Einar Gíslason makrílbúnaðarhönnuður

Einar Gíslason makrílbúnaðarhönnuður
July 11, 2014 stjori

Einar Gíslason hönnuður á Akranesi

Hefur haft í nógu að snúast við að útbúa makrílbáta

Rúlluskógurinn á færabátum sem veiða makríl er mikill um sig og áberandi. Fyrirtækið Stálfélagið á Akranesi hefur unnið að hönnun og samsetningu makrílveiðibúnaðar fyrir marga báta síðustu árin og núna í vor hefur mikið verið að gera hjá Einari Gíslasyni eiganda fyrirtækisins og hönnuði búnaðarins. Búnaðurinn samanstendur af færarúllum frá DNG með sérstökum makrílkerfum, innfluttum plastrúllum, slíturum og rennum auk safnbúnaðar sem sameinar allar rennurnar um borð í bátnum. Einar hefur hannað rennu- og slítarakerfið. Hann setur það saman en síðan hafa Jötunstál á Akranesi og vélsmiðja Sævars Matthíassonar séð um niðursetningu í bátana en látlaus straumur báta hefur verið til Akranesi í vor og á fyrstu dögum sumars til að fá makrílveiðibúnað um borð.

„Þetta eru aðallega smábátar sem eru með 5 til 7 slítara hver en tvær gular rúllur eru á hvern slítara Stærsti báturinn sem kemur til okkar núna er Valþór GK-123 en það er um 60 tonna bátur. Svo eru vélsmiðjur víða um land líka að setja þetta niður jafnvel einhverja farnar að smíða og fara frjálslega með hönnunina. Bátarnir sem koma hingað eru auk heimabáta af Suðurnesjum og Snæfellsnesi. Þeir koma allir á mínum vegum.“ Einar segir að á síðustu makrílvertíð hafi hann selt um 160 slítara í báta og þeir verði líklega fleiri núna. „Það gekk yfirleitt vel á makrílnum og margir af efstu bátunum voru með búnað frá okkur. Menn segja mér að í dag séu ekki veiðar sem geti borgað kostnaðinn við búnaðinn á fyrstu vertíð en það gerðist hjá nokkrum í fyrra. Með makrílkerfinu og uppsetningu kostar þessi búnaður um tvær og hálfa milljón frá okkur á meðalbát en svo er auðvitað annar eins kostnaður við DNG rúllurnar. Síðan bætast slóðar og ýmislegt smálegt við.“

Einar segist líka búast við að einhverjir fari á makríl eftir fyrsta september þegar strandveiðum líkur. Makrílveiðarnar máttu byrja 1. júlí en veðurfar gerði það að verkum fæstir komust á sjó fyrstu dagana þrátt fyrir að víða hefði orðið vart makríls.