Samkvæmt Facebooksíðu Síldarvinnslunar hófst vinnslan aftur í fiskiðjuverinu á mánudaginn eftir verslunarmannahelgi þegar Beitir NK kom með 450 tonn til vinnslu. Börkur NK er að landa 490 tonnum í fiskiðjuverið og Bjarni Ólafsson AK er kominn með 430 tonn á leið í vinnslu. Í gær fór Bjartur NK í sinn fyrsta makríltúr sumarsins og Barði NK hélt til veiða í sinn fjórða túr. Eru þá öll skip Síldarvinnslunnar á makríl nema Birtingur NK.
Það sem af er sumri hafa skip Síldarvinnslunnar landað um 8 þúsund tonnum af makríl og má því segja að makrílvertíðin gangi vel. Frystigeymslur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti um 4.000 tonnum af makríl frá Vilhelm Þorsteinssyni EA og nú er Kristina EA að landa um 2.000 tonnum. Hefur því verið landað 14 þúsund tonnum af makríl í Neskaupstað það sem af er sumri.