Mesta sjóslys Íslandssögunnar

Mesta sjóslys Íslandssögunnar
January 15, 2015 Elín

Skipalestin QP 13 ferst við Straumnes

Þegar 240 manns fórust í einu vetfangi úti fyrir Straumnesi árið 1942 var það mesti skipsskaði sem hér hefur orðið. Björgunarafrekið sem þá var unnið var sömuleiðis eitt hið mesta í sögu landsins en með miklu harðfylgi tókst að bjarga 250 manns. Skipin sem fórust voru hluti af skipalest Breta, QP 13, og var ekkert fjallað um atburðinn í fjölmiðlum á sínum tíma.

Voru á leiðinni heim
Það var laugardaginn 5.júlí 1942 sem skipalestin QP-13 var á siglingu úti fyrir Bolungarvík í miklum vindi og lélegu skyggni. Í lestinni voru nítján skip. Þau höfðu verið fleiri en daginn áður var lestinni skipað að skipta sér upp. Sextán skip skildu sigla með Austfjörðum og halda til Norðurvestur-Skotlands en hin nítján áttu að fara vestur með Norðurlandi, suður með Vestfjörðum og til Hvalfjarðar. Flest þessara skipa voru bandarísk skip á leiðinni heim en þau sem fóru til Bretlands voru bresk. Með lestinni sem sigldi til Íslands voru nokkur fylgdarskip, bresku tundurduflaslæðararnir Niger og Hussar, franska korvettan Roselys og tveir vopnaðir breskir togarar, Lady Madeleine og St. Elstan. Yfir skipalestinni var maður að nafni John Hiss, skipstjóri um borð í bandaríska kaupskipinu American Robin. Foringi verndarskipanna var Antony J. Cubison, skipherra á Niger.

Slæmt skyggni
Kaupskipunum nítján var stillt upp í fimm raðir. Veðrið var slæmt; norðaustan vindur og átta vindstig, lágskýjað og rigning. Skyggni var ekki nema um ein sjómíla. Það sem var þó alvarlegast í stöðunni var að ekki hafði sést til himintungla til þess að taka staðarákvörðun síðan 2.júlí og því vissu menn ekki hvar skipin væru nákvæmlega stödd. Urðu menn nú að reiða sig á stefnu, dýptarmælingar og áætlaðan siglingarhraða til að reyna að staðsetja sig.Um klukkan sjö að kveldi ræddu þeir saman, Cubison og Hiss, og reyndu að átta sig á stöðunni. Þetta var áríðandi því skipin nálguðust Vestfirði hratt og ákveða þurfti leiðina vestur fyrir kjálkann. Cubison vissi líka að Bretar höfðu lagt tundurduflabelti milli norðvestanverðra Vestfjarða og austurstrandar Grænlands til að hindra þýsk skip í að komast framhjá Íslandi og út á Atlantshaf til að ráðast á skip Bandamanna. Um tíu sjómílna breið renna var í gegnum beltið og þurftu skipin að sigla þar í gegn. Staðsetning skipanna var því gríðarlega mikilvæg. Cubison áleit að skipalestin væri stödd um 21 sjómílu norð-norðvestur af Horni og lagði líka til að skipin væru í tveimur röðum en ekki fimm. Tundurduflagirðingin og staðsetning hennar voru hernaðarleyndarmál og vissi skipalestarstjórinn, John Hiss, ekki af henni. Mögulega hefði hann gert það ef ætlunin hefði verið frá upphafi að hann tæki við þessu hlutverki en skipting QP 13 hafði komið snöggt upp. Þegar þeir Cubison ræddu saman um staðsetningu skipanna má þó velta fyrir sér af hverju beltið bar ekki á góma í samtalinu, beint eða óbeint. Um klukkan átta mældi áhöfn Niger dýpið og á grunni mælingarinnar og annarra gagna var talið að skipalestin væri stödd norðaustur af Straumnesi og þar með komin vestur fyrir Horn. Siglingarstefnunni var breytt í suðvestur með stefnu utanvert við Straumnes og norðan við Aðalvík. Niger tók nú forystuna og reyndi að ná landsýn til að fá nákvæmari staðsetningu. Um klukkan tíu telja þeir sig sjá hamravegg um eina sjómílu framundan og breyta snarlega um stefnu svo þeir sigli ekki í strand. Niger sendir hins vegar önnur boð fjörutíu mínútum síðar og segja að þetta hafi ekki verið klettar heldur borgarísjaki. Brýnt væri því að breyta strax stefnu og sigla í suðvestur. Það var hins vegar um seinan.

Niger copy

Niger

Niger hverfur í hafið
Skyndilega sjá menn á næstu skipum, St. Elstan og beitiskipinu Edinburgh, hvar tundurduflaslæðarinn springur í loft upp eftir að hafa siglt á tundurdufl sem rífur undan því botninn. Niger leggst á hliðina,umlukið brennandi olíu, og hverfur á örskotsstundu með manni og mús. Þarna fórst 80 manna áhöfn og 39 sjóliðar sem höfðu verið á Edinburgh. Ráðist hafði verið á skip þeirra við Rússlandsstrendur en þeim hafði verið bjargað og voru þeir á leiðinni heim. Um stund er mönnum orða vant af undrun og hryllingi, við Íslandsstrendur töldu þeir sig örugga. Því næst verður uppi fótur og fit er nærstödd skip reyna að sveigja frá slysstaðnum.
Tundurduflaslæðarinn Hussar stefnir þó rakleitt til björgunar þar sem Niger fór niður.

Hybert sekkur
Næst kveður við sprenging undir stafni bandaríska farmskipsins Hyberts. Um borð voru 54 sjómenn og byssuliðar, auk farþega af bandaríska skipinu Syros sem hafði verið sökkt af þýskum kafbáti í maí. Allir um borð æða í björgunarbáta enda springur annað dufl undir skipinu tíu mínútum eftir þá fyrstu og skipið er sokkið tæpri klukkustund síðar. Lánið var þó með þeim í lokin og allir bjargast. Alger glundroði ríkti nú á hafinu þar sem nánast enginn vissi af tundurduflabeltinu. Skip voru að springa, menn þóttust heyra skothríð og vatnssúlur þeyttust til himins. Ástæða þess var að þegar tundurdufl springur leiðir þrýstingshöggið frá því oft til þess að önnur tundurdufl springa. Sumum fannst þeir jafnvel sjá slóð eftir tundurskeyti í sjónum. Menn héldu því að óþekktur óvinur leyndist í veðursortanum en þar sem sprengingarnar voru allt í kringum skipin vissu menn ekkert hvert ætti að stefna.

Heffron og Massmar sökkva
Næst til að springa er bandaríska flutningaskipið Heffron með 77 manns um borð. Skammt framan við brúna verður ægileg sprenging og í kjölfarið fylgja aðrar tvær. Margir særast eða missa meðvitund en þar sem skipið helst lengi á floti komast allir nema einn um borð á fleka og svo í björgunarbáta. Bandaríska flutningaskipið Massmar er næst í röðinni, það fær á sig tvö dufl nánast samtímis. Þremur björgunarbátum og tveimur flekum er komið í sjóinn en tveir bátanna fara á hvolf og mennirnir fljóta um í ísköldum sjónum. Um borð í þriðja bátnum er ekki einn maður. Skipin æða um svæðið en vita ekkert hvert þau eiga að fara til að forða sér undan hryllingnum. Um borð í herskipunum liggja fyrir upplýsingar um að á svæðinu sé tundurduflabelti en menn átta sig ekki strax á að þeir hafi siglt inn í það. Almennt er talið að þýskir kafbátar séu komnir. Vopnuðu togararnir tveir þeytast um, reyna að finna kafbátana með hljóðsjám og varpa djúpsprengjum. Fallbyssur og vélbyssur eru notaðar til að skjóta á skugga í veðursortanum.

John Randolf[1] copy

John Randolf til hægri

John Randolph og Rodina sökkva
Bandarískt fimm mánaða frelsisskip, John Randolph, springur næst og fer skipið í tvennt. Framhlutinn helst þó á floti og af þeim sextíu sem voru um borð komast allir af nema fimm. Sovéska flutningaskipið Rodina fær nú á sig dufl á stjórnborða. Í skipinu eru m.a eiginkonur og börn sovéskra sendiráðsmanna í London. Við sprenginguna ryðst sjórinn inn og skipið leggst á hliðina. Þrjátíu og níu farast með skipinu en sextán bjargast. Panamaskipið Exterminator siglir einnig á dufl, skemmist, en sekkur ekki. Núna fara menn um borð í vopnuðu skipunum að átta sig á að þeir hljóta að hafa siglt inn í tundurduflabeltið og gripið er til aðgerða samkvæmt því. Veðrið hamlar þó mjög aðgerðum.Tundurduflaslæðarinn Hussar leiðir nokkur kaupskipanna inn á Ísafjarðardjúp og reynir að ná nákvæmri staðsetningu. Vopnuðu togararnir tveir og korvettan Roselys sigla á meðan á milli tundurduflanna og leita skipbrotsmanna.

 

Ótrúlegt björgunarafrek
Þessa nótt var unnið ótrúlegt þrekvirki er tókst að bjarga um 250 manns af þeim rúmlega 500 sem voru um borð í skipunum sem sukku. Helst má þakka það ótrúlegri elju áhafnar litlu korvettunnar Roselys sem sigldi í rúmar sex klukkustundir innan um tundurduflin, í miklum sjó, og fiskaði skipbrotsmenn upp úr sjónum. Tókst þeim að bjarga hvorki meira né minna en 179 manns og er þetta björgunarafrek eitt hið mesta sem hér hefur verið unnið. Togararnir Lady Madeleine og St. Elstan björguðu svo ríflega sextíu manns. Sjóslysið er þrátt fyrir það mesta sjóslys sem hér hefur orðið. Breska flotastjórnin á Íslandi frétti fljótt af slysinu og sendi þegar í stað beitiskipið Kent á staðinn en það var þá við gæslu milli Vestfjarða og hafísrandarinnar undan Austur Grænlandi. Skyldi það hjálpa við að safna skipunum úr QP13 saman og koma þeim til Hvalfjarðar. Lady Madeleine og St. Elstan voru einnig í því verkefni, ásamt togaranum Helgafelli RE-280 sem var staddur í grenndinni. Öll skipin sem enn flutu komust til Hvalfjarðar. Nokkrir íslenskir síldarbátar sem höfðu verið á leið á miðin frestuðu því og héldu inn á Aðalvík í staðinn. Einn bátanna, Vébjörn ÍS, fór á staðinn til að leita skipbrotsmanna og hafði með sér yfirmann bresku ratsjárstöðvarinnar við Aðalvík. Nokkrir úr áhöfn voru skildir eftir í bátunum í Aðalvík þar sem þetta þótti hættuför. Ekki tókst Vébirni að finna neinn á lífi en kom hann til baka með nokkur lík sem voru svo sótt af Roselys. Kosið hafði verið til Alþingis þennan dag og þegar slysið varð sat fólk í Aðalvík heima og hlustaði á útvarpið til að fylgjast með úrslitum kosninga. Sprengingarnar sem urðu þegar duflin sprungu heyrðust þar vel og hélt fólk að mikil sjóorrusta ætti sér stað skammt úti fyrir. Næstu vikur rak bæði lík og brak upp á land víða á Vestfjörðum en ekkert birtist í fjölmiðlum um hvað hefði átt sér stað. Í rannsókn sem fór fram á orsökum slyssins var meginniðurstaðan sú að siglingarfræðileg mistök vegna slæms veðurs hefðu átt sér stað við staðarákvörðun um borð í Niger. Veðrið hafði sömuleiðis valdið því að ekki var hægt að staðsetja skipin í þrjá daga á undan slysinu. Þá var talið að það hefði átt sinn þátt í slysinu að Hiss, skipalestarstjóri á American Robin, hafði óvænt tekið við því hlutverki þegar skipalestinni var skipt upp norðvestur af landinu. Hiss vissi ekki af tilhögun varna norðvestur af Íslandi og þ.a.l vissi hann ekkert um tundurduflabeltið og staðsetningu þess. Var það enn fremur lagt til að radíóvita yrði komið fyrir við Straumnes.

Nokkrir minnisvarðar
Skipalestirnar sem sigldu um Atlantshafið voru mikilvægur hlekkur í stríðsrekstri Bandamanna. Í hvert sinn sem lagt var af stað var það í hættuför, bæði vegna vígvéla Þjóðverja en náttúran sjálf torveldaði líka för. Engar opinberar upplýsingar voru veittar um sjóslys QP 13 á sínum tíma og íslenskir fjölmiðlar greindu ekki frá því. Í seinni tíð hefur fólk þó orðið upplýstara um atburðinn og hafa tveir minnisvarðar um slysið verið reistir. Má þar fyrstan nefna minnisvarða í Neðstakaupstað á Ísafirði sem rússneska sendiráðið lét gera um Rússana sem fórust um borð í Rodina. Var það afhjúpað árið 2005 en þá voru 60 ár voru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Síðara minnismerkið var afhjúpað þann 5.júlí 2014 og er það við Stigahlíð í Bolungarvík en bærinn stendur næst slysstaðnum. Þessi hörmulegi atburður mun því seint falla í gleymskunnar dá aftur.

Blaðamaður: Sigrún Erna Geirsdóttir
Heimildir: Dauðinn í Dumbshafi, Magnús Þór Hafsteinsson, Vísir, Morgunblaðið og BB.is

Greinin birtist í 3.tölublaði Sjávarafls 2014