Stærsti framleiðandi bleikju á heimsvísu

Stærsti framleiðandi bleikju á heimsvísu
November 11, 2014 Elín

Stærstu framleiðendur bleikju í heiminum í dag er Íslandsbleikja sem er í eigu Samherja.
Fyrirtækið er með starfsstöðvar í Grindavík, Reykjanesi og Ölfusi og fyrir eldi Samherja vinna
70 manns. Íslandsbleikja framleiðir árlega um 2200 tonn af bleikju og Silfurstjarnan í Öxarfirði
um 1100 tonn af laxi og var velta fyrirtækjanna um 2500 milljónir á síðasta ári. Stærstur hluti
framleiðslunnar er fluttur ferskur út, til Bandaríkjanna og Evrópu.

Stækkun í pípunum

Fiskeldi Samherja framleiðir bleikju og lax , allt frá seiði til fullunninnar vöru. Fiskurinn er alinn á fimm stöðum en slátrun á laxi er í Öxarfirði og slátrun og vinnsla á bleikju fer fram í fullkominni vinnslustöð í Grindavík. Fyrirtækið flytur mikið út til Bandaríkjanna en einnig til Norður Evrópulanda. ,,Við höfum hins vegar lítið verið á Asíumarkaði en erum að sjálfsögðu að skoða þau mál því sá markaður er mjög áhugaverður, ekki síst Kína,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Íslandsbleikju. Meirihluti framleiðslunnar fer út með flugi og eru helstu viðskiptavinir fyrirtækisins verslanir og veitingastaðir sem sérhæfa sig í hágæðavöru. Öll framleiðsla Íslandsbleikju er t.d vottuð að kröfum verslanakeðjunnar Whole Foods. Það þýðir t.d að engin lyf eru notuð og aðeins náttúruleg litarefni eru í fóðri fisksins, fyrir utan aðrar reglur sem lúta að sjálfbærni og velferð fisks og starfsmanna. Jón Kjartan segir mikinn áhuga vera fyrir íslenskri gæðavöru í Bandaríkjunum og verið sé að skoða möguleika á stækkun, bæði hvað varðar bleikju og lax. „Við höfum alltaf áhuga á að vaxa.Við erum því að vega og meta stöðuna, bæði m.t.t markaða og möguleika á svæðunum þar sem við erum með starfsemi. Það er búið að byggja nokkur ker á þessu ári og um þessar mundir erum við að afla leyfa til frekari stækkunar, sem er langur og strangur ferill, sem stjórnar miklu um hvenær möguleg stækkun kæmi til framkvæmda.“

Ánægjulegt ef greinin stækkaði

Skin og skúrir hafa skipst á hjá íslenskum fiskeldisframleiðendum í gegnum árin og Jón Kjartan segir menn vera reynslunni ríkari í dag. ,,Maður reynir auðvitað að nýta reynsluna til að gera sífellt betur. Við erum t.d í landeldi og þar hefur orðið töluverð þróun, jafnt og þétt.“ Jón Kjartan segir að áhersla sé lögð á menntað starfsfólk hjá Íslandsbleikju og í þeirra röðum séu margir með sérmenntun í fiskeldisfræðum auk annarrar iðn- og háskólamenntunar. Vöxtur greinarinnar í dag kallar hins vegar á enn fleira menntað og sérhæft starfsfólk. Aðspurður um vaxtarhorfur eldis á Íslandi segir Jón Kjartan flestar ytri aðstæður fiskeldis vera hagstæðar í dag, verð á laxi sé t.d. hátt. Ef fyrirtæki í greininni nái að komast almennilega á legg núna hafi þau mikla framtíðarmöguleika. ,,Ég vona að mönnum takist það sem þeir ætla sér, það væri ánægjulegt að sjá greinina stækka enn meira á Íslandi. Ég er því nokkuð bjartsýnn á framtíðarhorfur eldis hérlendis. Við hjá Íslandsbleikju höfum allavega mikinn metnað til að gera sífellt betur í dag en í gær, enda má aldrei sofna á verðinum.“

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir