Var stungið í fangelsi af portúgölsku lögreglunni

Var stungið í fangelsi af portúgölsku lögreglunni
September 4, 2014 Elín

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, átti að baki farsælan skipstjóraferil áður en hann gerðist hafnarstjóri. Eitt því sem situr eftir er níu mánaða sýningarferðalag um Evrópu á vegum Trefja í Hafnarfirði.

IMG4 (1)

Upp og niður með Evrópuströndum

Guðmundur er búinn að vera hafnarstjóri á Ísafirði í tólf ár og þekkir hann sjóinn vel af eigin raun. Fimmtán ára fór hann á sjó í heimahögum í Bolungavík og kláraði Stýrimannaskólann 21 árs. Hann var skipstjóri á þremur skipum frá KEA: Sólfellinu, Súlnafellinu og Snæfellinu og lauk svo skipstjóraferlinum á Stakfellinu frá Þórshöfn. ,,Það sem stendur upp úr er að ég komst áfallalaust upp úr þessu öllu sem er allt annað en sjálfgefið. Ég hef líka verið svo heppinn að sigla með mörgum úrvalsmönnum, eins og til dæmis Jóni Egils frænda mínum í Bolungavík og Herði Guðbjartssyni, á Guðbjarti frá Ísafirði, sem var bæði vandaður maður og varkár.” Guðmundi er margt minnisstætt frá árum sínum á sjó en einna minnisstæðast segir hann vera verkefni sem hann tók að sér fyrir Trefjar í Hafnarfirði árið 1998. Verkefnið var samstarfsverkefni Trefja, DNG, Borgarplasts og Perkings bátavéla og stutt af forvera Íslandsstofu, Útflutningsráði. ,,Þá réðu þeir mig til þess að fara í sýningarferð um alla Atlandshafsströnd Evrópu á 33 feta Cleopatra fiskibáti.” Eftir að báturinn hafði verið fluttur til Rotterdam með Bakkafossi sigldi Guðmundur einn á bátnum niður með  Atlantshafsströnd Evrópu. ,,Frá Hollandi lá leiðin til Belgíu, svo Frakklands, Baskalands, Spánar og Portúgal. Þá var verið að halda heimssýninguna í Lissabon og þar var báturinn sýndur í tengslum við íslenska básinn svo þar var ég í tvo mánuði.” Þar komst Guðmundurinn og báturinn líka í sjónvarpsfréttirnar, svo merkileg þótti þessi sigling hans. Eftir að sýningunni lauk hélt Guðmundur aftur af stað á bátnum, upp með Evrópuströndum. Heimsótti hann þá hafnir í Hollandi, Englandi, Skotlandi, Shetlandseyjum, Danmörku og Noregi. ,,Í Noregi fór ég alla leið upp til Þrándheims, á sjávarútvegssýningu sem þar var haldin. Sú ferð var öll mjög skemmtileg, enda er gríðalega fallegt að sigla við Noregsstrendur.”

Aftakaveður á flóanum

Guðmundur segir að ferðin hafi í heild sinni verið afar vel heppnuð og í kjölfarið hafi Trefjar selt talsvert af bátum með alls kyns búnaði til Evrópu. ,,Þetta var mjög árangursrík ferð og það mætti segja að þetta hafi verið upphafið að útflutningi bátanna. Svo var þetta rosalega gaman líka, það skemmir ekki fyrir.” Veðrið átti sinn hlut í að ferðin gekk svo vel en þó brugðust veðurguðirnir einu sinni ferðalangnum og komst Guðmundur í hann krappann á ferð sinni frá Lorient í Frakklandi til Bermeo í Baskalandi. ,,Það var á Biscaya flóa sem ég lenti þarna í aftakaveðri, einn í bátnum. Ég gat ekki siglt til baka og því var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram. Þetta átti vera 15-18 tíma ferð hjá mér en þetta varð eitthvað á þriðja sólarhring og sennilega er þetta erfiðasta sigling sem ég hef farið í. Hreinasta svaðilför og mér var alveg hætt að standa á sama. En báturinn brást ekki og skilaði mér heilum til hafnar. Eftir þetta fékk ég ofurtrú á þessum báti. Enda nota Bolvíkingar hann mikið og þeir eru kappar sem sigla í hvaða veðri sem er svo það er eins gott að bátarnir standi fyrir sínu.”

Endurnýjun vinskapar

Yfirleitt stoppaði Guðmundur nokkra daga á hverjum stað og sýndi bátinn sjómönnum á staðnum. Var þetta gert í samvinnu við sjómannafélagið á hverjum stað en ferðin hafði að hluta til  verið skipulögð í gegnum Evrópusambandið sem hluti af átaki til að uppfæra smábátaflota sambandsins. Vildi ESB styrkja það framtak að kynna nýja gerð af smábáti sem gæti hentað fiskimönnum á svæðinu. Guðmundur sigldi yfirleitt  síðdegis og gisti gjarnan á sjómanna- eða gistiheimilum. Hann segir að hann hafi kynnst mörgum á leiðinni en einna best hafi verið að endurnýja vinskap við gamlan félaga, Luis Das Neves, á meðan hann dvaldi í Portúgal út af heimssýningunni. Honum hafði Guðmundur kynnst þegar hann lærði portúgölsku í Lissabon 1984. ,,Blessaður karlinn er dáinn núna, hann var orðinn sjúkur af krabbameini þegar ég hitti hann aftur en við áttum þarna dýrmætan tíma saman og ég er þakklátur fyrir það.“ Portúgalskan hefur raunar þjónað Guðmundi vel því síðar átti hann heima í þrjú ár á Grænhöfðaeyjum þar sem portúgalska er töluð.

Í kast við lögin

Ferðin var í heild sinni mjög ánægjuleg en Guðmundur lenti þó í ýmsum ævintýrum, eins og að vera varpað í fangelsi. ,,Á ferð minni niður strendur Portúgal kom ég auðvitað við á nokkrum stöðum og það má segja að þetta hafi byrjað í annarri höfninni, Aveiro. Þá gerist það að skömmu eftir að ég kem í höfn fæ ég heimsókn frá lögreglunni og biður hún um að skoða hjá mér pappírana. Ég læt þá fá skipspappírana, íslenska prófskírteinið og fleira og þeir skoða það. Síðan segja þeir mér að samkvæmt lögum megi ég ekki vera einn um borð. Ég segi þeim hins vegar að ég hafi til þess öll tilskylin leyfi og réttindi og stuttu síðar fara þeir frá borði.“ Guðmundur heldur för sinni áfram og eftir eitt stopp kemur hann til bæjarins Peniche. Þar fær hann aðra heimsókn frá hafnarlögreglunni. ,,Þeir segja við mig: Ertu ennþá einn? Það er komin fram kvörtun þess efnis að þú sért einn að sigla. Ég svara þeim sem fyrr að ég sé í fullkomnum rétti til þess og hafi öll tilskylin réttindi.  Þeir virðast sætta sig við það, stimpla pappírana og fara.“ Ekki var hann þó sloppinn því tíu mínútum síðar koma þeir aftur á fleygiferð og handtaka Guðmund. ,,Þeir fóru með mig beint í fangelsið og henda mér í dýflissuna. Síðan er ég leiddur fyrir varðstjóra sem les mér sakarefnið: Að ég hafi svívirt portúgölsk lög með því að sigla einn á vélbáti milli hafna, þrátt fyrir að hafa verið varaður við þessu athæfi. Ég svaraði þessu auðvitað því til að ég sé Íslendingur, á íslenskum báti og megi þetta. Ég dró fram réttindin og pappírana, enn einu sinni, og sýndi þeim. Það skipti engum togum, mér var hent í dýflissuna aftur.“ Guðmundur fékk þó að nota símann og hringdi hann í Auðunn, eiganda Trefja. Rakti Guðmundur fyrir honum söguna og sagði að Auðunn yrði að ganga í málið ef þetta ætti að leysast. Þegar komið var undir kvöld fór faxtækið á lögreglustöðinni að mala og hvert blaðið á fætur öðru spýttist út. Auðunn var þá búinn að grafa upp íslensku lögin en ekki voru þau til á öðru tungumáli en okkar ástkæra ylhýra og ekki hægt að þýða þau á einum degi. ,,Varðstjórinn lætur þá ná í mig og sennilega voru þeir farnir að skilja þarna að þeir hefðu fangelsað mig á röngum forsendum og ég væri ekki forhertur glæpamaður. Ég snara þessu yfir á portúgölsku fyrir þá og þegar ég var búinn að lesa slepptu þeir mér. Við skildum á ágætum nótum en þeir voru harðir á því að ég væri að svívirða lögin.” Á leið um portúgölsku ströndina fékk Guðmundur nokkrar aðvaranir í viðbót en ekki var hann þó handtekinn aftur.

IMG3 (2)