Valka selur laxaflokkunar- og pökkunarkerfi til Noregs

Valka selur laxaflokkunar- og pökkunarkerfi til Noregs
November 19, 2014 Elín

Hátæknifyrirtækið Valka ehf í Kópavogi gekk nýverið frá samningi við norska fyrirtækið Slakteriet AS um kaup á heildarkerfi fyrir flokkun og pökkun á heilum laxi í vinnsluhús félagsins í Florø í vestur Noregi.

Kerfið sem Slakteriet kaupir af Völku mun auka alla sjálfvirkni í vinnslunni frá því að laxinn er slægður þangað til hann er kominn í lokaðann kassa á bretti. Að auki verður verksmiðjunni stýrt af Rapidfish framleiðslu- og pöntunakerfinu frá Völku. “Við áætlum að auka framleiðslunu töluvert” segir Kristin Bergstøl Hansen framkvæmdastjóri Slakteriet. “Valka bauð okkur heildarlausn sem mun tvöfalda framleiðslugetuna en um leið lækka kostnað við hverja framleiðslueiningu sem og auka sveigjanleika framleiðslunnar.”

Mikilvæg yfirsýn

Kerfið býður upp á ýmsar nýjungar sem veitir stjórnendum og öðrum starfsmönnum mikilvægar upplýsingar í rauntíma. Til að mynda er mögulegt nota bæði spjaldtölvur og farsíma til fylgast með framleiðslunni, skrá pantanir, framkvæma gæðaskoðanir og fleira. Þá fylgir kerfinu nýr SCADA módúll sem gefur upplýsingar um allar bilanir í kerfinu á grafískan hátt og gerir starfsmönnum kleift að bregðast samstundis við. “Okkur finnst Valka vera nútímalegt fyrirtæki með áhugaverðar lausnir sem hjálpa okkur virkilega að halda vinnslunni gangandi” bætir Kristin við.

Aukin umsvif í Noregi

Með þessar sölu eru laxavinnslurnar í Noregi með heildarkerfi frá Völku orðnar þrjár. “Þessi samningur er kærkomin viðbót” segir Helgi Hjálmarsson framkvæmdastjóri Völku. Við opnuðum nýverið útibú í Noregi og viðskiptin hafa farið vaxandi bæði í laxa- og hvítfiskkerfum. Við leggjum áherslu á vandaðar vörur og á nýsköpun sem skilar auknu virði til viðskiptavinanna.” segir Helgi að lokum.

Áætluð uppsetning og gangsetning á nýja kerfinu er í mars 2015.