Líklegt er talið að fiskeldi muni sjá fyrir tveimur þriðju af fiskmeti í heiminum í kringum 2030.
Hefðbundnar veiðar eru taldar hafa náð hámarki á meðan vaxandi eftirspurn er eftir fiski á
heimsvísu. Þrátt fyrir skin og skúri í íslensku fiskeldi hafa framleiðendur náð ágætis árangri og
sjá nú fram á bjartari tíma.
Í ljósi vaxandi fiskneyslu og þess að veiðar á fiski hafa líklega náð hámarki hefur verið litið til fiskeldis sem uppsprettu fiskmetis. Fiskeldi er því ört vaxandi atvinnugrein og er Ísland ekki undanskilið. Í skýrslunni Fish to 2030: Prospects for Fisheries and Aquaculture sem Alþjóðabankinn gaf út á þessu ári kemur fram að fiskeldi muni sjá fyrir tveimur þriðju af
fiskneyslu árið 2030. Er þetta í takti við spá Alþjóðamatvælastofnunarinnar sem gerir ráð fyrir að aukning á framboði á fiskmeti muni að mestu koma frá fiskeldi og áætlar stofnunin að framleiðslan geti orðið um 90 milljónir tonna árið 2030. Er einkum litið til þess að fiskneysla miðstéttarinnar hefur aukist mikið undanfarin ár, sérstaklega í Kína. Eldi, hvort sem það er á fiski eða skeldýrum, er sá hluti matvælaframleiðslu sem vex einna hraðast á heimsvísu og er í stöðugri þróun. Stærstu eldisframleiðendurnir eru í Asíu, með um 90% af öllu eldismagni, og er Kína þar langfremst í flokki með um 60% framleiðslunnar. Í Evrópu eru Norðmenn langstærstir og framleiddu um 1,3 milljón tonn árið 2013 meðan Chile framleiðir mest í Ameríku eða um 750 þús. tonn. Íslendingar hafa litið til fiskeldis líka en þrátt fyrir að talsvert hafi verið fjárfest í uppbyggingu eldis hérlendis hefur árangurinn oft látið á sér standa. Bleikjueldið fór þó vel af stað og eru Íslendingar í fremstu röð sem framleiðendur bleikju á heimsmarkaði. Nú hefur laxeldið tekið vel við sér líka.
Mesti gangurinn í laxeldinu
Í skýrslu sem Íslenski sjávarklasinn gaf út fyrir þremur árum kemur fram að mest sé framleitt af ferskvatnsfiskum í heiminum. Ferskvatnsfiskar lifa ekki á fiskiprótíni eins og flestar eldistegundir sem eru framleiddar á norðanverðum hnettinum, heldur jurtum, lífrænum leifum og dýrum. Framleiðslukostnaður þeirra er því yfirleitt lægri. Hér á landi hefur þungamiðja fiskeldis verið sjávar- og göngufiskar. Laxinn er þekktastur göngufiskanna og hefur eldi hans gengið framar vonum. Þótt lítið hafi farið fyrir eldi sjávarfiska binda menn talsverðar vonir við þorskeldi. Í skýrslunni má sjá að heildarframleiðsla í fiskeldi hérlendis hefur sveiflast talsvert í gegnum árin. Á tímabilinu 1985-1990 fór framleiðslan úr nokkur hundruð tonnum í rúmlega 3000 tonn. Frá árinu 1991-2002 hélst framleiðslan í um 3-4000 tonnum en síðan jókst hún umtalsvert og náði 10.000 tonnum. Má rekja aukninguna til vaxtar í laxeldi á árunum 2003-2006. Vegna erfiðleika, m.a vegna sjúkdóma, hættu síðan nokkrir framleiðendur og framleiðslan datt niður aftur. Framleiðsla og slátrun stóð nánast í stað 2012-13 og var slátrað 6887 tonnum árið 2013. Eitthvað hefur orðið um nýliðun í greininni og nýjar tegundir hafa bæst við, og má m.a nefna flúrueldi á Reykjanesi.
Bjart framundan
Það sem áður ógnaði fiskeldi almennt voru miklar sveiflur á markaði, sem sköpuðust einkum vegna lítillar stærðar. Eftir því sem markaðurinn hefur stækkað hafa sveiflurnar minnkað og því er þetta orðin að stöðugri atvinnugrein. Þá hafði hrunið sem varð í fiskeldi í Chile árið 2007 vegna smitandi lungnabólgu þau áhrif að rými skapaðist fyrir aðra á markaðinum og verð á laxi hækkaði mikið. Svo virðist sem nú sé bjart framundan í fiskeldinu ef marka má leyfisumsóknir. Á ráðstefnu Landssambands fiskeldisstöðva á sl. ári kom fram í erindi Guðbergs Rúnarssonar, framkvæmdastjóra, að í dag væru rekstrarleyfi í fiskeldi fyrir 42 þúsund tonna framleiðslu. Í náinni framtíð gæti síðan eldið numið 80-90 þúsund tonnum ef leyfisumsóknir væru skoðaðar. Verðmæti þeirrar framleiðslu gæti numið 75-80 milljörðum króna en verðmætið sem það skilar nú er um 6 milljarðar. Það er því ljóst að mikill hugur er í fólki og og fiskeldi á Íslandi gæti margfaldast á næstu fimmtán árum. Mesta aukningin er fyrirséð í laxi og er reiknað með að laxeldi verði rúmlega 50% meira árið 2014 en árið á undan. Þessi aukning þýðir að sjálfsögðu að fleiri fá atvinnu við fiskeldi en talið er að í dag starfi milli 250-260 manns beint við eldi.
Mikil áhrif fyrir íbúa Vestfjarða
Þar sem fiskeldið hefur verið áberandi á sunnaverðum Vestfjörðum hafa fiskeldistengd störf haft mikil áhrif á byggðalagið og hefur mikil uppbygging átt sér á Patreksfirði, Bíldudal og í Tálknafirði. Öfugt við það sem margir telja fjölgaði íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum milli áranna 2012 og 2014 og nam sú aukning 5%. Segir einn viðmælenda í skýrslu Sjávarklasans að veruleg aukning í laxeldi sé framundan og taldi hann að Íslendingar væru að fara inn í þriðju uppsveifluna í laxeldi á tuttugu árum. Í grein sem birtist í Útvegsblaðinu sl. ár kemur fram að fiskeldisskilyrði á Vestfjörðum hafi batnað til muna undanfarin ár með hlýnun sjávar og vaxandi áhugi er á fiskeldi á svæðinu, eins og víðar um land. Vetrarhitastig hafi færst upp um c.a eina gráðu og nú haldist hitastigið í kringum 1 gráðu í stað þess að fara niður í 1 stigs frost áður, sem gerði það að verkum að ógjörningur var að ala þar fisk í sjó. Í skýrslu klasans segir að nokkra aðra sögu sé að segja um þorskeldið, enn sé nokkuð í land þar til það verður orðið arðbært. Slíkt væri þó afar eftirsóknarvert þar sem mikil þekking er á vinnslu þorsks hérlendis og mikið hefur verið fjárfest í búnaði sem hentar þorski. Sölukerfi fyrir þorsk er enn fremur til staðar. Segir í skýrslu klasans að þótt ólíklegt sé að þorskeldi verði hér nokkurn tímann mikið gæti verið mögulegt að ná 50-100.000 tonna framleiðslu. Mikil þörf er í heiminum á aukinni matarframleiðslu og mun sú þörf ekki minnka. Horfur í fiskeldi eru því góðar og þessi grein sjávarútvegs virðist vera komin til að vera á Íslandi.
Greinin birtist í 1.tölublað Sjávarafls 2014
Blaðamður: Sigrún Erna Geirsdóttir