Miklar fjárfestingar

Miklar fjárfestingar
November 12, 2014 Elín

„Það er ekki meiningin að hætta allri frystitogaraútgerð. Ég reikna ekki með miklum breytingum á næstu árum frá því sem þegar er búið að gera og ákveða,“ sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda í upphafi spjalls Sjávarafls við hann. Tilefnið er nýleg ákvörðun HB Granda um að láta smíða fyrir sig þrjá nýja ísfisktogara í Tyrklandi. Þar eru nú þegar tvö uppsjávarveiðiskip í smíðum fyrir fyrirtækið og fjárfestingin í allri þessari skipasmíði er samtals um 14 milljarðar króna. Vilhjálmur segir kröfur á markaði fyrir fiskafurðir ráða mestu um stefnu fyrirtækisins í veiðum og vinnslu. „Það er aukin krafa um ferskleika, uppruna- og sjálfbærnivottun fisksins. Þá þarf að nýta allt sem kemur um borð og það gerum við t.d. um borð í Þerney en þar er fiskimjölsverksmiðja sem vinnur úr því sem til fellur og fer ekki í frystingu.“ Frystitogararnir Höfrungur þriðji og Örfirisey eru hins vegar ekki með fiskimjölsverksmiðju. HB Grandi hefur fækkað frystitogurum sínum og breytt einum þeirra, Helgu Maríu AK-16, í ísfisktogara. Þetta hefur þýtt mun meiri vinnu í landi og þá sérstaklega í fiskiðjuveri fyrirtækisins á Akranesi þar sem allur þorskur er unninn. „Árið 2012 vorum við að vinna 3.500 tonn á Akranesi en á þessu ári stefnir í að 6.500 tonn verði unninn þar,“ segir Vilhjálmur. Þetta þýðir meiri mannskap við vinnslu og nú eru í fiskiðjuverinu á Akranesi milli 80 og 100 starfsmenn en Vilhjálmur bendir á að þeir væru 15 fleiri ef ekki hefði komið til ný beinagarðsskurðarvél frá Völku í fiskiðjuverið.

Þrjú fyrirtæki keypt á Akranesi

Allur afli, sem kemur um borð í ísfisktogara HB Granda, er nýttur. Fyrirtækið á og rekur Laugafisk á Akranesi, sem þurrkar þorskhausa og dálka, það á einnig Vigni G. Jónsson sem vinnur verðmætar afurðir úr hrognum á erlenda markaði. Fiskimjölsverkmiðja HB Granda á Akranesi tók fyrr á árinu í notkun beinamjölsverksmiðju sem vinnur úr öllu beinum sem til falla í fiskiðjuverinu í Reykjavík og er þeim ekið á milli í sérhönnuðum tönkum til Akraness. Þá kaupir Akraborg hf. á Akranesi alla lifur af HB Granda. Lifrin er soðin niður og seld í dósum út um allan heim undir þekktum vörumerkjum og nýlegt fyrirtæki, sem bæði er á Akranesi og á Grandanum í Reykjavík kaupir allt roð sem til fellur og þurrkar fyrir erlenda gæludýramarkaði þar sem gott verð fæst fyrir roðið sem sælgæti fyrir hunda. Norðanfiskur á Akranesi er nýlega kominn í eigu HB Granda. Þar er unninn fiskur í frystar neytendaumbúðir og stærstu viðskiptavinir eru stórmarkaðir hér á landi. Með meiri áherslu á að færa fiskinn að landi með ísfisktogurum skapast meiri vinna og aukin verðmæti hjá öllu þessum fyrirtækjum en varlega áætlað vinna á þriðja hundrað manns hjá félaginu í úrvinnslu sjávarafurða á Akranesi auk allra þeirra starfa sem eru í fiskiðjuverum á Granda í Reykjavík, Vopnafirði og á skipunum.

Víkingur farinn úr flotanum

Sem fyrr segir eru tvö ný uppsjávarveiðiskip í smíðum fyrir HB Granda í Tyrklandi auk þess að til stendur að smíða þrjá ísfisktogara. Eitt fengsælasta og reyndasta skip flotans, Víkingur AK-100, hefur nú verið selt til Danmerkur þar sem hann verður rifinn og hefur endurvinnslufyritækið Fornæs, sem keypti skipið, auglýst hluti úr því til sölu. Síðutogarinn Víkingur var smíðaður árið 1960 í Bremerhaven í Þýskalandi og kom nýr til Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness þann 21. október 1960. Hann hóf nótaveiðar á síld árið 1968 eftir að hafa legið um hríð ónotaður við bryggju og árið 1974 var Víkingi breytt í nótaskip. Skipið er með farsælustu og aflasælustu skipum Íslandssögunnar en systurskipin voru Sigurður, sem upphaflega var ÍS þá RE og síðast VE. Hann fór í brotajárn í fyrra. Önnur systurskip voru Freyr og Maí en Freyr var fljótt seldur til Bretlands og hét Ross Revenge. Hann var þekktur landhelgisbrjótur hér við land í þorskastríðum en síðustu árin var hann fljótandi útvarpsstöð Radio Caroline úti fyrir ströndum Bretlands. Vilhjálmur segir auðvitað söknuð af Víkingi enda hafi það skip verið feikilega farsælt alla tíð en ekki sé margt í stöðunni þegar skip verði gömul og úreltist. Dýrt sé að halda þeim við og geyma þau án verkefna.

Öflug uppsjávarveiðiskip

Nýju uppsjávarveiðiskipin, sem HB Grandi fær frá Tyrklandi, eru smíðuð eftir sömu teikningu og Börkur nýi og Sigurður, nýtt skip Ísfélags Vestmannaeyja. Vilhjálmur segir Börk þó frábrugðin að því leiti að í hann hafi verið sett notuð vél. „Stærsti munurinn á eldri skipunum og þeim nýju er að það sést ekki borð á þeim fulllestuðum og skipverjar á nýjasta Berki NK, sem er smíðað eftir sömu teikningu, segja það mesta munin að standa þurrum fótum við vinnuna á dekkinu í stað þess að vera á kafi í sjó. Svo er hægt að dæla beint úr pokanum frá skutnum sem er mikil munur á meðferð hráefnis frá því að draga pokann fram með síðunni. Einnig er mjög öflugt kælikerfi í þessum skipum sem auðvitað eykur gæði hráefnis og ganghraði þeirra góður.“

Umhverfismálin og húsavernd

Athygli hefur vakið að HB Grandi hefur á undanförnum árum sinnt mjög vel viðhaldi og endurgerð húsa sinna en starfsemin er í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði. Fyritækið hefur hlotið umhverfisverðlaun bæði á Akranesi og í Reykjavík fyrir góða rækt við hús og umhverfi. Nýlega var gert upp svokallað vaskhús á Akranesi en það byggði Haraldur Böðvarsson árið 1916. Húsið var gert upp í samvinnu við Minjavernd ríkisins og t.d. var gerð mikil leit að upprunalegum lit og gluggar hússins einnig settir í upprunalegt horf. Á efri hæð þess húss var fyrsta skrifstofa Haraldar Böðvarssonar og Co. Nú er einnig verið að gera upp gömlu síldarverksmiðjuna á Granda í Reykjavík. „Við köllum þetta Marshall húsið enda var það reist fyrir Marshall aðstoðina eftir heimstyrjöldina. Það var í raun orðin spurning um hvort ætti að rífa það hús eða gera eitthvað við það. Ástand hússins var svo slæmt. Við vitum í raun ekkert í hvað það verður notað en núna komum við því í upprunalegt horf að utan,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmur forstjóri HB Granda.

Aflanum er víða landað

Á Akranesi hefur HB Grandi sótt um að stækka móttöku fiskiðjuversins en Vilhjálmur segir ekki enn ljóst hvernig mál þróist þar. Samræma þurfi allar framkvæmdir eftir kaup HB Granda á Laugafiski, Norðanfiski og Vigni G. Jónssyni hf. Nánast öllum bolfiski er enn landað í Reykjavík og þeim fiski sem unninn er á Akranesi ekið á milli. Þó hafa ísfisktogarar landað nokkrum sinnum upp á síðkastið og býst Vilhjálmur við framhaldi á því. Í Reykjavík er landað við hlið fiskiðjuversins og mikið hagræði af því að geta ekið aflanum með lyfturum beint í vinnsluna en vonandi verði hægt að koma því við á Akranesi líka svo auðveldara verði um vik að landa bolfiski þar líka. Uppsjávarfiskinum er að mestu landað í vinnslu fyrirtækisins á Vopnafirði en lítilsháttar af makríl og kolmunna hefur einnig verið landað á Akranesi sem og loðnu á stærri vertíðum.

 

Greinin birtist í 1. tölublaði Sjávarafls 2014

Blaðamaður: Haraldur Bjarnason