Huginn VE 55 ára

Huginn VE 55 ára
January 16, 2015 Elín

Í desember 2014 fagnaði útgerðin Huginn VE 55, 55 ára starfsafmæli sínu. Þeir buðu hátt í 200 gestum til stórfenglegrar veislu til að fagna með sér þessum merku tímamótum. Veislan var haldin í Elheimum í Vestmannaeyjum. Huginsútgerðin hefur átt mjög farsælan feril í þau 55 ár sem hún hefur starfað og hefur skapað sér stóran sess í útgerðarsögu Vestmannaeyja. Stofnendur útgerðarinnar eru þau Guðmundur Ingi Guðmundsson og Kristín Pálsdóttir frá Þingholti ásamt Óskari Sigurðssyni. Stjórnendur útgerðarinnar hafa ávalt verið þekktir fyrir dug, þor og mikla framsýni. Því til stuðnings ber að nefna að Guðmundur Huginn, sem er nú annar skipstjóri skipsins, var upphafsmaður makríls- og gulldepluveiða á Íslandi. Eins og áður kom fram voru það upphaflega Guðmundur Ingi, Kristín, eða Stína eins og hún var ávalt kölluð, og Óskar sem stofnuðu útgerðina. Þau keyptu sinn fyrsta bát árið 1959, sem var eikarbátur, og nefndu hann Huginn. Með þessum kaupum urðu þau um leið hluthafar í Vinnslustöð Vestmannaeyja.
Árið 1964 létu þau svo smíða Huginn II VE 55, sem var stálbátur, og gerðu þau báða bátana út samtímis. Það var svo árið 1968 sem Guðmundur Ingi og Stína keyptu hlut Óskars í útgerðinni og hefur útgerðin verið í eigu fjölskyldu þeirra hjóna alla tíð síðan. Árið 1972 tók útgerðin þátt í togaravæðingunni með kaupum sínum á Vestmannaey VE 1972. Um aldarmótin síðustu var nýji Huginn, sem útgerðin gerir nú út, keyptur og var það á þeim tímamótum sem synir hjónanna tóku við keflinu og hafa stjórnað útgerðinni sómasamlega alla tíð síðan. Börn Guðmundar og Stínu eru þau Guðmundur Huginn, Páll Þór, Gylfi Viðar og Bryndís Anna. Guðmundur Huginn og Gylfi viðar standa vaktina í brúnni og Páll Þór starfar sem útgerðarstjóri.