Fiskeldi á Austfjörðum í miklum vexti

Fiskeldi á Austfjörðum í miklum vexti
November 11, 2014 Elín

Fiskeldi Austfjarða stefnir að 13 þúsund tonna stækkun í Berufirði og Fáskrúðsfirði og áætlar að
framleiða um 24 þúsund tonn árlega af laxi og regnbogasilungi. Störf geta orðið milli 150 og
200. Áætluð framleiðsla í ár verður um 1500 tonn sem er talsvert meira en sl. ár. Fiskeldi Austfjarða hefur sótt um þrettán þúsund tonna stækkun í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Fyrirtækið áætlar því að hafa framleiðslugetu upp á 24 þúsund tonn á ári. Árleg framleiðsla á hverju eldissvæði mun verða breytileg þar sem seiði verða einungis sett á hvert svæði þriðja hvert ár og eftir slátrun á einu svæði fer það í hvíld. Segir í Tillögu að matsáætlun sem birt er á vef FA að þannig sé ráðgert að heildarslátrun af laxi og regnbogasilungi muni aukast um fimm þúsund tonn á hverju rekstrarári. Áætluð er um sjö þúsund tonna aukning á regnbogasilungi og sex þúsund tonn af laxi og ætlar fyrirtækið að hefja þessa framleiðsluaukningu vorið 2016, ef leyfi fást. Þessi framleiðsluaukning þýðir að áætlað er að setja út allt að 2 milljón laxaseiði og 2 milljón regnbogasilungsseiði á ári. Árleg slátrun er því áætluð allt að 16þ tonn. FA hefur gert samning við fyrirtækið Funa ehf. á Hornafirði um förgun lífræns úrgangs en slóg sem fellur til við slægingu er áætlað um 10-14% af þyngd á slægðum fiski. Þetta þýðir að um 1.900 tonn af slógi muni falla til og verða nýtt sem aukaafurð. Þá gerir FA ráð fyrir að dauður fiskur verði fjarlægður reglulega úr botni eldiskvía og verður hann sömuleiðis nýttur sem aukahráefni. Skemmt lífrænt hráefni verður líka sent Funa til förgunar.

Mikil fjölgun starfsmanna

Tuttugu og þrír starfsmenn vinna nú hjá FA og gert er ráð fyrir að í kjölfar stækkunarinnar muni starfsmannafjöldi vaxa umtalsvert og verða milli 150-200 manns. Þess fyrir utan megi svo gera ráð fyrir að afleidd störf vegna aðfanga og þjónustu við starfsemi félagsins verði að álíka mörg. Það er því ljóst að þessi áform FA munu hafa mikil áhrif á byggðaþróun á Austfjörðum. Þá má í þessu sambandi geta að Laxar fiskeldi mun hefja starfsemi á Reyðarfirði á næsta ári og vill stærra leyfi en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Í dag hefur fyrirtækið leyfi fyrir sex þúsund tonna eldi en nú stefnir það hins vegar á stækkun um tíu þúsund tonn.

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir