Sigurður Friðriksson fyrrum skipstjóri og útgerðarmaður

Sigurður Friðriksson fyrrum skipstjóri og útgerðarmaður
November 14, 2014 Elín

Hann Sigurður Friðriksson, jafnan kallaður Diddi, fyrrum útgerðarmaður og skipstjóri hafði í nógu að snúast þegar við mæltum okkur mót á veitingastað hans á horni Laugavegs og Snorrabrautar einn
morguninn. Maðurinn rekur líka umfangsmikla ferðamannaþjónustu og er með marga í vinnu. Þarna á
horninu er 4th floor hotel í hans eigu ásamt veitingastað og bílaleigu og í sambyggðu húsi ofar við Laugaveginn eru hótelíbúðir í eigu hans, sannkallaðar lúxusíbúðir. Í Keflavík er svo líka útibú frá bílaleigunni og fólk á hans vegum að þjónusta ferðamenn sem þegar þeir koma til landsins og fara á brott. Hann byrjaði með þennan rekstur fyrir 8 árum en hafði þá verið á sjónum og við útgerð síðustu áratugina. Sigurður er 66 ára gamall, fæddur og uppalinn Sandgerðingur, þar sem hann hefur alið manninn mest alla tíð.

Fór 19 ára í Stýrimannaskólann

„Auðvitað var þetta hjá mér eins og títt var hjá strákum í sjávarplássum. Ég byrjaði að fara á sjóinn sem lítill gutti og unglingur. Fór svona róður og róður, bæði á trillur og vertíðarbáta frá Sandgerði. Svo afrekaði ég það að fara sem messagutti á fraktara og á síðutogara sem fór í siglingu til Grimsby og Bremerhaven með rútineruðum fyllibyttum og lærði þá allt sem menn læra í svoleiðis túrum,“ segir hann og hlær í upphafi spjalls. Nítján ára gamall var hann kominn í Stýrimannaskólann haustið 1967 og kláraði þá fyrsta stigið um veturinn. Síðan kom hlé í skólasetuna hjá mér og ég gerðist skipstjóri á vertíðarbátunum í Sandgerði. Var t.d. með Freyju GK 110 og gekk alveg sérstaklega vel vertíðina 1973 og átti þá oft stærstu róðrana í Sandgerði. Þessi bátur var áður Víðir annar GK og var mikið aflaskip alla tíð, ekki síst þegar Eggert Gíslason var með hann á síldinni. Eftir þetta er ég sannfærður um að bátar hafa sál. Mér gekk vel á bátunum en svo þegar skuttogarnarnir fóru að koma fór ég aftur í Stýrimannaskólann og kláraði annað stigið til að ná mér í full skipstjórnarréttindin. Eftir það fór ég á togarana, byrjaði sem stýrimaður á Aðalvíkinni og var þar meðan Markús Guðmundsson var skipstjóri. Hann var sérstakur og einstaklega góður maður að vera með. Ég hætti þarna um borð þegar
hann hætti. Síðan var ég á þessum togurum á Suðurnesjunum þangað til ég fór í eigin útgerð.“

Gerði út Guðfinn og breytti honum á alla vegu

Sigurður fór ekki langt að sækja sér bát. „Ég fór til Þorlákshafnar og keypti þar bát sem hér Sturlaugur annar. Þetta var lítill bátur, aðeins 30 tonn, frambyggður stálbátur smíðaður hjá Vélsmiðjunni Stáli á Seyðisfirði.“ Diddi segist hafa gert allt við þennan bát sem hægt var að gera og það hafi verið heilt ævintýri. „Ég lengdi hann tvisvar, ég breikkaði hann og ég setti í hann þrjár vélar meðan ég átti hann.“ Þessi bátur fékk nafnið Guðfinnur KE-19 hjá Didda og allar breytingarnar á honum lét hann gera í Hafnarfirði í þremur áföngum. „Á þessum árum mátti ekki fjölga bátum í flotanum hvorki nema úrelda á móti og því fór ég út í þessar breytingar og þetta var orðið heiftarlega gott skip, 25 metra langt og mældist 80 brúttótónn. Ég var með þennan bát á netum og dragnót en mest þó á rækjuveiðum. Við vorum lengst af 7 í áhöfn. Sá sem var lengst með mér var allan þann tíma frá því ég byrjaði 1980 og þar til ég hætti útgerð 2004. Ég dró þá upp netin á afmælisdeginum mínum 19. apríl með einhverjum 10 tonnum í og ákvað þá að þessum kafla í lífi mínu væri lokið.“

Afli jókst og minna mátti veiða

Guðfinnur KE var kominn með ágætan kvóta. „Ég var búinn að kaupa mikinn kvóta á honum en það fylgdi honum ekkert annað en góð hlutdeild í humarveiðum þegar ég keypti hann. Kvótakerfið var ekki komið þá en ég var pýndur til að afsala mér þessum humarkvóta af því að ég vildi veiða rækju. Ég var svo á rækju öll viðmiðunarárin fyrir kvótakerfið og fékk bara einhver 50 tonn af bolfiski. Allt sem útgerðin gaf á árunum á eftir fór í kvótakaup. Fiskiríið var þó farið að aukast svo mikið og báturinn afkastameiri að við tókum okkar kvóta á mánuði eða svo. Ég sá þá að veiðin var orðin svo mikil að þetta var að verða glórulaust, búið að setja reglur um að fækka netum og við vorum komnir í land alltaf á miðjum degi. Það mátti ekkert orðið fiska. Ég seldi bát og kvóta til Nesfisks og síðan fór þessi bátur til Samherja og varð Oddeyrin og var gerður út á snurvoð. Hann er í Grundarfirði og núna og Bergur Garðarsson er með hann. Hann hefur verið á sæbjúgnaveiðum og fleiru að undanförnu og heitir núna Hannes Andrésson SH.“ Diddi segist hafa tekið þessa ákvörðun þótt erfið hafi verið. Hann fór að gera út smærri báta, stofnaði lítið fiskverkunarfyrirtæki í Sandgerði sem heitir Iceland Fresh Seafood og verkaði mest ferskan fisk í flug, söltuðu einnig og seldi markað. Bátarnir voru á Siglufirði, Skagaströnd og Ólafsvík eða Sandgerði. „Þetta var möndlað á milli staðanna og fyrirtækið átti bíl til að sækja fiskinn. Ég sá fljótt að ég gat ekki verið sjálfur á þessum litlu bátum og hafði bara ekki skrokk í þessa vinnu. Þetta gekk samt vel en ég stoppaði stutt í þessu. Ég sagði hingað og ekki lengra. Það var „Game over“ í þessari útgerð eins og þeirri fyrri. Svo ég hætti þessu.“ Hann segir kvótakerfið og erfitt starfsumhverfi lítilla útgerða í því hafa líka átt sinn þátt í að hann hætti útgerð. „Einu sinni var
veiðieftirlitsmaður sendur út með mér á Guðfinni vegna gruns um að ég væri með of margar netatrossur. Sá var viku um borð og í skýrslu hans eftir róðrana alla vikuna sagði hann að þarna væri  allt í lagi og farið eftir settum reglum. Vandinn væri bara sá að skipstjórinn fiskaði meira en aðrir á sömu slóð.“

Hótelrekstur í Reykjavík

Diddi segir hugmyndina að ferðaþjónustunni hjá sér hafa kviknað í Spánarferð. „Ég sá þar gömlu sjávarútvegsplássin sem orðin voru að vinsælum ferðamannastöðum og varð sannfærður um að þetta myndi gerast á Íslandi. Ég var viss um að það væri bara tímaspursmál hvenær þessi stund rynni upp.“ Hann segir að Sandgerði hafi þó ekki hvarflað að sér. „Ég byrjaði strax árið 2008 í þessu húsi á horni Laugavegs og Snorrabrautar og keypti upp það pláss í því sem ég gat í því eftir að ég seldi útgerðina. Síðan kom bílaleigan City Car Rental en hún er til húsa á fyrstu hæðinni ásamt veitingastaðnum.“ Diddi lét ekki þar við sitja heldur byggði upp gistiheimili uppi á Höfða fyrir þá sem eru nýkomnir úr áfengismeðferð og hafa ekki í nein hús að venda. „Þar eru 14 einstaklingsíbúðir og þetta er það besta sem ég hef látið af mér leiða í þessum bransa en SÁÁ hefur verið með þetta á leigu síðan 2009.“ Hótelreksturinn byrjaði á fjórðu hæðinni en svo bættist önnur hæðin við. „Í næsta húsi hérna við hliðina útbjó ég svo fínar íbúðir. Þetta er þriggja stjörnu hótel og er alfarið fjölskyldufyrirtæki. Við rekum þetta ég og konan mín, enginn önnur yfirstjórn og erum svo með hóp af tryggju starfsfólki með okkur og margir eru búnir að starfa hér í þessi átta ár.“ Í Keflavík er svo annar hluti fyrirtækisins. „Þar er alveg annað batterí sem sér um þá erlendu ferðamenn sem eru að koma til landsins. Þar tekur starfsfólk okkar á móti fólki og sér um að leigja því bíla og koma því í gistingu.“

Þeir fiska sem róa

Sigurður segir að í sjálfu sér sé ekki mikill munur á því að starfa í ferðaþjónustu og að vera á sjó eða gera út báta. „Þetta er svo svipað. Það þarf að róa og þeir fiska sem róa. Þetta er bara vinna. Í stýrishúsum gömlu togarana stóð á vélsímanum: „Full ferð áfram“. Það gildir líka í þessum og þýðir ekkert að líta til baka og velkjast í fortíðinni“ segir hann og bætir við að bílaleigureksturinn hafi smátt og smátt undir upp á sig. Fyrst hafi hún komið til vegna þess að hótelgesti vantaði bíla en nú væri hún orðinn heilmikill rekstur með 250-300 bíla og bílaverkstæði líka. Bílarnir eru frá litlum fólksbílum og jepplingum upp í stóra jeppa og 8-9 manna smárútur. Hann segir ekki endilega vera að stíla inn á einhverja sérstaka hópa ferðamanna, jafnt íslenska sem aðra og verðlagningu sé hófstillt. Sigurður segist hafa verið fljótur að komast inn í ferðamannaþjónusta. „Jú, jú, auðvitað var fullt af veggjum í veginum en ég klifraði bara yfir þá alla,“ segir þessi hressi fyrrum sjósóknari, hress í bragði.

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014

Blaðamaður: Haraldur Bjarnason