Sigfús Harðarson hafnarvörður og hafnsögumaður á Höfn

Sigfús Harðarson hafnarvörður og hafnsögumaður á Höfn
July 11, 2014 stjori

Sigfús Harðarson hefur verið hafnarvörður og hafnsögumaður á Höfn í Hornafirði síðan 1978. Hann var á vaktinni þegar Sjávarafl átti leið um Hornafjörð á dögunum. Sigfús sagði þá vera fjóra til fimm á vöktum við höfnina allan sólarhringinn ef með þarf. „Annars fer þetta að minnka núna með næturvinnuna hjá okkur. Nú er verið að setja upp nýja uppsjávarfiskslínu hjá Skinney Þinganesi frá Skaganum og það á að auka vinnsluna úr 400 tonnum á sólarhring í 800 tonn. Frystiskáparnir í þessari línu eru það háir að lyfta þurfti þakinu á húsinu. Um leið og þetta er gert eru lögð rör hérna þvert yfir höfnina og yfir í bræðsluna. Öllum úrgangi verður dælt þarna undir yfir í gúanóið en áður var þessu ekið á milli á vörubílum og þá urðum við að vigta þetta allt hérna á hafnarvoginni. Við sátum hérna sólarhringum saman við að vigta. Þetta minnkar því talsvert umsvifin hjá okkur. Líklega fá þeir leyfi til að vigta þetta sjálfir núna. Ég veit ekki alveg hvernig því verður háttað en þetta er gert á mörgum fleiri stöðum.“

Strandveiðin gengur vel þegar gefur

Núna er það helst strandveiðin sem lífið við höfnina snýst um. „Þetta eru 10-15 bátar sem eru hér á strandveiðunum. Kvótinn á þessu svæði næst yfirleitt ekki í hverjum mánuði þannig að menn geta oftast verið að allan mánuðinn. Þó eru flestir að ná skammtinum þegar gefur á sjó en það er helst að veðrið hafi truflað þessar veiðar í sumar.“

Stefna að því að taka inn stærri skemmtiferðaskip

Þennan daginn var lítið skemmtiferðaskip í Hornafjarðarhöfn og Sigfús segir nokkur skip koma hvert ár. „Ætli þau verði ekki fjögur þetta sumarið en svo er búist við fleirum á næsta sumri. Þetta eru ekki stór skip þau eru með um 100-200 farþega og það er farið með farþegana í stuttar ferðir hér upp að Skálafellsjökli og inn í Jökulsárlón. Annars á nú að reyna að taka stærri skip hér inn, allt að 120 metra löng. Þetta eru mjög þjál og lipur skip. Þau láta vel að stjórn enda vel útbúinn. Það er helst vindurinn sem getur gert erfitt fyrir því þau taka mikinn vind á sig vegna hæðarinnar. Það má því ekkert vera að veðri hér svo hægt sé að taka þau inn ósinn. Svo hafa þessi minni skip líka verið að koma á Djúpavog en þau leggjast yfirleitt út á þar.“

Ekki margir á makrílinn

Sigfús segir ekki marga smábáta fara á makrílveiðar. „Það er aðallega einn smábátur sem hefur verið duglegur við þetta. Stóru bátarnir Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds fara ekki á þetta strax. Ég held að menn séu að bíða eftir að hann fitni en makríllinn er mættur hér út af og svo er alltaf svolítið mikil síld saman við hann þegar hann nálgast Vesmannaeyjar. Trollbátarnir hérna eru líka allir með einhvern makrílkvóta og fara á þetta líka því ekki má færa kvótann,“ segir Sigfús Harðarson hinn gamalreyndi lóðs og hafnarvörður á Hornafirði.

Sigfús-Harðarson_3.jpg

Sigfús-harðarson_2.jpg