Landgæði nýtt til fullnustu

Landgæði nýtt til fullnustu
November 10, 2014 Elín

Fiskeldi stefnir í að vera ein mikilvægasta stoð atvinnulífsins á sunnaverðum Vestfjörðum. Mikil þörf er á meira íbúðarhúsnæði og betri samgöngum á svæðinu svo norður og suðursvæði verði eitt atvinnusvæði. Bjart er framundan í eldinu en fara verður að öllu með gát.

Vilja fiskeldisbrautir í framhaldsskólana

Fiskeldi og afleidd störf eru ein meginstoða atvinnulífs á sunnanverðum Vestfjörðum og talið er að allt að 150 manns á svæðinu hafi beinan starfa vegna eldis. Í dag er fiskeldið í örum vexti og líklegt er talið, ef áætlanir ganga eftir, að innan fárra ára verði það jafnvel veigameira í atvinnulífi byggðafélagsins en hefðbundinn útvegur. Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri eldismála hjá Fjarðalaxi og formaður Landssambands fiskeldisstöðva, er einn af stofnendum
laxeldisfyrirtækisins Fjarðalax. Fyrirtækið er með starfsstöðvar í þremur fjörðum: Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði, og hefur framleiðsluleyfi fyrir 4500 tonnum af laxi árlega. ,,Um þessar mundir erum við svo að sækja um 6 þúsund tonn í viðbót,“ segir Höskuldur. Umsóknin er í umhverfismati, ásamt umsóknum annarra framleiðenda. ,,Þetta er mjög tímafrekt ferli og dýrt og tekur sennilega um tvö ár.“ Hjá fyrirtækinu vinna nú 60 manns og má búast við að talsvert fleiri muni bætast við eftir því sem framleiðslan eykst. „Við getum ekki fengið allt okkar starfsfólk fyrir vestan svo fólk flyst þangað til þess að vinna fyrir okkur.“ Húsnæðismálin standa þeim þó fyrir þrifum. „Á svæðinu hefur uppbygging hefur hröð undanfarin ár og nú skortir íbúðarhúsnæði. Við vonumst þó til að úr því verði leyst fljótlega því allir atvinnurekendur á svæðinu þrýsta mjög á um lausnir.“ Vegna vaxandi starfsmannafjölda segir Höskuldur þá líka vera mjög áhugasama um að bæta við á svæðinu menntun í fiskeldisfræðum á framhaldsskólastigi. Til þessa hefur fyrirtækið þurft að mestu að búa til sinn eigin mannskap og innan raða þess er fólk úr öllum áttum, t.d skipstjórnarmenn, vélstjórar, fiskeldisfræðingar og kafarar. Höskuldur segir það vera bæði dýrt og tímafrekt og gott væri ef framboð af fólki með  viðeigandi menntun væri meira. „Núna eru til háskólabrautir í fiskeldisfræðum en við teljum að gott væri að byrja að mennta fólk fyrr í þessum fræðum. Við viljum líka fá krakkana á svæðinu í sumarvinnu og kynna þeim þessa atvinnugrein. Það er alltaf betra að ráða fólk sem býr á staðnum. Ef það eru atvinnutækifæri á svæðinu fyrir ungt fólk er það líklegra til að vera um kyrrt og þá er gott ef það getur menntað sig þar líka.“ Höskuldur það líka vera hamlandi áframhaldandi vexti að í dag séu Vestfirðir ekki eitt atvinnusvæði sökum erfiðra l samgangna yfir veturinn. ,,Það er að sjálfsögðu afleitt að stóran hluta af árinu eru nánast engar samgöngur á milli norðanverðra og sunnanverðra fjarðanna. Það er brýn þörf á Dýrafjarðargöngum og auðvitað þyrfti Vestfjarðavegur að vera betri. Ef fólk sem býr á norðanverðum fjörðunum gæti sótt vinnu á suðurfjörðunum myndi það skipta gríðarlegu máli fyrir fyrirtækin. Ég tala ekki um það sem fiskeldi gæti þá gert til að stuðla að uppbyggingu á norðanverðu svæðinu líka.“

Landgæði nýtt til fullnustu

Ástæður þessa uppgangar í fiskeldi á Vestfjörðum eru ekki síst að skilyrði eldis hafa batnað umtalsvert undanfarin ár með hækkandi hitastigi sjávar. „Við virðumst vera komin inn í réttan geisla,“ segir Höskuldur. „Fyrir vestan fáum við hlýtt sumar þótt veturinn sé auðvitað kaldur. Við erum með aðeins lægra hitastig en samkeppnisaðilar okkar í Færeyjum en með því að nota heita vatnið okkar við seiðabúskapinn getum við framleitt stærri seiði . Þau eru svo tvö sumur og einn vetur í eldi og vegna stærðar seiðanna getum við alið þau á samkeppnishæfum tíma.“ „Við hér á Íslandi getum nýtt okkur landgæði til að stytta sjótímann og minnka þannig framleiðslukostnað,“ segir Höskuldur.

höskihiphop

Byggt á reynslunni

Fyrsta bylgja íslenskra eldisfyrirtækja kom um 1980 en eins og flestir vita urðu þau fyrirtæki fyrir mörgum skakkaföllum. Höskuldur segir að ástæður þess hafi verið þríþættar: Óheppilegur stofn, slæmur búnaður og vanþekking. „Íslenski stofninn sem þá var notaður var of seinvaxta og því ekki heppilegur til eldis. Búnaðurinn sem menn völdu þoldi illa íslenskar aðstæður og þekkingin á eldissvæðunum var einfaldlega ekki næg. Hann segir að í dag sé staðan allt önnur,
búnaðurinn sé miklu betri, stofninn sömuleiðis og staðsetningin rétt. ,,Það má segja að önnur alda sé komin af stað í fiskeldinu, þar sem Fjarðalax er einna fremst í flokki. Við erum með frábæran eldisstofn frá Stofnfiski í Vogunum og njótum góðs af þekkingu sem hefur skapast í greininni. Við sækjum líka þekkingu til Færeyinga og Norðmanna og vitum hvaða víti ber að varast. Þekkingin er líka sótt til Bandaríkjanna sem kaupir um 70% af framleiðslunni.Við erum því vel
samkeppnisfær við aðrar þjóðir hvað eldi varðar,“ segir Höskuldur.

Hágæða framleiðsla

Laxinn frá Fjarðalaxi fer aðallega til hágæða kaupenda eins og Whole Foods verslunarkeðjunnar sem einungis kaupir vottaðar vörur. ,,Þannig er okkar viðskiptamódel.Við höfum sjúkdómalaust umhverfi og notum engin fúkkalyf. Við megum því ekki aflúsa og þess vegna er kappsmál að halda laxinum lúsarlausum. Við notum líka ímynd Íslands sem byggir á hreinu vatni úr náttúrulegum vatnsuppsprettum og leggjum áherslu á að við notum jarðhitavatn í eldisstöðvunum.“ Þá er það einnig mikilvægt fyrir kaupendur að vita að Fjarðalax notar kynslóðaskipt eldi sem þýðir að eldi fer fram í tveimur fjörðum í einu meðan sá þriðji er í hvíld. „Hvíldin gengur út að að leyfa náttúrunni að jafna sig og storka henni ekki með ofnotkun,“ segir Höskuldur. Hann segir þetta viðskiptamódel vera lykilatriði því flutningskostnaður héðan sé mikill og ekki hægt að keppa við stóra framleiðendur eins og Norðmenn. „Að keppa við Norðmenn á þeirra mörkuðum væri eins og við færum að keppa við Brasilíu í fótbolta. Við þurfum því að vera með sérstaka vöru því við fáum hærra verð fyrir þær. Við fáum kannski ekki alltaf hæsta verðið en við lendum heldur ekki í lægðum, verðið til okkar helst nokkuð stöðugt hátt.“

Góður lagarammi er nauðsynlegur

Hvað framtíðarhorfur íslensks fiskeldis varðar telur Höskuldur þær vera mjög góðar. Nú þegar er búið er að gefa út leyfi fyrir um 30þúsund tonna ársframleiðslu til íslenskra fiskeldisfyrirtækja og sótt hefur verið um annað eins. „Fiskeldi á Íslandi er klárlega komið til að vera. Erlendir fjárfestar eru t.d mjög áhugasamir og undanfarið hefur verið merkjanleg ásókn í að koma og sjá hvað við erum að gera. Við sjáum heldur engar beinar ógnanir; við höfum markaðslega sérstöðu
og ímynd landsins sem matvælaframleiðsluland er mjög góð, það getum við þakkað íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Hér er sjúkdómaleysi og heitt vatn og við getum boðið upp á vottaða framleiðslu. Eldislega eru svæðin líka ásættanleg. Það er því vel réttlætanlegt að fara í uppbyggingu.“ Hann segir að það verði hins vegar að vanda til verka og byggja eldið skynsamlega upp. Fiskeldið sé ný grein og það sé mikilvægt að stjórnsýslan axli sína ábyrgð og tryggi góðan lagaramma. Sé það gert væri t.d hægt að sneiða hjá ýmsum vandamálum sem Norðmenn glími reglulega við, eins og laxalús. Í Noregi séu eldisstöðvar svo þéttar að erfitt sé að eiga við lús og aðra sjúkdóma sem komi upp reglulega. Sem hluti af þeirri viðleitni að hafa hemil á sjúkdómum sé líka mikilvægt að hafa kynslóðaskipt laxeldi og það hafi Landssamband
Fiskeldisstöðva á sinni stefnuskrá. Hérlendis er fiskeldi einungis leyft á fáum svæðum: Á Vestfjörðum, Austfjörðum og Eyjafirði, og segir Höskuldur það vera mikilvægt að skipuleggja þessi takmörkuðu svæði vel. ,,Ef margir ráðast í laxeldi og reglurnar eru ekki nógu góðar getur hæglega farið illa.“ Fiskeldi krefjist bæði mikilla fjárfestinga og langtímasjónarmiða og þessu verði stjórnvöld að átta sig á. ,,Við megum ekki slaka á neinum kröfum. Ef fólk fer of geyst verðum við öll fyrir tjóni og störf tapast.“ Mikil uppbygging sé framundan í fiskeldinu sem eigi eftir að skapa landinu fleiri störf og meiri tekjur. Það verði hins vegar að fara að öllu með gát.

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir