið. Fram að þessu hafa veiðar nær eingöngu farið fram við Snæfellsnes, Reykjanes og í Steingrímsfirði. Ástæður þessa telja flestir vera kappveiðifyrirkomulagið. Þorsteinn og Unnsteinn virðast líka báðir sammála um að veiðar smábáta gætu orðið mjög arðbærar fyrir þjóðina í framtíðinni. Hvort smábátaveiðar
geti verið arðbærari en aðrar veiðar er erfitt að segja til um að mati Daða Más Kristóferssonar, auðlindahagfræðings og forseta félagsvísindasviðs HÍ. Fyrst og fremst beri að stefna að góðri afkomu í greininni og þá þurfi þrír lykilþættir að vera til staðar: a) Kvótakerfi, b) Gott upplýsingaflæði milli markaða, vinnslu og útgerðar til þess að samhæfa veiðar og vinnslu hvað varðar tímasetningar og meðferð á afla og c) Aflahlutaskiptakerfi sem skapar hvata fyrir sjómenn að vinna gæðastarf um borð í bátum. Ef launaseðillinn ræðst af því hvernig hráefni þeir skila hafi það áhrif.
Kvótasetning skynsamlegust
Eins og veiðifyrirkomulagið er í dag geta allir smábátar sem það vilja skráð sig á makrílveiðar á því tímabili sem þær eru leyfðar, svo fremi sem bátarnir eru ekki á strandveiðum. Enginn kvóti eða leyfi var í gildi fyrir hvern bát og var það því undir bátunum sjálfum komið hvernig kvótinn skiptist á milli þeirra. Þetta fyrirkomuleg er harðlega gagnrýnt af flestum viðmælum okkar. Ólympískar veiðar þar sem hver og einn keppist við að veiða sem mest sé til þess fallið að áherslan sé á magn en ekki gæði og ýti þannig undir sóun á verðmætri auðlind. Flestir eru því á þeirri skoðun að kvótasetning sé skynsamlegasta leiðin til verðmætasköpunar. ,,Ólympískar veiðar eru afleitar. Reynslan af afkomu strandveiðanna og hráefninu sem þær skila sýnir þetta svart á hvítu. Þar til kvótakerfi er komið á er áherslan á magn en ekki gæði,” segir Daði. ,,Mín skoðun er að það eigi að kvótasetja allar veiðar, líka makrílinn sem krókabátarnir eru að veiða. Ef marka má verðið sem er á þeim makríl sem kemur frá smábátunum þá er hann lakari en makríllinn sem frystiskipaflotinn er að skila. Nú vilja smábátamenn fá svipað fyrirkomulag á makrílinn og á strandveiðarnar. Væri það skynsamlegt fyrir þjóðarbúið? Ég tel að það væri óskynsamlegt, það er auðvelt að sýna fram á að strandveiðar eru óarðbærar,“ segir hann og bendir á að gögn þess efnis liggi fyrir hjá Hagstofu Íslands. ,,Kerfi sem hrúgar inn hráefni í fáa daga í byrjun sumarmánaðanna er illa til þess fallið að skapa mestu möguleg verðmæti úr hráefninu.“ Sóunin sem tengist strandveiðunum felist í því að afkastagetan sé miklu meiri en þörf sé á, með tilheyrandi álagi á innviði og kostnaði fyrir samfélagið. Landssamband smábátaeigenda er hins vegar á öndverðum meiði við Daða og hafnar alfarið kvótasetningu. ,,Það eru góð rök fyrir því að gefa makrílveiðar smábáta frjálsar og hefta þær ekki á nokkurn hátt,“ segir Örn. ,,Við viljum að veiðileyfi til makrílveiða smábáta gildi í ákveðinn tíma og menn hafi vissu um að veiðarnar verði ekki kvótasettar. Við förum líka fram á að hlutdeild til færaveiða verði 18% sem myndi þýða frjálsar veiðar í nokkur ár. Hvað þá tæki við er kannski ekki augljóst en nærtækast væri að líta til fyrirkomulags strandveiða.“ Bæði Unnsteinn og Þorsteinn eru sammála því að hlutdeild smábáta í heildarveiðum mætti vera stærri, að því gefnu að fyrirkomulagi veiðanna yrði breytt. Daði segir að núverandi fyrirkomulag makrílveiðanna og strandveiðikerfið sé uppskrift að sóun. ,,Þessar kröfur um að fá hærri prósentu til veiða er vond hugmynd frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er nú þegar of mikið af bátum sem stunda makrílveiðarnar,“ segir Daði.
Skussarnir lifa
Unnsteinn segist hafa veitt bæði í sóknar- og aflamarki og er sammála Daða um að meiri verðmæti verði ávallt til í aflamarkinu. Menn sem þekki til beggja kerfa kjósi því það fyrirkomulag. ,,Nú er ég ekki sérstakur aðdáandi aflamarksins en það fyrirkomulag er hentugra fyrir flestar veiðar,” segir hann. Í sóknarmarkinu séu menn alltaf að hugsa um magnið. Dæmin með ufsann og þorskinn hafi sýnt fram á það; allt hafi snúist um að veiða sem mest og ekkert hugsað um gæðin. Það sama sé uppi á teningnum núna með makrílinn. ,,Það er bara þannig að þegar mönnum er skammtað fara þeir að hugsa um hvað þeir geti gert úr því.” Vinnsluaðilar eru sömuleiðis ómyrkir í máli þegar þeir eru spurðir um fyrirkomulag veiðanna í dag. ,,Þetta pottafyrirkomulag skapar mikla óhagkvæmni og er auðvitað galið. Það hvetur til offjárfestinga
og það eru miklu fleiri sem fara af stað en ella hefðu gert,” segir Þorsteinn. Hann segir gallana við kappveiðar vera þrjá: a) Í því sé innbyggð óhagkvæmni, b) Þar sé enginn hvati til að ganga vel um hráefnið og c) Góður hluti makríls sé veiddur í júlí en þá sé makríllinn smærri og fituminni en í ágúst og september og því verðminni líka. ,,Þar sem mokstur og flýtir eru
innbyggðir í þetta lifa skussarnir,” segir hann. Fyrirkomulagið er hneyksli ,,Menn tala frjálslega fyrir þessu veiðifyrirkomulag og sá málflutningur hefur verið keyptur af ráðamönnum sem ekki vita betur. Það er líka mikill þrýstingur frá hagsmunasamtökum smábáta og þetta eru mörg atkvæði,” segir Þorsteinn. Óhagkvæmnin lýsi sér ekki síst í því að hann sem vinnsluaðili hafi enga stjórn yfir veiðunum heldur verði hann einfaldlega að taka þann afla sem
kemur að landi. Það valdi því að þegar vel aflist flykkist allir á veiðar og allt fyllist á landi. Afkastageta á landi sé takmörkuð og vinnslur lendi í því að afurð sem hefði átt vera í a-flokki falli í b-flokk. Við það tapist verðmæti og orðspor geti orðið fyrir hnjaski. ,,Það er fáránlegt að standa svona að þessu. Í látunum stendur makríllinn kannski á bakkanum í 20 stiga hita og
skemmist því hann er mjög viðkvæmt hráefni! Við náðum að vinna allt á réttum tíma í sumar en það stóð oft ansi tæpt,” segir Þorsteinn. Augljóst sé að þungi veiða ætti að vera í ágúst og september þegar makríllinn sé verðmætari. Þá vilji hann líka borga sínum bátum í samræmi við það sem hann fái fyrir sína afurð. ,,Það að við skulum stunda svona veiðar á Íslandi árið 2014 er hneyksli. Við erum að berjast úti á mörkuðum við að sannfæra kúnnann að við stundum ábyrgar
fiskveiðar. Það er gríðarlega mikilvægt að fá vottanir erlendra aðila á okkar fiskistofna og MSC er þar einna mikilvægast. Menn bíða í ofvæni eftir þessum vottunum því þetta hjálpar í markaðssetningu á okkar vöru. Vottanirnar segja að við stundum sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar en svo er stunduð svona villimennska til hliðar. Það nær auðvitað engri átt.” Meira vit væri í því fólgið að deila heimildum á bátana. Þeir sem gætu ekki gert nógu hagkvæmt út gætu svo fært sínar heimildar á aðra. Þannig væri hægt að stjórna því hvenær menn fiskuðu og besta verðið tryggt. ,,Það hljómar illa í margra eyrum að tala um kvóta en slík veiðistjórnun tryggir okkur mestu verðmætin í þessari auðlind sem við höfum. Getið þið ímyndað ykkur sóknarkerfi í þorski í dag?” spyr Þorsteinn. Menn séu hreinlega ekki tengdir við nútímann og sumrin 2013 og 2014 séu skólabókardæmi um það hvernig eigi ekki að stjórna fiskveiðum.
Smábátaveiðar eru óverulegar
Því hefur verið haldið á lofti að hlutur smábáta í makrílveiðum sé óverulegar og að hæglega mætti gefa veiðarnar frjálsar með öllu. Talið er að um 1,6 milljón tonn af makríl hafi verið á Íslandsmiðum þetta sumarið en erfitt er að áætla hversu mikið af því magni var á grunnslóð, segir Guðmundur Óskarsson, sérfræðingur á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunar. Magnið er byggt á vísitölu sem fengin er í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar en þeir ná sjaldan inn í firði og flóa. Makríllinn virðist vera jafndreifður og benda tog á grunnslóð til þess að dreifingin þar sé álíka og á hafinu. Þótt makríllinn þétti sig öðru hvoru virðast torfurnar ekki vera stórar. Guðmundur segir að þar sem flatarmál fjarða og flóa sé svo miklu minna en hafsvæðin fyrir utan, og fiskurinn flakki að auki út og inn, sé hægt að draga þá ályktun að magn makríls í fjörðunum sé einungis brot af heildarmagninu. ,,Það gildir þó að sjálfsögðu það sama um veiðar á makríl sem aðrar, við viljum alltaf að heildarveiðin verði innan þess sem ákveðið hefur verið hverju sinni. Skynsamleg nýting á alltaf að vera í forgrunni.” Ein af röksemdum Landssambandsins fyrir því að leyfa hefði átt smábátum að veiða út september er að þá hefði fengist mikilvæg vitneskja um göngu makríls eftir ströndinni, hversu mikið væri af honum og hvert hann færi. En
skyldu veiðar gefa vísbendingu um raunverulegt magn? ,,Í rauninni ekki,” segir Guðmundur. ,,Þær geta sagt til um hvort makríll sé á ákveðnu svæði á ákveðnum tíma en hvort það var t.d makríll þarna árið á undan er ekki hægt að segja til um.” Stundum sé makríllinn heldur ekki að gefa sig á færi þótt hann sé til staðar.
Seiði eða áta?
Landssambandið segir að það sem hefði líka mælt með meiri veiði sl. haust sé að taka þurfi tillit til þess hvað makríllinn sé að éta af þorskseiðum. Makríllinn þyngist um 40-60% á Íslandsmiðum og við landið sé veiðistofn þorsks 11 hundruð þúsund tonn. Þótt fiskifræðingar segi að hér éti makríllinn mest af átu og hundrað milljón tonn af henni séu við landið verði að skoða hvar hann étur átuna. Þá verði líka að skoða hvaða áhrif makríllinn hefur á seiðin við ströndina. ,,Það er mikill vísindamaður í mörgum trillukörlum og þeir skoða inn í makrílinn. Þeir hafa komist að því að þar er mun meira af seiðum en átu. Það má segja eins og formaðurinn sagði um daginn að ef 2% af því sem hann étur er þorskseiði þýði það 90 þúsund tonn af þorskseiðum,“ segir Örn. Það sé því full ástæða til að hafa áhyggjur af afráni makrílsins á nytjastofnum. Hafrannsóknastofnun er ekki á sama máli. ,,Núna höfum við verið að skoða makríl í nokkur ár, eða frá 2009, og á þessu stigi teljum við að það sé fátt sem bendi til þess að makríll sé að valda stórum skaða á öðrum nytjastofnum með afráni. Vissulega sjáum við ungviði í maga makrílsins en það er í óverulegu magni,“ segir Guðmundur. Skörun á dreifingu ungviðis og makríls sé ekki mikil. Þannig sé tiltölulega lítið af makríl á helstu uppeldissvæðum í fjörðum og á grunnslóð fyrir norðan. Verið sé að skoða þetta hjá stofnunni og í gangi sé t.d doktorsverkefni sem gengur sérstaklega út á að rannsaka þetta. Málin muni því skýrast á næstu tveimur árum eftir því sem doktorsverkefninu miðar áfram.
Sjór og ís sagður vera makríll
Almenna reglan við vigtun sjávarafla er sú að vigta ber afla við löndun á hafnarvog og er þá heimilt að skrá allt að 3% sem ís. Einnig er mögulegt að endurvigta afla hjá vigtunarleyfishöfum. Við endurvigtun er afli brúttó vigtaður á hafnarvog en síðan er ís skilinn frá aflanum hjá vigtunarleyfishafa og nettóvigt skilað á hafnarvog til aflaskráningar. Í kvótakerfi er það hagur fólks að afli vegi sem minnst þegar hann er vigtaður. Í pottakerfinu þar sem fólki er ekki skammtaður ákveðinn kvóti eru sömu hvatar ekki fyrir hendi. Flestir viðmælendur Sjávarafls voru sammála um að tilfelli rangvigtunar hefðu komið upp þar sem ís væri ekki dreginn frá við endurvigtun. Afleiðingarnar væru að heildarpotturinn tæmdist fyrr, þar sem hluti af kvótanum væri í raun ís en ekki makríll. Ísinn væri fremur erfitt að selja og heildaraflaverðmæti fyrir þjóðarbúið væri því minna en til stóð. ,,Annar stór galli á þessi kerfi er að það hvetur menn til þess að sýna óheiðarleika,“ segir Þorsteinn. Menn vonist eftir því undir niðri að krókabátar fái makrílkvóta byggðan á aflareynslu og það hvetji menn til að þyngja aflann. ,,Við höfum orðið vitni að því að að fólk sé að vigta sjó og ís með fiskinum. Eftirlitið er greinilega ekki betra en
þetta. Við erum margbúnir að tala við Fiskistofu út af því sem sé í gangi en viðbrögð hafa verið hæg úr þeirri áttinni,“ segir hann. Unnsteinn tekur undir þetta. ,,Maður hefur heyrt margar sögur um að smábátar séu að landa ís og sjó og segja að það sé makríll. Það er enginn sem trúir því að þetta verði frjálst til framtíðar og það býður upp á að menn auki vigtina.“ Þegar Örn er spurður út í þetta segir hann að nokkur leiðindamál hafi komið upp varðandi vigtun. Um leið og sambandinu hafi borist þetta til eyrna hafi verið ritað bréf til Fiskistofu þar sem óskað var eftir því að tekið yrði tekið á vigtunarmálum. ,,Við lögðum til að leyfilegt ísmagn yrði 15-19%,“ segir Örn. ,,Það var komið til móts við okkur og gefin út reglugerð sem Fiskistofa taldi að kæmi í veg fyrir teygjanleika í þessum efnum þannig að allir sætu við sama borð,“ segir hann. Viðbrögð
stjórnvalda var breyting á reglugerð nr. 781/2014 þar sem gerð var krafa um að allur makríll veiddur á línu og handfæri skyldi endurvigtaður og tók sú breyting gildi 4. september síðastliðinn. Viðmælendur voru hins vegar á því að reglurnar myndu í raun engu breyta að því gefnu að fyrirkomulag veiða væri áfram sambærilegt.
Eftirlit með endurvigtun mjög erfitt
,,Þessi tegund brota er mjög á skjön við fiskveiðistjórnunarkerfið okkar sem byggir almennt á því að menn hafi hagsmuni af því að vigta afla án íss fyrir aflaskráningu,“ segir Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs hjá Fiskistofu, og staðfestir að Fiskistofu hafi borist kvartanir þess efnis að menn væru að landa sjó og ís með makrílnum. ,,Ábendingar um brot berast okkur með ýmsum hætti. Við metum svo áreiðanleika ábendinga og hvort og þá hvaða aðgerðir eru mögulegar.“ Meðferð brotamála ljúki almennt með viðurlögum sem eftir atvikum fela í sér áminningu, veiðileyfissviptingu, afturköllun vigtunarleyfis eða kæru til lögreglu. Jafnframt er nokkuð um að málum sé lokið með leiðbeiningu á vettvangi eða með svokölluðum leiðbeiningarbréfum. ,,Á þessu ári höfum við lagt nokkra áherslu á að nota greiningar við eftirlit, í því skyni að nýta upplýsingar sem við búum yfir til þess að beina eftirliti á réttan stað og á réttum tíma. Við gerum t.d samanburð á því hvort ísprósenta lækki þegar eftirlitsmenn standa yfir endurvigtun miðað við meðaltal síðustu þriggja landana hjá þessu tiltekna skipi,“ segir hún. Fiskistofa vilji auðvitað alltaf gera betur en staðreyndin sé að það sé mjög erfitt að hafa gott eftirlit með vigtunarleyfishöfum og mannaflinn sé takmarkaður.
Hvað verður ofan á?
Eins og fram hefur komið eru nánast allir viðmælendur Sjávarafls þeirrar skoðunar að veiðifyrirkomulag makríls sé ekki gott í dag. Í því séu innbyggðir hvatar til slæms frágangs á afla sem leiði til verðmætaskerðingar, það ýti undir svindl og komi til þess að veiðar verði með öllu frjálsar geti það rýrt orðspor þjóðarinnar sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar. Um þessar mundir er verið að vinna að heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins og búist er við að nýtt frumvarp verði lagt fram í vetur. Gera má ráð fyrir að veiðifyrirkomulag smábátamanna á makríl verði einnig endurskoðað. Nánast allir viðmælendur blaðsins sem spurðir voru álits um hentugasta fyrirkomulag veiða voru sammála um það að setja ætti veiðarnar í kvóta. Það myndi skila þjóðinni mestum arði. Sá eini sem ekki var sammála þessu var formaður Landssambands smábátaeigenda sem sagði félagsmenn alfarið hafna kvótasetningu. Flestir viðmælendur voru þeirrar skoðunar að auka ætti veiðar smábáta, að örva þyrfti veiðar á fleiri svæðum og nýta veiðarnar betur sem byggðaúrræði. Hvað framtíðarfyrirkomulag makrílveiða varðar þá hefur ráðherra sagt að makrílveiðar verði kvótasettar í samráði við útgerðarmenn. Nægjanleg reynsla sé komin á makrílveiðarnar og hægt sé að byggja á aflareynslu skipa við kvótasetningu. Deilur um nýtingu á makríl hafa teygt sig vítt um sjávarútveginn og stærri útgerðir hafa einnig deilt um stjórn veiðanna. Þess er skemmst að minnast að Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Ísfélag Vestmannaeyja kærðu nýverið atvinnuvegaráðuneytið til Umboðsmanns Alþingis þar sem þeir töldu að það ætti að vera búið að kvótasetja allan makríl. Umboðsmaður ályktaði í málinu og taldi að ráðherra bæri að setja makríl í kvóta. Verður því áhugavert að sjá á komandi misserum hvernig makrílveiðar smábáta þróast.
Greinin birtist í 2.tölublaði Sjávarafls 2014
Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir