Hraður vöxtur hjá Arctic Fish samstæðunni

Hraður vöxtur hjá Arctic Fish samstæðunni
November 11, 2014 Elín

Arctic Fish samstæðan hefur farið gegnum undraverðan vöxt frá stofnun þess fyrir þremur árum. Fyrirtækið stendur nú fyrir nýframkvæmdum upp á hundruðir milljóna fyrir botni Tálkafjarðar en uppbygging á seiðaeldisstarfsemi félagsins hefur það markmið að byggja undir frekari vöxt starfseminnar.

„Við erum bæði í bleikju- og silungseldi fyrir vestan, ásamt vinnslu. Fyrir sunnan erum við svo með stofnfisk og seiðaeldi á þremur á stöðum: Á Fiskalóni og Bakka í Ölfusi, og á Húsatóftum í Grindavík,“ segir Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish og Dýrfisks. Aðalseiðaeldisstöð fyrirtækisins fyrir silung er nú í Tálknafirði meðan aðal sjóeldið er í Dýrafirði. Sótt hefur verið um fleiri sjóeldisleyfi, bæði á suður- og norðurfjörðum Vestfjarða. Vinnsla Arctic Fish er svo á Flateyri. Hinn kröfuharði Japansmarkaður fær stærstan hluta silungsframleiðslunnar og vinnur Arctic Oddi silunginn í sushi afurðir eftir nákvæmum leiðbeiningum. Hluti framleiðslunnar fer líka til Frakklands, bæði sem flök og eins heill fiskur, en þar er systurfélag Arctic Fish, Novo Food, með sölu- og dreifingarstöð sem var keypt í sumar. Dreifingarstöðin er í Boulogne sur Mer og var áður í eigu laxarisans Lerøy og starfa þar tíu manns. Borgin er hjarta ferskfiskdreifingar í Evrópu og má því vænta að stöðin eigi eftir styrkja Evrópusöluna talsvert. Í dag vinna um 80 manns á Íslandi fyrir Arctic Fish og dótturfélög þess; fiskeldisstarfsemina hjá Dýrfiski og fiskvinnsluna Arctic Odda, og má segja að vöxtur Arctic Fish hafi verið einstakur því þegar Sigurður stofnaði fyrirtækið árið 2011 var hann eini starfsmaðurinn.

Miklar framkvæmdir

Arctic Fish er með eigið kynbótastarf fyrir bleikjuhrogn og segir Sigurður að verið sé að skoða hið sama fyrir silungshrogn en nú eru þau keypt í Danmörku. Fyrir botni Tálknafjarðar er nú verið að byggja nýja seiðaeldisstöð á vegum Arctic Fish og eru þetta stærstu nýframkvæmdir í seiðaeldi á vegum eldisfyrirtækis hérlendis frá 1986. Byrjað var á byggingu stöðvarinnar fyrir ári og mun fyrsti áfangi verða tekinn í notkun í vetur. „Þarna verða byggð þrjú eins hús með  3000m3 kerjarými. Þetta verður því þreföldun á því sem við höfum í dag, auk þess sem stöðin byggir á nýrri tækni endurnýtanlegrar vatnsnotkunar,“ segir Sigurður. Bygging á húsi tvö er þegar hafin og stefnt að því að taka það í notkun á næsta ári. Uppbyggingin er gríðarleg fjárfesting og hleypur á hundruðum milljóna en Sigurður segir að góð seiðaeldisstöð sé einfaldlega grunnur að áframhaldandi velgengi hjá fyrirtækinu. „Það er mikil þörf fyrir stærri landeldisstöðvar ef það á að takast að ná þeim mikla vexti í sjóeldi sem stefnt er að, í dag eru seiðaeldisstöðvar almennt takmarkandi þáttur.“

articfish

Eigum eftir að vaxa og dafna

Aðspurður um horfur fiskeldis á Íslandi segist Sigurður vera bjartsýnn. „Við hjá Dýrfiski erum enn að taka okkur fyrstu skref í fiskeldinu og við erum ekki komin á þann stað ennþá að þetta verði hnökralaust. Það er eitthvað sem kemur upp á hverjum degi enda grínaðist einhver með það að Murphy hefði sennilega verið fiskeldismaður! Þetta er þó allt að þróast í rétta átt, hægt og bítandi.“ Hann segir að mistök séu hluti af lærdómsferlinu og það sé ýmislegt ennþá sem þau séu
að læra. Það þurfi að læra að lifa með þeim tækifærum og hindrunum sem séu í íslensku umhverfi, enda séu þau oft ólík því sem gerist í okkar nágrannalöndum. „Þótt aðstæður fyrir sjóeldi séu ekki eins góðar hjá okkur og hjá flestum okkar nágrönnum þá erum við með betri landeldisaðstæður og það þurfum við að læra að nýta okkur enn betur,“ segir hann. Íslendingar séu að selja ákveðna sögu og upplifun og út á það gangi þeirra eigin markaðssetning. „Við höfum lífrænt eldi, eigið klak, náttúrulegt fóður, notum jarðvarma og græna orku. Við höfum líka vottun upp á að hjá okkur séu engir sjúkdómar og við notum engin lyf. Þá lítum við líka til þess að þótt sjórinn okkar sé kaldur og þýði hægari vöxt en hjá öðrum þá er hann hreinni og tærari. Vara okkar Íslendinga er ekki eins og annarra og það þarf að byggja á því til að selja og hafa það sem markmið að koma þessari sögu áleiðis.“

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir