Hleypur hálfmaraþon í sjóklæðnaði

Hleypur hálfmaraþon í sjóklæðnaði
August 19, 2014 Elín

„Ég ætla að bæta um betur núna og hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í sjóklæðnaði en ég hljóp 10 kílómetrana í fyrra,“ segir Kjartan Þór Kjartansson sjómaður úr Vestmannaeyjum eða Kjartan á Múla eins Eyjamenn kalla hann gjarnan. „Jú þetta er erfitt, ætli það bætist ekki ein 10 kíló við með því að vera í alklæðnaði frá 66°norður en það fyrirtæki styrkir mig mjög vel og hefur gert alveg samfellt þótt ég hafi slasast á hendi á sjó og verið frá vinnu í átta mánuði,“ segir Kjartan og bætir við að nú spái sólskini þegar hlaupið fer fram á laugardaginn og það sé ekki besta veðrið fyrir hann til að hlaupa í gallanum. „Það væri eiginlega gott að það kæmi kröftug lægð yfir með tilheyrandi rigningu því gallinn er alveg þéttur og andar ekkert. Maður svitnar hressilega í þessuen ég læt það þó vera að hlaupa í stígvélum og læt góða strigaskó duga,“ sagði hlaupagarpurinn þegar spjallað var við hann en þá var hann að ljúka léttri 5 kílómetra æfingu, eins og hann sagði.

Kjartan sagði mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni meðan hann væri að ná sér í hendinni en hann klemmdist á milli á grandaravír og segist mega telja heppinn að halda höndinni. Hann segist hafa verið vel á sig kominn fyrir slysið enda í krefjandi starfi um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE. Nánar má lesa um hlaup Kjartans á facebooksíðunni Áskorun Múlans og síðan er ástæða fyrir fólk að fara inn á www.hlaupastyrkur.is og heita á Kjartan Þór Kjartansson en hann styður við „Einstök börn“ sem er stuðningsfélag barna með sjaldgæfa, alvarlega sjúkdóma.