„Það er búinn að vera ágætis afli hér á línuna í haust, engin ofurveiði, en þetta hefur verið að jafna sig upp með um 200 kíló á balann,“ sagði Kári Borgar Ásgrímsson skipstjóri og útgerðarmaður á Borgarfirði eystra þegar haft var samband við hann rétt eftir miðjan október. Kári segir að sex til átta heimabátar hafi verið að róa og svo hafi verið fimm aðkomubátar að norðan þar líka, aðallega Dalvíkingar og úr Hrísey. „Þeir voru sjö þegar mest var og allir á færum. Þetta er nýlunda hér að aðkomubátar að norðan séu að róa en þeir hafa verið að sækja í fiskinn.“
„Annars er nú ástandið hjá okkur þannig núna að við erum að verða búnir með kvótann þótt fiskveiðiárið sé nýlega hafið. Ég er að stoppa annan bátinn minn og Kalli Sveins er búinn að stoppa einn bát hjá sér.“ Aflinn er aðallega þorskur að sögn Kára og er hann lagður upp hjá Fiskverkun Karls Sveinssonar auk þess sem það fer á markað sem hann ræður ekki við að verka. „Það hefur samt verið allt of mikið af ýsu í þessu enda er hún um allan sjó þrátt fyrir að hún eigi ekki að vera til. Maður er orðinn uppiskroppa með ýsukvóta.“ Kári segir engin vandræði að fá beitningamenn en tveir hafa verið að beita hjá honum. Allir Borgarfjarðarbátar róa með landbeitta línu. „Það er nú ekki mikil sókn í þetta hjá mér núna. Ég reri þrjá róðra í síðustu viku og skrapp svo suður á fund í tvo daga. Svo tek ég mér alltaf frí um helgar.“ Kári á þrjá báta en sem fyrr segi er bara einn þeirra á sjó núna. „Mig vantar góðan mann til að vera með einn bátinn. Ég gæti svo sem fengið mann en það eru bara þessar kröfur sem ég geri að menn verði að búa á staðnum, sem koma í veg fyrir það,“ sagði Kári og hló.