Kvóti, ólympískar veiðar og umburðarlyndi

Kvóti, ólympískar veiðar og umburðarlyndi
November 12, 2014 Elín

Skoðun

Ásmundur Friðriksson, alþingsmaður, sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi.

Makríllinn hefur komið til okkar sem happadrættisvinningur fyrir land og þjóð. Hann kemur hingað vegna hækkandi sjávarhita í ætisleit, fitnar og verður að miklu verðmæti. Stóru uppsjávarfyrirtækin hafa bætt nýtingu uppsjávarskipa sinna og vinnslunnar, en góð afkoma þeirra síðustu ár kemur ekki síst til vegna veiða og vinnslu makríls. Þá hefur veiði smábáta og togbáta orðið lyftistöng í mörgum sjávarbyggðum og skapað fleiri fyrirtækjum mikla verðmætasköpun og atvinnu sem mikið munar um í mörgum byggðarlögum og minnkar atvinnuleysi. Á bryggjunum hafa menn áhyggjur af líffræðiþættinum, makríllinn er fullur af pokaseiðum, ýsuseiðum, grásleppu og fleiri tegundum. Við verðum að rannsaka betur á hvern hátt makríllinn getur orðið nytjastofnum landsins skaðvaldur, en menn hafa bent á að víða þar sem mikill makríl gengd hafi komið, hafi hefðbundnir nytjastofnar jafnvel hrunið.

Okkur vex fiskur um hrygg

Í sumar nær tvöfölduðust veiðar línubáta á makríl og voru 7000 tonn. Smábátar og togbátar með úthlutun í makríl hafa landað afla til vinnslu hjá fleiri fiskvinnslufyrirtækjum en þeim hefðbundnu uppsjávarvinnslum sem áður sátu einar að makrílvinnslu. Þessi staðreynd hefur orðið til þess að fleiri byggðarlög, fiskvinnslufólk, fiskvinnslu- og þjónustufyrirtæki hafa notið þeirra verðmætasköpunar sem fylgir makrílnum. Fjölgun vinnslustöðva hefur sérstakleg komið skólafólki í sjávarbyggðum vel en það hefur unnið nótt sem nýtan dag og búið sér í haginn fyrir framtíðina og aflað mikilla tekna. Þrátt fyrir deilu og niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis um að makrílkvóta ætti eingöngu að úthluta á uppsjávarskip þá verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að þessi þróun veiða og vinnslu hefur skapað meiri velsæld, fleiri tækifæri og minna atvinnuleysi í sjávarbyggðum víða um land sem áður byggðu á hefðbundinni bolfiskvinnslu. Það er því mikilvægt að við hugum að almennum hagsmunum og náum sátt í greininni um veiðar og nýtingu makrílsins sem komi sem flestum til góða. Í því sambandi minni ég á að Norðmenn leggja á það áherslu að veiða sem mest af makríl en hann hefur mikil áhrif á lífríkið í sjónum og stofninn afar stór um þessar mundir. Við höfum kosið stöðuleika og standa á sannfæringu okkar um sjálfbærar veiðar.

Aukið verðmæti

Sú hugsun sækir á mig hvort við náum ekki sátt um áframhaldandi veiðar línu og togbáta verði samkvæmt úthlutun hvers árs og því ekki um að ræða kvótasetningu á hvern bát til framtíðar eins og stóru uppsjávarskipin. Ólympískar veiðar línubáta eða ríflegur pottur samkvæmt nánari útfærslu á ákveðnu veiðisvæðum og fjölda báta yfir það tímabil sem makrílinn er í bestu holdum og verðmætið mest frá miðjum júlí til loka september er þjóðhagslega hagkvæmt og hleypir miklu lífi í fleiri fyrirtæki og sjávarbyggðir með margfeldisáhrifum og minna atvinnuleysi. Ég vil skoða þessa hugmynd á þeirri forsendu að hagsmunir fleiri er í húfi og á einhverjum stað verður hagræðing í sjávarútvegi að hafa endimörk en 86% úthlutað kvóta er hjá 5 stærstu útgerðum landsins. Flóra smærri, meðal- og stórra fyrirtækja skapar jafnvægi í útvegnum eins og annarstaðar í atvinnulífinu.

Umburðarlyndi

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein í samfélaginu. Í skjóli öflugra fyrirtækja í sjávarútvegi vex og dafnar nýsköpun sem skapað hefur fjölda nýrra vel launaðra starfa og aukið framleiðni greinarinnar. Við verðum að halda áfram á þeirri braut og landvinnslan fylgi í kjölfarið og bjóði líka betur launuð störf. Það er því augljóst að jafn mikilvæg grein eins og
uppsjávarveiðin er og stór í sniðum á öllum íslenskum mælikvörðum hafi umburðarlyndi til að sem flestir geti notið þess happafengs sem makríllinn er og færir þjóðinni mikil verðmæti með heimsókn sinni að ströndum landsins og þeir litlu og stóru geti unað hag sínum vel í sá og samlyndi. Mér finnst vert að skoða það.

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014