Á rölti mínu um Reykjavíkurhöfn nú á dögunum rakst ég á frumkvöðulinn Davíð Frey Jónsson. Davíð hefur opnað svokallaðann matarvagn við Reykjavíkurhöfn, vagninn kallar hann Walk the Plank. Mér lék forvitni á að vita meira um þessa starfsemi Davíðs og fékk því að spyrja hann nokkurra spurninga. Davíð Freyr á bátinn Fjólu GK sem er 15 tonna smábátur sem hann notar m.a. til veiða á grjótkrabba en grjótkrabbinn er einmitt undirstöðuhráefni borgaranna sem Davíð selur í vagninum. Hann kveðst einnig vinna allt hráefnið sjálfur. Ég byrjaði á því að spyrja hann hvenær veiði grjótkrabbans færi fram en hann sagði mér að hún færi fram á haustin. Því næst spurði ég hann hvernig viðtökurnar hefðu verið og sagði hann þær hafa verið frábærar. “Þetta var framar mínum björtustu vonum”. Hann tjáði mér einnig að hann hefði þurft að loka í nokkra daga í sumar þar sem hann hefði ekki haft undan við að framleiða fyrir vagninn. Ég spurði Davíð hver væri hans helsti markhópur og sagði hann það aðallega vera erlenda ferðamenn. “Það kemur mörgum á
óvart að nýting á krabba sé nýjung hér á landi þar sem erlendis sé krabbi mjög þekkt vara”. Davíð hefur verið að veiða um 4-6 tonn af grjótkrabba á ári hverju og segist hann vinna krabbann nánast einungis í höndunum. Hann sagði að það sem helst stæði í vegi fyrir frumkvöðlastarfsemi sem þessari væri hversu lítið magn af afurð væri seld í einu og því geti verið slungið að koma svona litlu hráefni í gott verð. Hann ákvað því að fara þá leið að koma vörunni sjálfur til neytandans. “Þá ákvað ég að grípa til þess ráðs að koma afurðinni sjálfur beint til neytandans, fá viðbrögð hans og í kjölfarið fékk ég tilfinninguna fyrir því að þetta væri vara sem íslendingar væru spenntir fyrir. Ég ákvað í raun að sérsníða leið til að koma
vörunni minni á markað“. Við hjá Sjávarafli fengum að sjálfsögðu að smakka grjótkrabbaborgarann. Það má með
sanni segja að við höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Borgararnir eru mjög bragðgóðir með sætum keim og tekst Davíð vel til við að blanda kryddinu saman við kjötið sjálft. Við mælum því hiklaust með að fólk geri sér ferð niður á Reykjavíkurhöfn gagngert til að smakka þessa dýrindis borgara.