Víkingur kominn á endastöð í Danmörku

Víkingur kominn á endastöð í Danmörku
July 11, 2014 stjori

Víkingur AK-100, hið tæplega 54 ára gamla farsæla aflaskip, lagðist að bryggju í Grenå í Danmörku á þirðjudag eftir fjögurra sólarhringa siglingu frá heimahöfn sinni Akranesi. Í Grenå bíður skipsins að verða bútað niður og endurnýtt að mestu hjá fyrirtækinu Fornæs sem sérhæfir sig í niðurrifi skipa. Víkingur kom nýr til Akraness frá Bremerhaven í Þýskalandi 21. október 1960. Skipið Var smíðað fyrir Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem aðallega var í eigu útgerða og fiskvinslustöðva á Akranesi. Það hefur alla tíð verið með heimahöfn á Akranesi en komst í eigu HB&Co hf við sameingu SFA og HB og síðan í eigu HB Granda við aðra sameiningu. Systurskip Víkings voru þrjú; Sigurður, Freyr og Maí.

Víkingur var í fyrstu síðutogari en fór fyrst á síldveiðar með nót árið 1968. Árið 1997 var Víkingi breytt í nótaskip, byggt var yfir dekkið og ný brú sett á síðar. Aðrar umtalsverðar breytingar hafa ekki verið gerðar á skipinu frá upphafi.

Fjölmargir Skagamenn kvöddu Víking þegar hann hélt úr höfn á Akranesi en sex manna áhöfn sigldi honum til Danmerkur undir stjórn Gunnars Gunnarsson skipstjóra sem var með skipið á síðustu loðnuvertíð þess árið 2013 og Magnúsar Þorvaldssonar stýrimanns sem var skipstjóri á Víkingi í sjö ár þar á undan. Yfirvélstjóri var Sigurður Villi Guðmundsson, sem lengst allra hefur verið í áhöfn Víkings, eða samtals síðustu 38 ár.

HB Grandi á, sem kunnugt er, tvö uppsjávarveiðiskip í smíðum í Tyrklandi og fyrirhugað er að þar verði þrír ísfisktogarar einnig smíðaðir fyrir fyrirtækið. Megnið af skipastálinu, sem fellur til hjá Fornæs í Grenå, fer einmitt til Tyrklands og því gæti farið svo að stálið úr Víkingi endi í einhverju af nýju skipunum hjá HB Granda.

mynd