Samtök smærri útgerða vaxa og dafna

Samtök smærri útgerða vaxa og dafna
September 3, 2014 Elín

Fyrir rétt rúmu ári, á lokadaginn 11. maí í fyrra, voru Samtök smærri útgerða (SSÚ) stofnuð á Hóel Hellissandi. Stofnendur höfðu áður verið í Landssambandi smábátaeigenda (LS) en voru ósáttir þar og fannst engan þeir engan skilning fá innan þess sambands. Þess vegna klufu þessir útgerðarmenn sig út úr LS og stofnuðu eigin samtök. Flestir eru þeir af Snæfellsnesi en síðan hefur samtökunum hægt og sígandi vaxið fiskur um hrygg og útgerðarmenn annars staðar af landinu gengið til liðs við þau. Aðalstöðvar samtakanna eru í Ólafsvík og formaður Samtaka smærri útgerða er Bárður Guðmundsson útgerðarmaður og skipstjóri en framkvæmdastjóri þeirra í hlutastarfi er Helga Guðjónsdóttir.

Betri umgengngi við fiskinn og betri aðbúnaður áhafnar

Helga segir brýna þörf hafa verið á þessum samtökum. „Okkar félagsmenn sáu þörf fyrir að stækka bátana í 15 metra lengd vegna breytts útgerðamynsturs  og kröfu markaðarins um ferskt og gott hráefni.  Frumvarp um stækkun smábáta var síðan samþykkt s.l. sumar. Í okkar hópi eru aðallega bátar sem gerðir eru út allt árið og aðalrökin fyrir stækkun 15 metra voru þau að með þessari stækkun fengjum við öruggari báta á öllum sviðum.  Bátarnir eru rýmri fyrir áhöfn og öll vinnuaðstaða og aðbúnaður skipverja betri.  Önnur rök eru varðandi umgengni við hráefnið, þar setja okkar félagsmenn gæðin í fyrsta sæti. Það er vaxandi krafa um að fiskur sé blóðgaður í ísvatni og þannig kældur strax áður en gengið er frá honum í lest.  Í minni bátum hefur ekki verið pláss fyrir slíkan krapabúnað og vegna plássleysis í minni bátunum hafa verið dæmi um að menn hafi verið að koma að landi með mikinn afla óísaðan og illa frágenginn. Við teljum að með samþykkt stækkunarfrumvarpsins hafi verið tekið stórt skref til framtíðar. Næsta skref er að opna fyrir það að menn fái að nota þau veiðarfæri sem þeir kjósa hverju sinni.  Menn hefðu þá t.d. í vetur mögulega haft tækifæri á að forðast ýsuna í öllum ýsukvótaskortinum sem verið var að kljást við.“

Útgerðum innan samtakanna fjölgar

Í SSÚ eru í dag 13 öflugar útgerðir með um 20 línubáta, sem róa allan ársins hring.  Helga segir fjölgun útgerða innan SSÚ gerast hægt og sígandi. „Þessar útgerðir eru af Vesturlandi, Vestfjörðum og af Norðurlandi. Það eru engin sérstök inntökuskilyrði í samtökin önnur en þau að umsækjandi geri út bát. Stjórnarformaður samtakanna er Bárður Guðmundsson útgerðarmaður Kristins SH í Snæfellsbæ. Við Bárður störfum saman að stjórnun SSÚ, við höfum ekki komið okkur upp skrifstofu ennþá en félagið fylgir mér og ég svara símanum þar sem ég er hverju sinni.“  

Brýn þörf yfir þessi samtök 

Hún er bjartsýn á framhaldið og viss um að SSÚ eigi eftir að vaxa og dafna. „Ég held að áherslur okkar félagsmanna séu svo ólíkar áherslum LS að það hafi verið brýn þörf á að stofna sér samtök fyrir þennan hóp enda ólíkar aðstæðu sem gert er út við og einnig ólíkir bátar,“ sagði Helga Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka smærri útgerða.