Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrrum skipstjóri og alþingismaður, var á bási Faxaflóahafna á sjávarútvegssýningunni og seldi bókina Skipstjórnarmenn. Tvö bindi eru komin út af þessu mikla riti sem Guðjón segir mjög vandað enda sé mikil vinna lögð í öflun gagna og frágang bókarinnar. „Annað bindið kom út í fyrra en fyrsta bindið kom út fyrir fimm árum. Þriðja bindið er nú í vinnslu og verið að fara yfir textann í því og byrjað að afla mynda. Við erum að vonast til að það komi út á þessu ári.“ Guðjón er sjálfur í ritnefnd bókarinnar og með honum eru Guðjón Ármann Eyjólfsson, Friðrik Ásmundsson í Vestmannaeyjum, Magni Kristjánsson í Neskaupstað og Bjarni Bjarnason á Akureyri. „Áður voru með okkur þeir Jónas Gíslason á Akureyri og Guðlaugur Gíslason sem var framkvæmdastjóri Stýrimannafélagsins til margra ára.“
Æviskrárnar orðnar 7.600
Í bókinni eru æviágrip skipstjórnarmanna ásamt því á hvaða skipum þeir voru og Guðjón segir svo ítarefni inn á milli tengt þessum mönnum eins og bjarganir eða þátttöku þeirra í atvinnulífi og fleira. „Í þessum bókum eru allir sem hafa tekið skipstjórnarpróf, meira að segja gömlu skútuskipstjórarnir eru í bókunum og sá elsti var fæddur 1740. Síðan eru þarna þeir sem tóku Fiskifélagsnámskeiðin á síðustu öld og allir sem hafa tekið próf í stýrimannaskólunum hér. Líka þeir sem tóku pungapróf og bættu síðan við sig meiri réttindum. Við erum búnir að skrifa 7.600 æviskrár og skanna inn 211.000 myndir og við gamlingjarnir í ritnefndinni höfum bara metnað fyrir að vinna þetta sem áhugamál og viljum hafa þetta veglegt. Það er fínn pappír í þessum bókum til að myndirnar skili sér sem best og ef þetta tekst vel hjá okkur þá verður þetta bara fín grafskrift fyrir okkur í ritnefndinni. Þetta selst hægt og rólega. Það eru áskrifendur að þessu og svo erum við ritnefndarmennirnir bara að selja bækurnar og kynna. Auk þess hefur bókin verið til sölu hjá útgefanda í Art Gallerý á Skúlagötu 32 og eins í einhverjum bókaverslunum.“
Var of þung í kojuna
Áformað er að ritið verði í sjö bindum. Guðjón segir fyrsta bindið hafa verið þykkara en annað bindið. „Við minnkuðum annað bindið um hundrað síður því fólk kvartaði svo undan því að bókin væri of þung. Það væri ekki hægt að taka hana með sér í koju. Því höldum við okkur við stærðina á öðru bindinu á þeim sem eftir eiga að koma út en vegna þessa fjölgaði bindunum úr fimm í sjö.“ Guðjón segir mikla vinnu við að afla heimilda og skrá þær. „Svo þegar handritið er tilbúið þarf að yfirfara allt saman og færa til nútímans. Athuga þarf hverjir eru látnir og hvort eitthvað hefur bæst við eða breyst eins og fjölskylduhagir. Við reynum þannig að bæta við þá þekkingu sem hægt er að ná í fram á síðustu stundu,“ sagði Guðjón Arnar Kristjánsson.