Nauðsynlegt að koma á framfæri því sem vel er gert

Nauðsynlegt að koma á framfæri því sem vel er gert
November 17, 2014 Elín

Hvað fær viðskiptavininn til að kaupa tiltekna matvöru? Í viðhorfskönnun á vegum Íslandsstofu fyrr á þessu ári í fjórum löndum (Danmörku, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi) kom fram að uppruni fisks hafi mikilvæg áhrif á kauphegðun. Stór hluti svarenda í löndunum nefndu heimaland sitt sem fyrsta kost sem upprunaland. Færri en 10% svarenda nefndu Ísland sem fyrsta kost en 20-30% svarenda nefndu Ísland sem annan kost.

Að stór hluti svarenda velji fisk frá heimalandi sínu sem fyrsta kost getur þýtt ýmislegt, t.d. að fólk velur það sem það telur sig þekkja og treystir. Í upplýsingasamfélagi er orðið auðvelt að nálgast upplýsingar um allt milli himins og jarðar og leitarvélar eru í flestum tilvikum fljótar að framreiða það sem leitað er að. Það er því litið mál fyrir viðskiptavininn að afla sér upplýsinga um fyrirtæki og eins ef eitthvað kemur upp á í framleiðslu á það orðið greiðan aðgang að neytendum í gegnum fréttaveitur.

Eva 2Hildur

Samhliða þessu verða kröfur neytenda meiri og þeir vilja versla við fyrirtæki sem sýna fram á ábyrgð í rekstri og gagnvart umhverfi og samfélagi. Stórar verslunarkeðjur í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar eru farnar að svara þessum kröfum og stór hluti af heimasíðum þeirra fer nú í að fjalla um hollustu og sjálfbærni. Hjá Wholefoods er t.d. mikil áhersla á sjálfbæran sjávarútveg og notast við ströng gæðaviðmið.

Fyrirtæki í sjávarútvegi eru farin að finna fyrir þessum kröfum og ýmsar leiðir hafa verið þróaðar til að bregðast við. Ein algengasta leiðin er að móta sér stefnu og setja mælanleg markmið þar sem hægt er að sýna áhrif fyrirtækisins á umhverfi og samfélag. Þannig er hægt að upplýsa hagsmunaaðila, þar með talið neytendur og viðskiptavini um áhrif fyrirtækisins og framleiðsluvöru þess. Mörg tæki hafa verið þróuð til að bregðast við áhættum og tækifærum sem fylgja umhverfis- og
samfélagsmálum fyrirtækja. Mörg erlend sjávarútvegsfyrirtæki, þar á meðal í Noregi, Suður-Afríku,
Danmörku og Nýja Sjálandi, hafa fléttað sjálfbærni – eða umhverfis- og samfélagsþáttum – við stefnu sína og vinna árlegar sjálfbærniskýrslur eftir alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um starfsemi sína. Í skýrslunum er fjallað um frammistöðu fyrirtækisins á margvíslegum sviðum, t.d. rekjanleika vöru, aðfangakeðju, öryggismál og vinnuumhverfi starfsmanna, kolefnisfótspor, rannsóknar- og þróunarverkefni sem fyrirtækið tekur þátt í og efnahagslega frammistöðu. Ástæðan fyrir því að þessi fyrirtæki sjá sér hag í þessu er jafnframt sú að það er fjárhagslega hagkvæmt.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í forystu á margan hátt. Svo örfáir þættir séu nefndir þá er
lagaumhverfið um veiðar byggt á sjálfbærni, tækniþróun mikil, tækjakostur góður, lagaumhverfi
hagstætt starfsfólki og endurnýjanleg orka notuð í vinnslu. Lítið er hins vegar gert til að upplýsa um þessa þætti til neytenda og annarra hagsmunaaðila. Það eru því mikil tækifæri í því að koma á framfæri því sem vel er gert. Það er mjög áhugavert fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi til að kynna sér betur leiðir til að sýna fram á yfirburði sína og taka þátt í samkeppninni sem ábyrgur sjávarútvegur.

Greinin birtist í 1.tölublaði Sjávarafls 2014

Höfundar: Eva Margrét Ævarsdóttir og Hildur Hauksdóttir
RoadMap – www.roadmap.is