Nauðsynlegt að ná sátt um útveginn

Nauðsynlegt að ná sátt um útveginn
November 20, 2014 Elín

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, flutti opnunarerindið á Sjávarútvegsráðstefnunni sem hófst í dag. Í erindi sínu minntist Sigurður m.a á að sjávarútvegur hefði gengið í endurnýjun lífdaga. Hann talaði um að konur létu æ meira til sín taka í sjávarútvegi og hversu jákvætt það væri að nýlega hefðu verið stofnuð samtök kvenna í sjávarútvegi.

Sigurður sagði að atvinnugreinin væri ríkari og öflugri með meiri fjölda kvenna og ánægjulegt að sjá svo margar konur á ráðstefnunni. Í ræðu sinni sagði Sigurður líka að mikilvægt væri að halda til haga í umræðunni að atvinnugreinin lyti sömu lögmálum arðsemi og fjárfestinga og aðrar, í þessari atvinnugrein þyrfti líka að hafa fyrir hlutunum og menn væri t.d háðir kvikulum fiskistofnum. Því miður væru þó ekki öll lönd sem litu á sjávarútveg sem atvinnugrein sem ætti að vera arðsöm heldur réðu önnur lögmál, eins og félagslegur stuðningur og fleira. Við þyrftum því í sífellu að standa vörð um greinina og samkeppnishæfni hennar. Oft týndist það í umræðunni að útvegurinn væri því ekki innanlandsmál. Við þyrftum stöðugt að hafa í huga að við þurfum að selja vörur okkar á hörðum, alþjóðlegum fiskmarkaði.

Nauðsynlegt væri að rifja upp hvers vegna kvótakerfið var tekið upp á sínum tíma, greinin hefði ekki verið arðbær og útlitið svart. Auðvitað væri fiskveiðikerfið ekki fullkomið, það væri í stöðugri mótun. Vonandi myndi áralöng deila um eðli skiptingar fiskimagns til lykta leitt þar sem stutt væri í nýtt frumvarp um heildarskipulag veiða. Leita þyrfti sáttaleiða, nauðsynlegt væri að byggja upp öfluga atvinnugrein um land allt. Í útveginum væru mörg tækifæri , um landið allt. Þessi tækifæri væru á mörgum sviðum, t.d í hátækni .

Í lokin minntist ráðherrann á að ríkksstjórnin hefði sett rannsóknir og þróun í forgang og þegar veitt ríflega í rannsóknarsjóði. Aukning væri að auki á döfinni til þessara sjóða. Nýsköpun þyrfti að vera meiri og vonandi myndi þetta fjármagn nýtast til að efla það.