Átökum um fiskveiðistjórnunarkerfið verður að linna

Átökum um fiskveiðistjórnunarkerfið verður að linna
November 10, 2014 Elín

Skoðun

Jón Gunnarsson, alþingimaður, sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi

Þeim átökum sem hafa átt sér stað um nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi á undanförnum árum verður að linna. Það er markmið okkar, stjórnarmeirihlutans, að koma þessu máli í höfn á komandi þingvetri. Mikil vinna hefur farið fram á undanförnum árum, sem mun nýtast okkur við að ljúka þessu máli. Umræða um þessa mikilvægustu atvinnugrein okkar hefur oft á tíðum ekki verið málefnaleg og/eða byggð á staðreyndum. Umræðan hefur verið pólitísk og allt of oft í flokkspólitískum tilgangi reynt að slá ryki í augu almennings um stöðu og afkomu greinarinnar. Staðreyndin er sú að á Íslandi hefur tekist að byggja upp sjávarútveg sem skilar betri afkomu en þekkist hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er árangur sem ekki er hægt að líta framhjá og eðlilegast að álykta sem svo að skipulag okkar við fiskveiðistjórnun hafi skilað þeim árangri sem stefnt var að í hagræðingu innan greinarinnar. Þessi staðreynd leggur þingmönnum þær skyldur á herðar að ekki verði fórnað þeim mikla árangri sem náðst hefur við breytingarnar. Útgerðarmenn stórir jafnt sem smáir hafa spilað stóra hlutverkið í þessari hagræðingu og m.a. greitt fyrir hana með gjöldum í gegnum árin. Það minnir óneitanlega oft á söguna um litlu gulu hænuna, þegar aðrir koma nú og segja; nú vil ég borða brauðið. Leitin að „rétta“ auðlindagjaldinu hefur staðið í allmörg ár. Menn hafa reiknað sig út og suður með mismunandi árangri. Það er því merkilegur áfangi sem felst í niðurstöðu núverandi veiðigjaldanefndar þegar sagt er að nánast útilokað sé að finna út einhverja auðlindarentu, þ.e.a.s. einhvern hagnað sem felst í því að hafa aðgang að takmarkaðri auðlind. Hvað á að skattleggja í þeim efnum, á að skattleggja hagræðingu í vinnslu og þá miklu verðmætasköpun sem átt hefur sér stað á þeim vettvangi eða er eðlilegt að eingöngu sé litið til veiðiþáttarins þegar talað er um sérstaka gjaldtöku af greininni? Eftir að hafa legið yfir málinu lengi blasir það við að mjög erfitt er að nálgast gjald sem tekur til vinnsluþátta í greininni. Hvar á þeirri gjaldtöku að ljúka, eigum við t.d. að leggja gjald á þá sem vinna úr fiskroði, innyflum fiska og t.d. fiskbúðir? Það er stöðugt verið að efla verðmætasköpun í sjávarútvegi og stjórnvöld á hverjum tíma eiga að fagna þeirri þróun og hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með aðgerðum sínum en ekki að letja fyrirtæki og einstaklinga með því að leggja auknar álögur á greinina. Niðurstaðan er því sú að eðlilegast er að leggja gjaldið á við skipshlið, þ.e.a.s. ef viðbótar gjaldtaka af þessari grein telst eðlileg. Almenn sátt virðist um það bæði innan sjávarútvegsgeirans og utan hans að hófleg gjaldtaka sé réttlætanleg. Ágreiningurinn snýst þá um það hvað telst hófleg gjaldtaka. Áform vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili voru all svakaleg þegar í fullri alvöru voru settar fram hugmyndir um jafnvel tugmilljarða gjaldtöku. Umræðan bar alltof mikinn pólitískan keim og litið var fram hjá staðreyndum sem blasa við. Niðurstaðan var síðan sú sem sagan geymir, hugmyndir þeirra náðu ekki fram að ganga einfaldlega vegna þess hve óraunhæfar og öfgafullar þær voru. Nokkrir þingmenn þáverandi stjórnarflokka voru einfaldlega ekki tilbúnir að ganga alla leið með félögum sínum, áttuðu sig á þeim staðreyndum sem við blöstu og skildu að slík gjaldtaka hefði haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt þjóðarbú. Það er von mín að þingið nálgist þessi mál í vetur á faglegri nótum en áður og að við getum átt málefnalega umræðu við afgreiðslu þessara mála. Það er mikilvægt að niðurstaðan verði þannig úr garði gerð að sjávarútvegsfyrirtæki okkar geti horft fram á veginn með vissu um það hvernig rekstrarumhverfi þeirra verði á næstu árum. Þannig munum við áfram stuðla að aukinni verðmætasköpun í þágu öflugrar atvinnugreinar og þjóðarbúsins alls.