Aflamarkskerfið eina vitið

Aflamarkskerfið eina vitið
November 20, 2014 Elín

Afnema ætti strandveiðikerfið að mati Ragnars Árnasonar, prófessors. Aflamarkskerfi ætti að vera það eina sem notað væri hér við land því það skilaði okkur mestum arði. Strandveiðikerfið væri hrein sóun á verðmætum.

Ragnar Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, fór yfir samanburð kerfa og mögulegar sameiningar þeirra. Ragnar hóf erindi sitt á að segja að það væri að því leyti frábrugðin fyrri erindum málstofunnar að hann horfði á málið frá hagsmunum þjóðarinnar í heild en ekki út frá hagsmunum ákveðins hóps. Fara þyrfti varlega með þetta mesta fjöregg þjóðarinnar sem fiskurinn væri. Það þurfi því að nýta þessar auðlindir eins vel og framast er unnt. Tjón á þessu sviði gæti orðið okkur dýrkeypt.

STerkur veiðiréttur útgerðaraðila sagði Ragnar vera lykilatriði svo þeir gætu sem best hagað sínum áætlunum um veiði og fjárfestingum. Þá þyrftu réttir hvatar að vera fyrir hendi. Nauðsynlegt væri að hafa sem minnsta brenglun á hvötunum, þ.e ekki styrki, uppbætur, sérskatta, boð eð abönn. Þetta væru almennt viðurkennd sannindi í allra efnahagsstjórn.

Aflamarkskerfi í hreinni mynd þar sem aflaheimildir væru öruggar, varanlegar og framseljanlegar, færu langt með að ná þessari nauðsynlegu hagkvæmni. Þetta væri vissulega ekki fullkomið kerfi en ekkert betra kerfi hefði fundist og reynslan af því væri undantekningarlaust góð á heimsvísu. Af þessum sökum væri aflamarkskerfi lang algengasta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum. Fjórðungur heimsafla væri tekið undir þessu kerfi. Nánast eina ástæða fyrir því að það væri ekki tekið upp á öllum stöðum væri sú að ekki væri alls staðar hægt að stunda það eftirlit sem kerfið krefst.

Því miður hefði okkur ekki lánast að halda okkur við hreint aflamarkskerfi. Við hefðum veikt varanleikann og öryggið og þar með brenglað hvatann til að gæta ýtrustu hagkvæmni. Lagðir hefðu verið á háir og brenglandi skattar sem veiktu hvatann líka, og að endingu veitt hluta aflans undir öðrum kerfum.

Ragnar sagði að hér væru þrjú kerfi: venjulega aflamarkskerfið, krókaaflamarkskerfið og strandveiðikerfið. Það síðastnefnda væri að henda peningum.

Ragnar tók fyrir tjónið sem myndaðist við þorskveiðar. Ef horft væri á krókaaflamarkið þá tapaðist þar 1,5 milljarður, 1,9 milljarðar í strandveiðikerfi, 400 milljónir vegna byggðakvóta og 300 milljónir vegna línuívilnunar. Byggði hann þetta á tölum frá fiskmörkuðumÞetta væru samtals 4,1 milljarður. Þetta væru ekki nákvæmar niðurstöður en gæfu góða mynd af stöðunni.

Niðurstaða hans væri því að sameina ætti öll kerfi í eitt sem væri þá eins konar aflamarkskerfi. Það væri einfaldlega þjóðhagslega brýnt. Útkoman úr þessu yrði réttur fjöldi smábáta og stærri skipa. Afnema ætti strandveiðikerfið. Spurði Ragnar: Hvaða vit er því að hjálpa ákveðnum hópi fólks en taka peninga frá öllum öðrum? Alltaf ætti að hugsa um hag heildarinnar en ekki lítilla hópa. Ef þjóðarframleiðslan yxi væri hægt að láta ábatann renna til allrar þjóðarinnar.