Góðar fréttir frá fiskeldinu á Íslandi

Góðar fréttir frá fiskeldinu á Íslandi
January 9, 2015 Elín

Skoðun

Guðbergur Rúnarsson, framkvæmdarstjóri Landsambands fiskeldisstöðva

Náttúrlegar aðstæður til fiskeldis á Íslandi eru taldar nokkuð góðar þó hingað til hafi þeir möguleikar lítið verið nýttir á undanförnum áratugum. Við ströndina má allstaðar finna ómengaðan sjó sem er heppilegur til fiskeldis. Einnig má víða finna ferst vatn í nægilegu magni til að hægt sé að stunda fiskeldi bæði við ströndina og inn til landsins. Víða er að finna heit vatn sem nýtist til fiskeldis. Eftir áratuga stöðnun í fiskeldi hefur orðið hugarfarsbreyting. Horft er nú til fiskeldis sem atvinnugreinar sem eykur verðmæti og býr til störf í byggðarlögum landsins. Nú er eldið að aukast, fjárfestingar eru í góðum gír og umfjöllun um fiskeldi hefur snarbreyst til hins betra. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að Norska stórfyrirtækið Stolt-Nielsen, myndi fjárfesta í eldi á Senigal flúru og nýta til þess vatn frá Reykjanesvirkjun eða að pólskur athafnamaður fjárfesti í eldi á regnbogafiski með framlagi upp á 25 milljónir evra sem samsvara 4 milljörðum íslenskra króna svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2003 fór ég fyrst vestur á Vestfirði til að skoða þorskeldi á Tálknafirði. Heldur aumlegt var um að litast. Húsin á Patró máttu muna betri tíð. Á leiðinni út í Selárdal í Arnarfirði liggur leiðin í gegnum Bíldudal. Það var drungi yfir þorpinu og við eitt húsið var flutningabíll og fólk við að bera út búslóð í bílinn. Í bakaleiðinni, mörgum klukkustundum seinna var flutningabíllinn enn í þorpinu og enn var verðið að bera búslóð út í bílinn. Enga sjoppu fann ég á staðnum og bensínstöðin var lokuð. Það fyrsta sem skaut upp í kollinum á mér „Hvað verður um þetta þorp – Er þetta búið?“ Yfirbragð þorpsins í Tálknafirði var mun skárra. Bleikju- og silungseldi brostu við mér við komuna í þorpið, vinnsla í frystihúsinu, þorskeldiskvíar á firðinum, dyttað var að húsum og ungmenni við hreinsunarstörf í þorpinu.
Sumarið 2013 var ég aftur fyrir vestan. Þá hafði staðan heldur betur breyst. Við komuna á Bíldudal var verið að skipa út hjá Kalkþörungaverksmiðjunni. Hjá Arnarlaxi og hitti ég framkvæmdastjórann og hann sagði mér frá áformunum um að setja út laxaseiði vorið 2014 og uppsetningu á bitaverksmiðju fyrir laxaafurðir í neytendapakkningar. Nú eru rúmlega 500.000 smálaxar í sjókvíum félagsins í Arnarfirði. Norsk fiskbitaverksmiðjan er komin í hús á Bíldudal og til stendur að byggja 3000 fermetra húsnæði yfir hana þegar fram líða stundir. Slátrun hefst síðsumars 2015 og reiknað er með að allt að 150 störf verði til á Bíldudal þegar laxeldið er komið í fullan gang. Þegar hafa nokkrar fjölskyldur flutt vestur á Bíldudal og nú eru í plássinu t.d. þrennir tvíburar sem mér finnst nokkuð merkilegt.
Umsvifin í fiskeldi aukast jafnt og þétt á Vestfjörðum. Á Tálknafirði eru starfstöðvar helstu fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Dýrfiskur sem er að byggja 12.000 fermetra seiðastöð í þremur húsum, Arnarlax með umfangsmikið seiðaeldi á staðnum, Fjarðalax er með laxeldi í firðinum og þjónustustöð á staðnum, Tungusilungur er með eldi og vinnslu á bleikju á Tálknafirði og smærri aðilar eru með þorsk- og kræklingaeldi.
Fjarðalax er komið lengst í sjókvíaeldi. Þeir hófu uppbyggingu sjókvíaeldis árið 2010 og hafa hafið eldi á fjórðu kynslóð laxa í sjókvíum. Fjarðalax framleiða nú um 3.000 tonn á ári í þremur fjörðum; Patreksfirði, Tálknafirði og Fossfirði í Arnarfirði og eru með vinnslu á Patreksfirði. Nú þegar eru rúmlega 100 bein störf við fiskeldi á Vestfjörðum. Mesta fjölgunin er frá 2010 en segja má að þá hafi orðið viðsnúningur í atvinnulífinu á svæðinu. Öll stærri fyrirtækin fyrir vestan stefna á 10.000 tonna eldi. Þessi fyrirtæki eru: Fjarðalax, Arnarlax, Dýrfiskur og Hraðfrystihúsið Gunnvör. Ef þessi áform ganga eftir, sem ég hef fulla trú á, verður framleiðslan fyrir vestan á eldisfiski orðin 30 til 40 þúsund tonn eftir fáein ár. Á Austfjörðum er eldi á regnbogasilungi í Berufirði hjá Fiskeldi Austfjarða. Slátrun er hafin á Djúpavogi og framleiðslan mun aukast jafnt og þétt á næstu árum. Tvö helstu fyrirtækin í fiskeldi eru; Fiskeldi Austfjarða með aðstöðu í Berufirði og Fáskrúðsfirði og Laxar með leyfi í Reyðarfirði en þeir hyggjast setja út seiði í sjókvíar vorið 2015. Miklar væntingar eru gerðar til fiskeldis fyrir austan og vona menn að þróunin verði svipuð og fyrir vestan. Gefin hafa verið út rekstrarleyfi fyrir 43 þúsund tonnum í fiskeldi og fyrir liggja umsóknir um önnur 40 þúsund tonn hjá opinberum aðilum. Reikna má með afgreiðslu hluta þeirra leyfa síðsumar eða haustið 2015.

Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér