Um mánaðamótin apríl og maí síðastliðin hætti Guðrún María Jóhannsdóttir á Norðfirði störfum hjá Fjarðaneti í heimabyggð sinni en þá hafi hún starfað þar á skrifstofunni og hjá forvera Fjarðanets í 37 ár. Hún hefur verið skrifstofustjóri og um tíma framkvæmdastjóri á þessum tæpu fjóru áratugum. Tengsl hennar við sjávarútveginn í gegnum tíðina hafa því verið mikil auk þess sem eiginmaður hennar Gísli Sigurbergur Gíslason var útgerðarmaður, skipstjóri og síðast hafnarstjóri í Neskaupstað, en hann lést fyrir fimm árum.
Guðrún, sem nú stendur á sjötugu, þekkir því vel ýmislegt tengt sjávarútveginum á Norðfirði og víðar því starfsvæði fyrirtækisins náði, undir lok starfsferils hennar, víða um land. „Ég er fædd og uppalin hér á Norðfirði en bein kynni mín af sjávarútveginum hófust þegar ég sem unglingur hóf störf í frystihúsi SÚN í Neskaupstað sem seinna varð frystihús Síldarvinnslunnar. Svo kynntist ég manninum mínum en hann og faðir hans, Gísli Bergsveinsson, áttu og gerðu út Björgu NK-103. Ég sá aðallega um börn um bú. Ég fór þó með á vetrarvertíðir til Vestmannaeyja á sjöunda áratugnum og fram til 1971. Þá tíðkaðist að austfirskar útgerðir gerðu út báta sína sunnanlands frá áramótum og fram í mai. Svona hafði það verið frá því snemma á öldinni og bæir á Austurlandi nánast tæmdust af karlmönnum, en konur og börn voru eftir heima. Ég var heppin og gat fylgt útgerðinni til Eyja yfir veturinn. Vertíðarflakk Austfirðinga hætti svo eftir 1970 þegar skuttogararnir komu. Svo fór ég einnig með manninum mínum í siglingar bæði með Björgu og eins seinna þegar hann leysti af á Berki NK, og sigldi með ísvarinn fisk til Hull og Grimsby á níunda áratugnum. Eftir að tengdafaðir minn dó árið 1971, þá sá ég um bókhald, reikningagerð og uppgjör við mannskapinn en Lilli Matt (Þórður Þórðarson) sá ávallt um ársuppgjörið. En aðalvinnan á þessum árum var að hugsa um börn og bú.“
Hann hringdi bara í mig
Utan heimilis fór Guðrún að vinna eftir að Friðrik Vilhjálmsson, netagerðarmeistari og eigandi Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar, hringdi í hana og baða hana að hjálpa sér í nokkrar vikur þar sem skrifstofumaðurinn hefði veikst. „Ég gerði það og fór síðan í sumarfrí. Ég var ekki fyrr komin heim en Friðrik hringdi aftur að koma. Þetta varð svo samfelld vinna í 37 góð ár.“ Á þessum tíma breyttist starfsumhverfið mikið og öll vinnubrögð, jafnt á skrifstofunni sem á netaverkstæðinu. „Já það var það allt handskrifað, reikningar, launaseðlar og allt en fljótlega fór ég að vélrita skilagreinar. Það var nú ekki mikið at tækjum, reiknivél og ritvél en um 1990 fékk ég tölvu, sem hélt utan allt launakerfið. Það var mikill lúxus og svo kom ýmislegt nýtt fljótlega á eftir.“ Hún segir að sér hafi verið hent beint í djúpu laugina. „Mér var bara strax treyst fyrir öllu launum, reikningum,innheimtu og bókhaldi en ársuppgjörið var hjá endurskoðanda.“
Um tuttugu manns í vinnu
Á þessum fyrstu árum Guðrúnar hjá Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar störfuðu á bilinu 14-24 og Guðrún segir alltaf einhverjar konur hafa verið í hópnum. Hún segir samskiptin við útgerðarmennina og skrifstofufólk þeirra hafi ávallt verið góð. „Útgerðarmennirnir og sérstaklega skipstjórarnir höfðu aftur á móti meiri samskipti við verkstjórana okkar þá Bjarna H. Bjarnason (Halla Bjarna), Tryggva Vilmundarson og Steindór Björnsson sem og auðvitað Frissa sjálfan. Samskiptin voru nú aðallega gegnum síma en margir komu þó í netagerðina. Frissi var mjög vel kynntur og vel látinn af þessum mönnum. Stemningin var oft mikil þegar síldin var hér á haustin og bátarnir voru að koma inn með rifin veiðarfæri. Á árunum 1992-1995 sáum við Steindór Björnsson verkstjóri alveg um rekstur Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar en Frissi hafði þá veikst.“
Jón Einar Marteinsson tók við rekstri Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar 1995 og nokkrum árum seinna var nafni fyrirtækisins breytt í Fjarðanet hf. Guðrún var þá áfram við störf hjá fyrirtækinu sem á þessum árum færði út kvíarnar og yfirtók netagerðir í öðrum landshlutum. „Já þá bættust við netagerðir á Ísafirði og Akureryri ásamt gúmmíbátaþjónustu hér fyrir austan og fyrir vestan. Á þessum tíma breyttist mjög mikið. Skipin urðu stærri og veiðarfærin líka, flottrollinn komu inn og alls konar þjónust bættist við hjá okkur, m.a. fyrir Alcoa á Reyðarfirði. Það var mjög mikil reynsla og skemmtilega að takast á við ný verkefni og fjölbreyttari. Þá kynntist maður meira sölumönnum frá innflutningsfyrirtækjunum eins t.d. Seifi hf., Skagfjörð, Hampiðjunni og fleirum.“
Saknar góðra vinnufélaga og vinnuveitanda
Guðrún segist hafa verið búin að taka ákvörðun um að hætta störfum 1. maí sl. og hún tekur undir að hún sakni vinnunnar. „Já, svei mér þá. Ég hef haft svo góða vinnufélaga og vinnuveitendur að það er alveg einstakt en ég er samt alveg sátt við að hafa tekið þessa ákvörðum.“ Hvað ætlar hún svo að taka sér fyrir hendur í „ellinni“? „Góð spurning. Ég starfa með Félagi eldri borgar hér, ferðast mikið og svo er ég meðhjálpari hér í Norðfjarðarkirkju, þannig að það er alltaf nóg að gera,“ segir Guðrún María Jóhannsdóttir fyrrum skrifstofustjóri á Norðfirði.